15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í D-deild Alþingistíðinda. (2797)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef nú lítið að þakka hæstv. ráðh. fyrir að þessu sinni. Hann ætlar að smeygja sér gersamlega fram hjá því að svara þessari fsp. og gerir það með hreinum og beinum útúrsnúningum, segir einungis, að þessi fsp. sé brot á reglum um fyrirspurnir, og vildi rökstyðja það á þann veg, að hún væri svo óljóst orðuð, að henni væri þess vegna ekki hægt að svara.

Það er vitanlega lengi hægt að hártoga flesta hluti, en ég hélt þó, að hver meðalgreindur maður skildi, hvað er átt við með sérsviði, þegar talað er um sérsvið embættismanna. Hvað er t. d. sérsvið dómara og lögfræðinga? Hvað er sérsvið biskups? Hvað er sérsvið landlæknis o. s. frv.? Þetta virðist liggja nokkuð ljóst fyrir, enda þótt menn, þegar þeir vilja komast hjá að svara fsp., sem eitthvað koma illa við þá, geti hártogað hlutina, eins og hæstv. ráðh. hefur nú reynt að gera.