28.01.1956
Efri deild: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér sýnist, að skattarnir samkv. þessu frv. verði allmiklu meiri, þegar maður fer að athuga það, heldur en kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Hann áætlar hækkunina á vörumagnstollinum 6–7 millj., við skulum segja 7 millj., hækkunina á verðtollinum 35 millj. og á benzínskattinum 10 millj. kr. Þetta gerir til samans 52 millj., það mun vera miðað við 12 mánuði, og ætti þá að gera tæpar 48 millj. kr. á 11 mánuðum, aðeins þessir þrír skattar. En við þetta bætast síðan bæði bifreiðaskatturinn, hjólbarðarnir og 1% gjaldið á tollana til þess að byggja fyrir nýjar tollbúðir, og þetta verður varla minna á 11 mánuðum en 10 millj., ef borið er saman við það, sem þessir skattar hafa numið á s. l. ári, þannig að hér er alls ekki um að ræða 47–49 millj. kr. alls, þegar allt er meðtalið, heldur verður það nær 60 millj. kr. Þegar svo við bætast aðrir þeir nýju skattar, sem renna í ríkissjóð og ég minntist á í fyrri ræðu minni, þá verður þetta um 70 millj. kr. alls.

Ég þarf ekki að svara röksemdum hæstv. fjmrh. um, að þetta frv. sé nauðsynlegt, að það sé nauðsynlegt að leggja á nýja skatta til þess að jafna halla fjárlaganna, nýja skatta, sem nema a. m. k. 50–60 millj. kr. Ég þarf ekki að fara út í það. Ég er algerlega sammála þeim rökum, sem fram komu hjá hv. 4. þm. Reykv. (HG), og ég held, að það verði mjög erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að hrekja þau.

Hæstv. fjmrh. sagði, að innflutningurinn mundi ekki verða jafnmikill á næsta ári. Ég man eftir, að nákvæmlega það sama sagði hann við umr. fjárl. s. l. ár, nákvæmlega það sama, og sjálfsagt árið þar á undan. Enn fremur sagði ráðherrann, að það væri ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það yrði jafnmikil atvinna, það hefði verið full atvinna núna þetta ár og það væri ekki hægt að gera ráð fyrir því, að svo yrði áfram. Nákvæmlega þetta sama hefur ráðherrann sagt ár eftir ár. Og má ég spyrja: Gerir hæstv. ráðherra raunverulega ráð fyrir því, að atvinnan minnki? Hvaða rök hefur hann fyrir því? Gerir hann ráð fyrir atvinnuleysi á þessu ári? (Fjmrh.: Ég sagði, að það væri ekki hægt að gera ráð fyrir því, að hún ykist.) Nú, ekki hægt að gera ráð fyrir því, það var allt annað mál. Það þarf alls ekki að gera ráð fyrir því, að hún aukist. Það hefur enginn gert ráð fyrir því í þeim áætlunum, sem fyrir liggja. Hann sagði enn fremur, að það væri ekki hægt að halda áfram slíkum innflutningi sem verið hefði s. l. ár. Það væri nú kannske rétt að spyrja ráðherrann í því sambandi, hvort meiningin sé að koma á nýjum innflutningshöftum, því að ég sé ekki neinar líkur til þess, að innflutningurinn minnki, nema því aðeins að það verði með beinum stjórnarráðstöfunum komið í veg fyrir, að innflutningurinn verði eins mikill og verið hefur. Ráðherrann benti náttúrlega á það, að bifreiðainnflutningurinn mundi minnka, og það er enginn vafi á því, að það er rétt. Þar kemur á móti, að 100% leyfisgjaldið á bifreiðum er nú komið í áætlun hæstv. ríkisstj. ofan í svo að segja ekki neitt, sem vitaskuld getur ekki staðizt, því að það hlýtur óhjákvæmilega að verða svo mikill innflutningur á bifreiðum næsta ár, að það gefur miklu meira en þar er gert ráð fyrir. Og móti þessu kemur líka alveg óhjákvæmilega stórkostleg hækkun söluskattsins vegna þeirra verðhækkana, sem verða m. a. fyrir áhrif þessara laga, sem nú er verið að samþykkja, söluskattsins á öðrum vörum en bifreiðum, og svo hækkun tekjuskattsins, sem ráðherrann líka viðurkennir. En það, sem er aðalatriðið, er þó það, að áætlanir minni hlutans eru gerðar af alveg ýtrustu varkárni, og reynslan hefur sýnt, að þessar áætlanir hafa verið svo varkárar, að tekjur ríkissjóðs hafa alltaf undanfarin ár orðið mun meiri en áætlað var af minni hlutanum. Ég tek þess vegna algerlega undir það með hv. 4. þm. Reykv., að til þess að tekjurnar nægi ekki fyrir útgjöldum á fjárl., eins og þau eru nú, þarf beinlínis að koma eitthvað algerlega óvænt fyrir, beinlínis hrun.

Hæstv. ráðherra minntist í þessu sambandi nokkuð á frv. um framleiðslusjóð og ráðstafanir ríkisins í heild, og hann spurði, hvort því mundi verða neitað af stjórnarandstöðunni, að það væri nauðsynlegt fyrir útgerðina að fá það fé, sem henni er ætlað í því frv. Ég neita því ekki, að útgerðinni veiti ekki af þeirri upphæð, sem hún á að fá samkvæmt þessu frv., þ. e. a. s. með þeim aðferðum, sem hæstv. ríkisstj. notar. Hæstv. ráðherra sagði, að með þessu væri í raun og veru verið að skila til baka því, sem tekið hefur verið af útveginum. Hverjir hafa tekið þetta af útveginum? Eru það neytendurnir í landinu? Hér er sem sagt verið að taka 200 millj. og verður þó, þegar öll kurl koma til grafar, talsvert miklu meira af neytendum í landinu handa útgerðinni. Hafa neytendur tekið 200 millj. eða á þriðja hundrað millj, af útgerðinni undanfarið? Eða skyldi það ekki nálgast það, þegar öll álagningin kemur á þetta, að neytendur þurfi að borga hátt á þriðja hundrað milljóna í hækkuðu vöruverði? Hafa neytendur tekið þetta af útgerðinni? Ekki hafa olíuhringarnir náttúrlega tekið neitt, þó að líklegt megi telja, að gróði þeirra sé varla minni en, ja, ákaflega varlega áætlað 40–50 millj., sennilega miklu meira, á ári, og ekki bankarnir, þar sem liggur nú fyrir, að gróðinn er 50–60 millj., ekki allir þeir, sem græða stórfé á þjónustu við útgerðina, ekki húsabraskararnir og okrararnir, sem hafa matað svo krókinn, að húsaleigan gleypir nú í mörgum tilfellum helming launanna, sem þýðir náttúrlega, að útgerðin verður að borga miklu hærra kaupgjald en ella. Það segir sig sjálft, hvaða áhrif það hefur á kauplagið í landinu, þegar svo er komið, að fjöldi fjölskyldna verður að greiða allt að helming launa sinna fyrir húsnæði. Það eru ekki þessir aðilar, sem hafa tekið af útgerðinni, því að ekki er verið að sækja féð í þeirra vasa. Nei, það eru neytendur, sem tekið hafa þessar 200–300 millj. af útgerðinni, og nú á að sækja aftur í vasa þeirra. Og nú er spurningin: Hvaða hjálp er þetta svo við útgerðina? Ég held, að þessar ráðstafanir muni, þegar til lengdar lætur, koma vandamálum útgerðarinnar í enn þá meiri hnút, eins og reynslan hefur sýnt um slíkar ráðstafanir áður. Og þá er spurningin: Hvað verður næsta skrefið? Ég spurði um það í minni fyrstu ræðu. Því svaraði hæstv. ráðh. ekki, en það er einmitt það, sem mestu máli skiptir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert lögmál, að tollarnir eigi að hækka samkvæmt framfærsluvísitölu, eins og honum verður svo mjög tíðrætt um í grg. fyrir þessu frv., sem hér er til umr. Ég segi bara: Mikið var. En hæstv. ráðh. virðist þetta a. m. k. eðlilegt, og þetta er í raun og veru eina röksemdin fyrir þessari skattahækkun, eina röksemdin, sem fram hefur komið, og það var þess vegna, að ég fór nokkrum orðum um hana, því að vegna afkomu ríkissjóðs er þetta frv. algerlega þarflaust.