30.11.1955
Sameinað þing: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (2753)

101. mál, endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar lýðveldi var stofnað fyrir rúmum 11 árum, voru þær einar breytingar gerðar á stjórnarskrá landsins, sem óhjákvæmilegar töldust, til þess að unnt væri að breyta nafni stjórnskipulagsins. Heitinu konungsríki var breytt í lýðveldi. Felldar voru úr stjórnarskránni nokkrar greinar, sem fjölluðu um erfðarétt konungs o. fl., en settar í þess stað nokkrar greinar um forsetann. Enn fremur var á öðrum stöðum skipt á orðunum konungur og forseti. Við þetta var látið sitja á því stigi málsins, en hins vegar lýst yfir af forustumönnum þjóðarinnar, að ráðgerð væri heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Eitt stefnuskráratriðið í málefnasamningi fyrstu þingræðisstjórnar, er settist að völdum eftir stofnun lýðveldisins, var setning nýrrar stjórnarskrár. Mun sú ríkisstjórn, nýsköpunarstjórnin svonefnda, hafa skipað nefnd til að undirbúa málið. Um störf þeirrar nefndar fréttist næsta lítið. Næsta ríkisstjórn, ríkisstjórn sú, er Stefán Jóh. Stefánsson myndaði, hafði endurskoðun stjórnarskrármálsins einnig á stefnuskrá sinni og skipaði, ef ég man rétt, nýja nefnd til að undirbúa málið. Síðar munu enn hafa verið gefin loforð og fyrirheit um þetta efni, en árangur er þó enginn sýnilegur enn, þótt komið sé nú á tólfta ár, frá því er lýðveldið var stofnað.

Vel veit ég það, að skoðanir manna hafa verið skiptar um ýmis atriði þessa mikilvæga máls og þá ekki sízt um kjördæmaskipunina, en það virðist þó engan veginn réttlæta þá þögn, sem ríkt hefur um endurskoðun stjórnarskrárinnar nú um alllanga hríð. Sýnist einsætt, að freista beri að leysa þessi mál og efna þar með fyrirheit, sem þjóðinni var ótvírætt gefið fyrir fullum áratug, fyrirheit, sem oft hefur verið ítrekað síðan.

Ég hef leyft mér að hreyfa þessu máli, að þessu sinni aðeins í fyrirspurnarformi, svo að ljóst megi verða, hvað athugun og endurskoðun stjórnarskrárinnar líður og hver er áhugi hæstv. núverandi ríkisstjórnar á því að leysa þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um einstaka liði þeirrar fsp., sem ég hef lagt fram á þskj. 118, en vænti greiðra og fullnægjandi svara.