03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2269)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er tekin til umr. á þskj. 72, um aukna fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum, er flutt af mér og hv. þm. N-Þ. (GíslG). Þar leggjum við til, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna n., einn eftir tilnefningu Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn eftir tilnefningu Stéttarsambands bænda, til þess að kanna, hversu bezt verði komið við aukinni fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum, svo sem um ýmsa þætti þjóðskipulags-, efnahags-, félags- og verkalýðsmála. Enn fremur er lagt til í till., að n. athugi, hvort námskeiðum um þessi efni verði komið. víð á vegum Háskóla Íslands.

Það er kunnara en það þurfi að nefna hér, að samkv. þjóðskipulagi okkar Íslendinga kemur allt vald frá þjóðinni sjálfri, og hún beitir því valdi þannig að kjósa sér með a]mennum kosningarrétti fulltrúa, sem fara með það vald. Áður fyrr, þegar Alþ. var endurreist, var kosningarrétturinn mjög takmarkaður, og þurfti þá, ef ég man rétt, að eiga fasteign eða hafa lokið embættisprófi til að hafa kosningarrétt til Alþ. og kjörgengi. Síðan hefur kosningarrétturinn smám saman verið rýmkaður, þannig að nú hafa allir, sem náð hafa 21 árs aldri og hafa ekki verið dæmdir fyrir glæp, kosningarrétt til Alþ. Það má því segja, að allt vaxið fólk taki þátt í því að stjórna landinu. Það eru aðeins unglingar og börn, sem gera það ekki enn sem komið er.

Til þess að stýra bíl þarf nokkra þekkingu, og það þarf að taka próf til að fá leyfi til þess. Sama er að segja um farartæki á sjó. Það þarf ekki að vera stór mótorbátur til þess, að það sé óleyfilegt að stjórna honum öðruvísi en að hafa leyst af hendi próf í sjómannafræði. En til þess að stýra þjóðarskútunni er ekki áskilin nein sérstök þekking og ekkert próf.

Hér í þessari till. er ekki lagt til að gera það að skilyrði fyrir kosningarrétti að hafa leyst af hendi próf, sem sýni ákveðið þekkingarstig, þó að það mál væri vitanlega vel athugandi. En hætt er við, að ef slíkt væri gert, þá gæti farið svo, að þeir, sem um prófin ættu að sjá, beittu þar kannske hlutdrægni, og yrði erfiðara fyrir þá að ná slíku prófi, sem væru andstæðir þeim, sem einkunnina ættu að gefa. Skal ég ekki fara lengra út í þessar sakir, því að hér liggur alls ekki till. fyrir um það.

En hvað sem þessu líður, þá má ekki minna vera, að okkur flm. þessarar till. finnst, en að þjóðfélagið reyni að sjá almenningi fyrir nokkurri fræðslu í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum, því að þekking í þeim efnum er undirstaða þess að geta myndað sér sjálfstæða skoðun á málunum og neytt kosningarréttar síns af skynsamlegu viti, sem hugsandi þjóðfélagsborgurum sæmir, en ekki eins og fénaður, sem rekinn er í réttir á haustin.

Nú má spyrja: Veitir þjóðfélagið slíka fræðslu, sem óneitanlega er nauðsynleg? Þjóðfélagið heldur uppi mörgum skólum, og vitanlega ætti að veita slíka fræðslu í skólum, en ég held, að það sé mjög takmarkað, hvaða fræðslu skólarnir veita í þessum efnum. Það mætti að vísu fyrirskipa þeim það, og væri í raun og veru sjálfsagt að gera það, en ýmis vandkvæði eru þó á því. T. d. er það mjög breytilegt, hvernig atvinnulíf þjóðarinnar er byggt upp á hverjum tíma og þar með þau viðfangsefni, sem kjósandinn þarf að gera sér grein fyrir, og er ekki annað sýnna en að það þyrfti að gefa út nýja og nýja kennslubók hvert ár fyrir skólana, ef þeir ættu að veita nægilega fræðslu í þessum efnum. Það liggur ákaflega nærri að veita fræðslu, sem að gagni kæmi í þessu efni, í sambandi við sögukennslu, aðallega kennslu í sögu þjóðarinnar, en menn mundu læra mest á því, þó að nauðsynlegt sé að vita um sögu þjóðarinnar frá upphafi, að fá glögg skil á síðustu árum og því, sem þá hafi gerzt. En kennslubækurnar ná aldrei til allra síðustu ára. Börnin eru kannske og unglingarnir vel að sér um það, hvað gerðist á söguöld, eftir því sem hægt er nú að vita um þá hluti, og Sturlungaöld og fram eftir öldum og allt fram um síðustu aldamót, en þá er víða hætt. Ég efast um, að það sé í öllum skólum kennt ágrip af sögu þjóðarinnar fram að lýðveldisstofnuninni, hvað þá um þau ár, sem liðið hafa síðan lýðveldið var stofnað.

Það er óneitanlegt, að það hefur verið fundið til þess fyrr en nú, að fólki sé þörf á fræðslu í þjóðfélagsmálum, og hafa t. d. stjórnmálaflokkarnir tekið upp þann sið að halda námskeið, a. m. k. sumir þeirra. Þessi námskeið eru auðvitað góðra gjalda verð, og að þau eru haldin, sýnir einmitt, að menn viðurkenna þörfina á aukinni fræðslu í þessum efnum. En vitanlega eru námskeið flokkanna ekki beinlínis til þess fallin að gera menn færari um að mynda sér óhlutdræga skoðun á málunum. Námskeið flokkanna eru að sjálfsögðu meira og minna trúboðskennd, eins konar trúboðsskólar fyrir þann flokk, sem námskeiðið heldur.

En það eru fleiri ástæður en þær, að nauðsynlegt sé að búa menn undir að geta neytt kosningarréttar síns skynsamlega, sem gera fræðslu í þeim efnum, sem till. fjallar um, nauðsynlega. Svo til öll þjóðin er nú í stéttarfélögum. Þjóðin hefur skipt sér niður í alls konar stéttarfélög. Þessi stéttarfélög heyja baráttu sín á milli og við þjóðfélagið, og þegar þessar kröfur eru gerðar, þá virðist svo sem ýmsir skilji ekki, að einhver þarf að borga það, sem krafizt er. Það er eins og ýmsir álíti, að það sé hægt að krefja t. d. ríkissjóðinn um fé til eins og annars, án þess að nokkur þurfi að borga það nema ríkissjóður. Það er ekki laust við, að mér finnist sem ýmsir menn telji það nú vænlegt til fylgis að gera sem mestar kröfur til ríkissjóðsins annars vegar, en vera á móti öllum sköttum og tollum hins vegar. Vitanlega eru þeir menn, sem eru að afla sér fylgis meðal fólksins, ekki svo fávísir, að þeir haldi, að þetta sé hægt. En það, að til eru menn, sem álíta þetta vænlegt til fylgis, sýnir, að nú eru sumir beinlínis farnir að treysta á fáfræði og fávísi í þessum efnum.

Það er því af þessum tveimur ástæðum, sem ég hef nefnt, annars vegar til þess að reyna að auka þekkingu fólks almennt, svo að það geti neytt kosningarréttar síns til Alþ. og annarra trúnaðarstarfa á skynsamlegan hátt og myndað sér sjálfstæðar skoðanir, og hins vegar til þess að gera það hæfara til þess að taka þátt í alls konar félagsstarfsemi, sem nú er orðin svo mikil í landinu, að aukin fræðsla um efnahagsmál þjóðarinnar og félagsmál almennt er nauðsynleg. Ég hygg, að enginn muni geta eða vilja neita því, að nauðsyn sé á aukinni fræðslu í þessum efnum. Hitt er aftur mál, sem menn geta haft ýmsar skoðanir um, hvernig þeirri fræðslu væri bezt fyrir komið, og er það rannsóknarefni. Þess vegna er það, að við flm. þessarar till. gerum ekki ákveðnar till. um það, hvernig fræðslunni verði hagað, heldur leggjum til, að kosin verði nefnd til að kanna málið og gera sínar till. á sínum tíma.

Það má vel hugsa sér að sjálfsögðu að skipa slíka nefnd með öðrum hætti en við leggjum til í till. Þó finnst mér það ekki neitt vafamál, að háskóli landsins sé sú stofnun, sem bezt sé fallin til að eiga hlutdeild í undirbúningi þessa máls. Hugsanlegt er, að menn vildu hafa nefndina að öðru leyti skipaða að einhverju leyti á annan hátt, og er það vitanlega þá til athugunar. En okkur fannst réttast, flm. þessarar till., að fjölmennustu stéttarfélög landsins skipuðu fulltrúa í nefndina, og er það með tilliti til þeirrar hliðar málsins, sem veit að almennri félagsstarfsemi einkum, en að sjálfsögðu gætu komið þarna til fleiri aðilar, og getur það verið til athugunar í nefnd.

Þó að það hafi verið ákveðnar tvær umr. um þessa till., þá sé ég ekki, að þessi nefnd, þriggja manna nefnd, þó að skipuð yrði, mundi kosta ríkissjóð það fé, að það þurfi þeirra hluta vegna að vísa till. til fjvn. En eðli málsins er slíkt, að mér finnst það eiga að öðru leyti betur heima í allshn. Þess vegna legg ég til, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn. þingsins.