07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst, að hæstv. forsrh. hefði átt að gefa okkur betri skýringar á þessum málum en aðeins að lesa upp fyrir Alþingi viðtal við Morgunblaðið og endurtaka að miklu leyti það, sem þar var í. Spurningin, sem hérna liggur fyrir, er ekki bara það, hvort við höfum ýmsar skoðanir á, hvernig sé hægt að reka útgerð, hvaða verðlag þurfi að vera á fiski, hvað kaupgjald eigi að vera hátt eða lágt í landinu, heldur hitt, hver er réttur manna til þess að leggja skatta á almenning. Og það er það svar, sem ég hefði gjarnan viljað fá greinilegra en ég þykist þó finna út úr þessu.

Ég ætla ekki hér að fara að deila nm spursmálið um kauphækkanirnar og annað slíkt, en ég vil aðeins benda hæstv. forsrh. á, að þegar ríkisstj. gefur Landssambandinu og fleirum eða þeirra skrifstofum rétt til þess að ákveða verðlag í landinu, þá gaf hún þeim ekki rétt til þess að ákveða verðlagið á vöxtunum frá hálfu bankanna eða verðlagið á olíunni, heldur verðiag gagnvart almenningi. Og það má lengi deila um, hvort það hefði þá ekki verið nær að geta þeim vald til þess að lækka vextina hjá bönkunum, vald til þess að lækka verðið á olíunni og annað slíkt, heldur en að gefa vald til þess að hækka verð á vörum, sem almenningur kaupir. En það, sem er aðalatriðið og ég hér held mér við, er þetta: Hverjir eru það, sem ráða verðlagi á þeim vörum, sem ríkisstj. gefur einokun á, hefur einkavald á? ríkisstjórninni er sett ákveðið vald, þegar hún fær sjálf einkasölu, t.d. á tóbaki eða slíku. En af hún býr til einkasölur án beinnar lagaheimildar og afhendir einstökum mönnum í þjóðfélaginu, þá er sem sagt ótakmarkað, hvað á má leggja. Og mér sýnist af því, sem hæstv. forsrh. segir og sumpart vitnar í Morgunblaðið, að hann gangi út frá því, að þessir aðilar, sem ríkisstj. hefur falið þennan einkarétt, hafi ótakmarkaðan rétt til álagningar. Hann sagði, að þeir réðu verðlaginu sjálfir. Hann segir, að þeir hafi tilkynnt ríkisstjórninni, að þeir ætluðu að hækka. M.ö.o.: Þessir menn þurfa ekki annað en tilkynna ríkisstj., að þeir ætli að hækka, þeir geta það, svo lengi sem ríkisstj. grípur ekki til þess ráðs að taka af þeim þetta vald. Mér sýnist þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh., ef ég misskil þær ekki, þýða það, að ríkisstj. liti svo á sem þeir menn, sem hafa fengið valdið yfir A- og B-skírteinunum í hendur, hafi rétt til að hækka þau, eftir því sem þeir sjálfir álíta nauðsynlegt. ríkisstj. gæti verið á öðru máli, ríkisstj. gæti talið rétt, að málið biði, ríkisstj. gæti reynt að hindra, eins og hæstv. forsrh. hefði gert, en valdið sé ekki hennar, valdið sé þessara manna, þeir hafi þennan lagalega rétt. Hæstv. forsrh. segir, að þeir hafi tilkynnt, að þeir mundu ekki hækka 1955. En mér skilst, að það sé bara þeirra viljayfirlýsing í augnablikinu, þeir hefðu þann rétt. Ef þeir álitu, að eitthvað, hvort sem það væri olíuverð, vextir kaupgjald eða eitthvað annað hefði hækkað, þá hefðu þeir þar með rétt til að hækka eins og þeim þóknaðist. Og það eina, sem ríkisstj. gerir, er að sögn hæstv. forsrh., að hún hafi látið bóka hjá þessum mönnum í þeirra fundargerðir, að hún væri þarna á annarri skoðun, en það eru þessir menn, sem ráða. Það væri næstum hægt að fara að segja t.d. við tollstjóra hér í Reykjavík, að hann mætti fyrir hönd starfsmanna ríkisins, ef þeim fyndist þeir fá slæm laun og aðrir hefðu fengið kauphækkanir, bara fara að hækka tollana og innheimta það handa starfsmönnum ríkisins. Það er ekki mjög mikill munur á aðferðunum. Það er bara sá munurinn, að það er orðið svona nokkuð hefðbundið að setja ákveðna og fasta tolla, en þetta bátagjaldeyrisgjald, sem ekki er neitt annað en tollur og skattur á almenning, er afhent einstökum mönnum, þannig að þeir mega leggja á þetta eins og þeir vilja, án þess að nokkur samkeppni komi til greina, að því er mér skilst. A.m.k. hefur ekki verið minnzt hér á, að til væru þeir möguleikar, að það væru tvennir aðilar, sem væru þarna í, þá að lögin og reglugerðin að vísu geri nú visst ráð fyrir því.

Ég vil þess vegna vekja athygli hv. þingmanna á, að með þessu, eftir þeim upplýsingum, sem hér koma fram hjá hæstv. forsrh., þó að þær séu ekki alveg beinar, meira að segja hafi honum dottið í hug að fara kannske að setja lög á einni nóttu, — ég vil benda á, að ríkisstj. þarf engin lög ú einni nóttu til þess að tala við þessa menn. Þeir lifa og allt þeirra vald byggist á einni lítilli reglugerð, sem ríkisstj. hefur sjálf gefið út. Ég vil vekja athygli á því, að samkv. þessum skilningi mínum, ef ég skil hæstv. forsrh. rétt, er ekki aðeins yfirstjórn Alþingis á skattlagningu landsmanna búin að vera, heldur er stjórn ríkisstjórnarinnar sjálfrar á skattlagningu, á tollheimtu líka búin að vera. Það er þá nákvæmlega sams konar ástand og franskir aðalsmenn höfðu fyrir frönsku stjórnarbyltinguna að mega skattleggja sjálfir almenning eins og þeim þóknaðist. Og mér finnst ákaflega langt gengið, ef á að fara að innleiða þess háttar fyrirkomulag hérna. Ég held, að það hefði verið nær að hafa það þá frá byrjun eins og ég hef alltaf bent á í sambandi við bátagjaldeyrinn, að þessa hluti ætti heldur að setja í lög, ef einni ríkisstj. finnst, að það þurfi að innheimta skatta af almenningi, þá beri henni heldur að sjá til þess, að það sé gert með því að leggja ákveðinn toll á ákveðnar vörur, ef hún vill heldur toll en beina skatta, og að láta þá þá venjulegu starfsmenn, embættismenn ríkisins, innheimta þá tolla og borga út úr ríkissjóði til þeirra manna, sem þurfa að fá slíkan styrk. Þetta fyrirkomulag getur ekki gengið.