19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2696)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til ríkisstj. um nauðsyn verðuppbóta úr ríkissjóði. Er þar spurzt fyrir um, hversu miklar verðuppbætur hafi verið greiddar úr ríkissjóði á vörur til sölu innanlands, það sem af er þessu ári, og hve miklu sé gert ráð fyrir að þær muni nema samtals á árinu. Enn fremur hef ég spurt um, hversu miklar verðuppbætur hafi verið greiddar úr ríkissjóði á útfluttar vörur, það sem af er þessu ári, og hversu miklu ráð sér fyrir gert, að þær muni nema samtals á árinu.

Svo sem kunnugt er, hafa undanfarin ár verið greiddar verulegar fúlgur í verðuppbætur á vöru til sölu innanlands, og er gerð grein fyrir þeim árlega í ríkisreikningi eftir lok reikningsársins. Nú nýlega hefur hins vegar uppbótagreiðslukerfi ríkissjóðs fært út kvíarnar á þann veg, að tilkynnt hefur verið, að gert verði ráð fyrir, að framvegis verði einnig greiddar verðuppbætur úr ríkissjóði á útfluttar vörur. Er það í rauninni það, sem telja má höfuðatriði fsp. og mér og eflaust fleirum leikur hugur á að fá sem gleggstar upplýsingar um, hvað ráðgert sé í þessum efnum.

Því er ekki að leyna, að margir hafa alið nokkurn ugg í brjósti því viðvíkjandi, hvort heppilegt sé að hafa uppbótakerfið jafnvíðtækt og raun ber vitni. Stefnan virðist ekki vera sú að draga saman seglin á þessu sviði, heldur þvert á móti að þenja þau enn frekar.

Það hefur þýðingu að fá um þetta sem gleggstar upplýsingar, og til þess að fá þær eru þessar fsp. fram bornar.