19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2485)

25. mál, vélar og verkfæri til vega- og hafnargerða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á s. l. þingi flutti ég ásamt fimm öðrum hv. þm. till. til þál. um vegavinnuvélar og vegaframkvæmdir í afskekktum landshlutum, á þskj. 42, og hljóðaði tillgr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að hinum afskekktari héruðum landsins verði framvegis séð fyrir meiri og hentugri vegavinnuvélum en verið hefur til samræmis við vélakost í hinum fjölbýlli héruðum, svo að vegagerð og viðhald megi verða sem örast og ódýrast, svo og að opnun vega í héruðum til almennrar umferðar og vega- og brúaframkvæmdir almennt verði hafnar svo snemma á ári hverju sem frekast er kostur, þannig að samgöngurnar megi koma að sem beztum notum fyrir íbúana.“

Þessi till. var flutt vegna þeirra staðreynda, að sá vélakostur, sem hafði verið keyptur til landsins og notaður til framkvæmda á vega- og brúagerðum og keyptur fyrir landsins fé, hafði að langmestu leyti verið notaður í hinum fjölmennu héruðum í landinu, og hinar afskekktari byggðir höfðu fengið bæði lélegri vélar og smærri vélar til þess að vinna við og færri vélar en fjölbýlið. Hér var því framið stórkostlegt ranglæti gagnvart hinum dreifðu byggðum, þar sem á þennan hátt var skorið niður framlag til þeirra vega stórkostlega í formi vegavinnuáhaldanna, sem notuð voru.

Þessi till. var send til hv. fjvn. og kom þaðan ekki á síðasta þingi.

Ég hygg, að það hafi verið rætt um málið við vegamálastjórnina og það hafi legið fyrir þá mjög nákvæmar skýrslur frá vegamálastjóra til hv. fjvn. um, hvað til væri af vegavinnuvélum í landinu, og mér er kunnugt um frá mínu starfi í fjvn., að slíkar skýrslur lágu fyrir, venjulega bæði frá vegagerðinni og vitamálastjóra, svo að það á að vera mjög auðvelt að uppfylla þær óskir, sem fram eru bornar hjá hv. flm. undir fyrra málslið till. á þskj. 25. Það á ekki að þurfa að vera neinum erfiðleikum bundið að fá yfir það nákvæmar skýrslur, hvað til er í landinu af slíkum tækjum.

Hitt er svo allt annað atriði, hvort síðan á að setja nægilega mikið fé á fjárlögin, svo að það sé hægt að bæta úr þörfinni, eins og getið er um hér í síðari málsliðnum, en þá þykir mér ástæða til, að við till. sé bætt, og það er þess vegna, sem ég kvaddi mér hljóðs, að sú viðbót sé eingöngu látin ganga til hinna afskekktu héraða í landinu, sem árum saman hafa ekki fengið að njóta sömu gæða, hvorki í sambandi við vegavinnuvélar né heldur í sambandi við fjárframlög, eins og kunnugt er.

Ég fagna því, að till. er fram komin, að því leyti, að hún fer í sömu átt og till., sem ég og aðrir hv. þm. bárum hér fram í fyrra og urðum fyrir mjög miklum vonbrigðum, að hv. fjvn. skyldi ekki taka málið alvarlegar en gert var. Og ég vildi gjarnan óska þess, að málið yrði nú á þessu þingi afgreitt þannig, að það yrði hægt að fá umbætur á þessum málum, því að það er öllum ljóst, sem þekkja til þessara mála, að verkin verða margfalt dýrari úti í landsbyggðinni af þeirri einföldu ástæðu, að vegavinnuvélar þær, sem notaðar eru, eru miklu lélegri og afkastaminni en í þéttbýlinu.

Ég mun því á síðara stigi málsins, ef ekki koma fram brtt. frá sjálfri hv. fjvn. eða öðrum, áskilja mér rétt til þess að bæta inn í till. þeirri viðbót, sem tryggir strjálbýlinu meiri hluta en gert hefur verið hingað til í sambandi við kaup á vegavinnuvélum.