22.02.1956
Sameinað þing: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (2817)

208. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þann 5. febr. 1953 var samþykkt á Alþ. ályktun um verðtryggingu sparifjár. Með ályktuninni var skorað á ríkisstj. að láta fara fram athugun, svo ýtarlega sem við verður komið, á því, hvort og með hverju móti takast mætti á hagfelldan hátt að tryggja verðgildi þess fjár, sem bankar og sparisjóðir taka til geymslu og ávöxtunar. Á næsta þingi gerðist það í málinu, að hv. 1. landsk. þm. bar fram fsp. um verðtryggingu sparifjár, og þá upplýsti hæstv. viðskmrh. í umr. um fyrirspurnina, þann 18. nóv. 1953, að till. hefði verið send bankanefndinni til athugunar. Næst gerðist það, að ég lagði fram fyrirspurn um málið á síðasta þingi, og var sú fyrirspurn rædd 9. marz 1955. Hæstv. viðskmrh. varð enn fyrir svörum af hálfu stjórnarinnar. Hann viðurkenndi þar, að það væri þýðingarmikið, ef hægt væri að tryggja verðgildi sparifjár, en slíkt væri allmiklum erfiðleikum bundið. Hann skýrði einnig frá því, að bankamálanefndin hefði tekið fram í bréfi um málið, að hún liti svo á, að verðtrygging sparifjár væri mjög þýðingarmikið mál, en bankamálanefndin treysti sér ekki til að skila rökstuddu áliti þá strax, en mundi taka málið fyrir á næstu fundum. Ráðh. ræddi þá einnig nokkuð um svonefnda samvinnunefnd, skipaða af bönkunum, til að undirbúa frekari ráðstafanir til sparifjársöfnunar.

Síðan þetta gerðist fyrir tæpu ári, hefur Landsbankinn hafið útgáfu og sölu á vísitölutryggðum verðbréfum samkvæmt heimild í l. frá síðasta þingi, og mun hann vera búinn að selja slík bréf fyrir nokkrar millj. kr. Það er að vísu gott, að fólki skuli hafa verið gefinn kostur á að kaupa skuldabréf verðtryggð á þennan hátt, en þó er það alls ekki fullnægjandi lausn á þessu máli, því að aldrei verður nema nokkur hluti af sparifé landsmanna ávaxtaður með því móti. Er því þrátt fyrir þessa verðbréfasölu brýn þörf á athugun á því máli, sem áðurnefnd þál. fjallaði um, og framkvæmdum í því efni.

Eins og ég gat um áðan, skýrði hæstv. ráðh. frá því, þegar málið var síðast til umr. fyrir tæpu einu ári, að bankanefndin mundi taka það til athugunar á næstu fundum og að samvinnunefnd bankanna hefði verið skipuð til að undirbúa ráðstafanir til sparifjársöfnunar. Mætti því ætla, að eitthvað hefði gerzt í málinu síðan 9. marz s. l., og til þess að leita frétta af því hef ég borið fram þessa fyrirspurn á þskj. 374.