16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2814)

154. mál, glersteypa

Forseti (JörB):

Það er gleðilegt að heyra, að hæstv. forsrh. ætlar að gæta sæmdar bæði ríkisstj. og Alþ. og vera á verði fyrir því. Það er sízt, að ég vilji lasta það. Hitt hefði ég talið að heyrði forsetum líka til að gæta í nokkru réttdæmis og hrifsa ekki valdið í sínar hendur, án þess að það komi til úrskurðar alþm., þegar það liggur fyrir, að hans skuli leitað.

Um þetta og mörg önnur atriði hygg ég að kunni að vera álitamál, og er þá gott að hafa þann háttinn á, að menn geti notið sín og síns réttdæmis við afgreiðslu slíkra mála. Hvorki ummæli mín né það, sem fram kom í ræðu hv. þm. A-Húnv. (JPálm), var þannig lagað, að hæstv. ríkisstj. mætti ekki vel við una, því að við skírskotuðum til þess, að sá ráðh., sem svara ætti, hlyti að haga sínum svörum eftir eðli málsins; hvort nokkru væri svarað eða litlu, það yrði hann að meta, og tel ég, að það eigi betur við en að forseti, hver sem hann er, á hæpnum forsendum taki í sínar hendur til fulls afgreiðslu mála. (Gripið fram í: Hefur nokkur óskað þess hér, að forseti kvæði nokkurn úrskurð upp um þetta?) Það má vera, en ég þóttist taka eftir því, sem hæstv. forsrh. sagði, að hann áteldi forseta, bæði mig sem forseta Sþ. nú og fyrrverandi forseta, fyrir að ætlast til þess, að þm. greiddu atkv. um málið.

Nú hefur einn maður kvatt sér hljóðs, en ég vil biðja menn mjög um að hætta þessum umræðum, því að á þeim græðist ekki meira, en atkvgr. fer fram. Ef hv. 1. landsk. (GÞG) sættir sig við að taka ekki til máls, þá hefði ég gjarnan kosið það, en annars vil ég ekki brjóta þingmannsrétt á honum, ef hann vill segja nokkur orð.