26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (2669)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég tel mig hafa nokkra heimild til að segja hér nokkur orð í sambandi við þessa fsp., þar sem ég var einn af þeim þm., sem greiddu atkv. með þessu frv. á sínum tíma í fyrra í því trausti, að það gæti orðið þjóðfélaginu til góðs, þó að ég tæki jafnframt fram, að ég teldi frv. mjög gallað og mjög litla von til þess, að það yrði þjóðinni til mikils góðs a. m. k.

Í sambandi við þær upplýsingar, sem hæstv. félmrh. hefur gefið hér, hjó ég eftir því, að hann sagði seinast í seinni ræðu sinni, að hann gæti ekki fellt sig við, að því væri haldið fram hér, að ríkisstj. hefði svikið eitthvað í þessu máli. Nú datt mér í hug, hvort það ætti þá að skilja það svo, að þó að ríkisstj. hefði ekki enn svikið neitt í þessu máli, byggist hún við því að þurfa að gera það seinna. En er það svo, að hæstv. ríkisstj. hafi ekkert svikið enn í þessu máli? Ég skal fyllilega fallast á það með hæstv. félmrh., að ríkisstj. og sú stofnun, sem hér átti að sjá um, þurfti að sjálfsögðu frest og hann nokkuð langan til að koma þessu máli af stað. Nú virðist samt sá frestur liðinn og það hæfilega langur að dómi hæstv. ríkisstj. sjálfrar og þessarar stofnunar, sem um málið átti að sjá. Og hvað hefur þá gerzt? Ja, það verður berlega ljóst af ræðu hæstv. félmrh., að a. m. k. það atriði úr frv. hefur ekki verið framkvæmt enn að afla lána til þessarar lánastarfsemi með sölu á vísitölutryggðum skuldabréfum, eins og ákveðið var í frv. Þetta atriði hefur því til þessa verið svikið. Ég held, að það sé ekkert ofmælt í því efni, þó að það sé sagt.

Í öðru lagi var því haldið fram hér við umr. um húsnæðismálafrv. á sínum tíma á síðasta þingi, að þar gætu allir og mundu allir, sem væru að byggja hús hér á landi, fá a. m, k. 70 þús. kr. lán út á íbúð sína eða hús. Það er margtekið fram í ræðum hv. þm. og talsmanna stjórnarflokkanna í sambandi við þetta mál. En af upplýsingum hæstv. félmrh. er ljóst, að þetta verður alls ekki, með þeirri framkvæmd, sem nú er á málinu. Hann gaf þær upplýsingar, að það hefðu þegar borizt umsóknir um lán frá 2690 aðilum. Þar frá vildi hann láta draga 588 íbúðir, sem væru teknar til afnota. Segjum nú, að það mætti, þó að það kæmi ekkert fram í í ræðu ráðh., sem benti til þess, að þessir menn hefðu ekki heimild til að fá lán samkvæmt lögum, en segjum, að það mætti draga þessar íbúðir frá. Þá eru enn eftir 2102 umsóknir, og ef hver þessara umsækjenda ætti að fá 70 þús. kr. lán, þá eru það 147 millj. röskar, sem til þess þyrfti, og þeirri eftirspurn verður a. m. k. ekki fullnægt með 36 millj. kr. á ári í 2 ár, þó að ekki sé tekið neitt tillit til þess, að þeir, sem byrja á íbúðum t. d. á næsta ári, eiga að sjálfsögðu samkvæmt lögunum kröfu á því að fá lán líka. Það yrði því nokkuð miklu hærri upphæð en 147 millj., sem þyrfti til að fullnægja eftirspurninni á þessum tveimur árum, sem fullnægja á með 72 millj., að því er mér skilst, og standa við loforð ráðherranna og talsmanna stjórnarflokkanna á síðasta þingi um að lána hverjum manni 70 þús. kr.

Það er því ekki að furða, þó að hæstv. félmrh. kvæði nú ekki fastar að orði en það, að hann gæti ekki fellt sig við það, að enn væri búið að svíkja eitthvað í þessu máli. En sýnilegt er af þessu, að það verður ekki staðið við hin fögru loforð, sem gefin voru á sínum tíma, þegar þessi lög voru samþ., og þá býst hæstv. félmrh. að sjálfsögðu við því, að svikin komi í ljós.