19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

135. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er nú augljóst, að fjárlög verða ekki sett í dag á hv. Alþingi, því miður, og því óhjákvæmilegt að framlengja heimildir þær til bráðabirgðafjárgreiðslna, sem settar voru í lög fyrir áramótin, og leyfi ég mér að leggja til, að heimildin verði framlengd til 1. febrúar, í trausti þess, að þá verði búið að ganga frá þessu máli. Ég vil leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti greiði fyrir málinu, þannig að það geti fengið nú afgreiðslu í deildinni. Það er óhjákvæmileg nauðsyn, og það ætti ekki að vera nauðsynlegt að vísa málinu til nefndar frekar en tíðkast um sams konar mál, þegar þau hafa áður verið til meðferðar. Geri ég því ekki till. um nefnd.