24.11.1955
Neðri deild: 23. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að láta með örfáum orðum í ljós undrun mína yfir ummælum hv. þm. A-Húnv. Honum, sem á sæti í þeirri n., sem þetta mál hefur fengið til meðferðar, hlýtur að vera kunnugt um, að allar þær stéttir, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör, hafa þegar fengið í samninga sína, að verðlagsuppbót skuli greidd að fullu á þeirra grunnkaup. Nú kemur mér mjög á óvart, og það hlýtur að teljast köld kveðja í garð opinberra starfsmanna, ef þeir eiga að vera eina launamannastéttin í landinu, sem á ekki að njóta hliðstæðra kjara. Ég heyrði engin rök af hálfu hv. þm. fyrir því, að það skyldi gilda um opinbera starfsmenn eina, að þeir fengju ekki greidda fulla verðlagsuppbót á kaup sitt, eftir að það hefði verið viðurkennt óbeint af hálfu ríkisvaldsins, að allar aðrar stéttir skuli fá slíka verðlagsuppbót á sitt kaup. Ég sakna raka fyrir þeirri staðhæfingu af hálfu hv. þm. A-Húnv. Því mætti út af fyrir sig halda fram, að engin stétt ætti að fá greidda fulla verðlagsuppbót á kaup sitt, þ. e., að verðlagsuppbótin ætti að skerðast, ef tekjurnar ná vissu marki. En það eru engin skynsamleg rök til fyrir því að láta það gilda um eina stétt launamanna í landinu, þ. e. opinbera starfsmenn. Ég vil óska þess, að hv. þm. geri nánari grein fyrir því, hvaða rök hann telur til þess, að opinberir starfsmenn skuli að þessu leyti eiga að sitja við allt annað og lægra borð en allar aðrar launastéttir í þjóðfélaginu.