19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

135. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Sumt af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, var líkara óráðshjali, eins og ég greip fram í, en nokkru öðru skrafi, sem menn eiga að venjast. Hv. þm. veit, hvernig á því stendur, að fjárlögin hafa ekki verið afgreidd. Það er vegna þess, að það hefur vantað þingfylgi fyrir fjárlögunum. Það er ekki komið nál. til 3. umr., eða framhaldstillögur til 3. umr., af þeirri einföldu ástæðu, að það vantar þingfylgi fyrir fjárlögunum. Ég vildi afgreiða fjárlögin fyrir jól og áleit það mögulegt, eins og ég lýsti þá greinilega yfir, en það var ekki hægt að fá þingfylgi fyrir afgreiðslu á þeim þá, vegna þess að annar stjórnarflokkurinn vildi ekki afgreiða fjárlögin, eins og þá stóð, og hefur ekki viljað vera með í því enn að afgreiða fjárlögin. Þetta tók hv. þm. sjálfur fram og veit þetta ákaflega vel. Það vantar enga grg. fyrir þessu. Hún hefur verið gefin fullgreinilega, og það eru sömu ástæður fyrir hendi enn.

Ég heyri, að þeir eru að pískra um það hér tveir eða þrír hv. þm. úr stjórnarandstöðunni, að það hafi ekki verið prófað hjá þeim, hvort þeir vildu ljá fjárlögunum fylgi. Ég held, að maður hafi séð tillögur þeirra við 2. umr. fjárlaganna og þurfi ekki að sjá meira en þær til þess að sannfærast um, hvers konar fjárlög það eru, sem þeir væru í standi til að afgreiða, eins og nú standa sakir. Þeir hafa lagt til að fella niður suma af tekjustofnum ríkissjóðs, í stað þess að það þarf að leggja á nýja skatta og tolla til þess að koma fjárlögunum saman. Það var leiðinlegt, að það skyldi gleymast að tala við þá um þetta, en ég hef satt að segja tekið fullt mark á þeim tillögum, sem þeir hafa lagt fram um þetta, og láðst að spyrja um nánar, hvort þær væru allar ómerkar og þeir meintu eitthvað allt annað.

Þá var hv. 2. þm. Reykv. alveg steinhissa á því, að dráttur hefði orðið á þessum málum, og talaði mikið um, að það væri ófyrirsynju dráttur á lausn útvegsmálanna, vildi koma því inn í þessar umræður. Ég ætla ekki að ræða það neitt ýtarlega við hv. þingmann. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. hefði svarað honum, ef hann hefði verið hér viðstaddur, varðandi það sem hann sagði um hans þátt í því máli, en ég vil bara benda mönnum á eitt, þó að það sé vitaskuld óþarfi. Það er enginn vandi að leysa útvegsmálin, ef menn vildu verða við öllum kröfum, sem gerðar eru í sambandi við þau mál frá öllum, hvort sem þær kröfur gætu talizt sanngjarnar eða ekki og hvað sem það kynni að kosta í álögum á almenning. Það er enginn vandi að leysa útvegsmálin á næstu klukkustund, ef menn vildu gera þetta. En málið er bara ekki svo einfalt, og þeim, sem eiga að leysa málin, er skylt að taka á þeim öðruvísi en á þessa lund. Mér er sem ég sæi framan í þennan hv. þm., sem hér talaði áðan, og hans nóta, ef þessi háttur væri á hafður.