11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

113. mál, samningar um landhelgina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru nú að sjálfsögðu ekki nema örfá orð, en ég kann heldur illa við það pukur, sem virðist vera haft á um þetta mál. Fyrst berast Íslendingum fréttir af meðferð málsins í gegnum erlend blöð og erlenda fréttamenn. Hér er spurzt fyrir um málið á Alþ. og upplýsingar fást ekki fram. Nú kemur hér fram yfirlýsing frá hæstv. forsrh., og það er óskað eftir svolítið nánari skýringu á þeirri yfirlýsingu. Þá má forsrh. ekki með neinu móti ofan á allt það, sem á undan er gengið í þessu máli, vera að því að sinna þinginu og svara nánar um þessa yfirlýsingu sína. Hann hagaði yfirlýsingu sinni þannig, að allir ráðherrar í núverandi ríkisstj. væru sammála um þetta, og hann gaf þessa yfirlýsingu f. h. þeirra allra. Hér sitja í þingsölunum allmargir ráðherrar, þó að hæstv. forsrh. hafi nú orðið að víkja af fundi. Hvernig getur staðið á því, að þessir ráðherrar, sem hér sitja þingfund, skuli ekki geta orðið við þeim tilmælum, sem hér hafa komið fram, og gefið nánari skýringu á þessu máli? Hvernig getur á þessu staðið? Ég uni ekki svona vinnubrögðum og mótmæli þeim harðlega.

Það er ekki hægt að draga aðrar ályktanir af þessu en þær, að hér sé verið að pukrast á þann hátt með viðkvæmt mál, sem þingmenn mega ekki fá að fylgjast með og ekki er ætlazt til að almenningur í landinu fái að fylgjast með. Ég skora nú á þá hæstv. ráðh., sem hér eru staddir, að þeir svari þeim fyrirspurnum, sem hér hafa komið fram, og skýrgreini nánar það, sem um hefur verið beðið í sambandi við yfirlýsingu forsrh. fyrir þeirra hönd.