22.02.1956
Sameinað þing: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (2819)

208. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir það svar, sem hann hefur gefið, en hins vegar tel ég ekki hægt að þakka fyrir framkvæmdina á þál., því að mér virðist, að í þessu efni stöndum við nákvæmlega í sömu sporum og fyrir ári, þegar ég einnig bar fram fsp. á þingi um málið. Hæstv. ráðh. vísaði í nál. frá svonefndri sparifjárnefnd, en þetta álit lá fyrir í fyrra, þegar málið var rætt þá, og hefur þess vegna engan nýjan boðskap að flytja. Í því áliti er ekki skýrt frá neinni athugun á því, hvernig megi verðtryggja spariféð, en slík athugun var ríkisstj. falin fyrir þremur árum, eins og ég þegar hef minnt á. Og hæstv. ráðh. viðurkenndi það rétt vera, að þó að mönnum væri nú gefinn kostur á því að kaupa vísitölutryggð verðbréf, þá væri málið ekki leyst nema að nokkru leyti með því, vegna þess að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það verði nema nokkur hluti af sparifé landsmanna ávaxtaður á þann hátt.

Við, sem fluttum tillöguna á þinginu 1952 um athugun á möguleikum til að verðtryggja spariféð, lögðum þar til, að ríkisstj. yrði falið að framkvæma eða láta framkvæma þessa rannsókn. Það gerðum við vegna þess, að málið var allvandasamt viðfangs, um leið og það er mjög þýðingarmikið, en aðstaða ríkisstj. til athugunar á málinu er miklu betri en einstakra þingmanna.

Stjórnin sendi bankamálanefndinni málið til meðferðar. Ekki efa ég, að bankamálanefndin sé vel fær til að leysa þetta verkefni, að rannsaka málið, en þó mun hún fyrst og fremst hafa verið skipuð til þess að endurskoða bankalöggjöfina, sem segja má að ekki snerti beint þetta verðtryggingarmál. Ekki hefði síður átt að koma til álita að leita samvinnu við bankana þegar í upphafi, því að telja má víst, að stjórnendur þeirra hafi áhuga á öllum ráðstöfunum, sem verða mættu til að auka sparifjársöfnunina.

Nú upplýsir hæstv. ráðh., að enn hafi ekki borizt svör frá bankamálanefndinni, og hann talar um það, að e. t. v. hafi sú n. síður sinnt málinu að undanförnu vegna þeirrar svonefndu sparifjárnefndar, sem skipuð var á sínum tíma. Hvað sem um það er þá tel ég illt, að málinu skuli ekki hafa verið þokað áleiðis, því að ástandið er nú þannig í efnahagsmálum hér á landi, að vissulega er þess mikil þörf, ekki síður en áður, að ráðstafanir verði gerðar til að hamla á móti enn vaxandi vantrú manna á gildi peninganna. Þarf ekki að hafa um það mörg orð, því að öllum hv. þm. er það að sjálfsögðu ljóst, hve óheillavænlegar afleiðingar í okkar efnahagsmálum slík vantrú hefur í för með sér.

Ef engra aðgerða er að vænta frá hæstv. ríkisstj., þá verða auðvitað aðrir, sem áhuga hafa á málinu, að undirbúa lagasetningu um það, þó að aðstaða þeirra sé ekki jafngóð og ríkisstj. til athugunar á þessu máli og til samvinnu við ýmsa opinbera aðila um það. En ég tel illt, að eyðzt hefur langur tími, án þess að hann hafi verið notaður til þess að rannsaka málið og undirbúa framkvæmdir eins og til var ætlazt, þegar Alþ. samþykkti ályktunina fyrir þremur árum.