19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

Tollgæslumál

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Að sjálfsögðu verður tækifæri til þess að ræða þessi mál í einstökum atriðum, þegar þau koma hér fyrir síðar, eins og ég hef lýst yfir. Ég man ekki svo nákvæmlega eftir þeim athugunum, sem farið hafa fram í þessu efni, að ég geti greint frá þeim án gagna. Ég hygg, að það hafi verið í fyrravetur, að umr. urðu talsvert miklar um þessi mál hér í hv. Alþingi og manna á meðal, og þá gerði fjmrn. sérstakar ráðstafanir til þess að láta fara fram ýtarlegar athuganir einmitt út af því, að menn þóttust sjá í búðunum vörur, sem ekki gætu verið með eðlilegu móti tollafgreiddar. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að eftir þeim skýrslum, sem við fengum í rn. um þessar athuganir, hafi ekki tekizt að sanna brot í þeirri herferð, sem þá var gerð, a.m.k. ekki nema þá í mjög örfáum tilfellum. Og það mun hafa verið fyrir það, að þegar farið var að athuga sambandið á milli innflutningsleyfa annars vegar og innflutnings hins vegar, kom í ljós, að einhver leyfi höfðu verið veitt fyrir þessum vörum það nærri þeim tíma, sem rannsóknin fór fram á, að ekki var hægt að sanna, að vörur þessar gætu ekki verið með löglegu móti í búðunum. Annars skal ég að sjálfsögðu, áður en þetta mál kemur fyrir, athuga, hvernig þetta reyndist þá.

Af þessari nýju herferð, sem fyrirskipuð var í sumar, hafa ekki komið jafnglöggar fréttir og af þeirri fyrri, en það er kvartað yfir því, að mjög erfitt sé að ganga úr skugga um þetta, vegna þess að það verður eftir gildandi lögum að vera alveg tollgæzlunnar verk að sanna, að þessar vörur séu ekki réttilega tollafgreiddar, en ekki hinna að sanna, að þær hafi verið það. Það þarf að styrkja lagaákvæðin, til þess að athuganir á þessu geti farið eins skörulega fram og vera ber.