28.01.1956
Neðri deild: 55. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

145. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef margt við þetta frv. að athuga.

Í fyrsta lagi tel ég, að tekjuáætlun þess sé ekki rétt, hún sé of lág. Frv. gerir ráð fyrir því, að það þýði 49 millj. kr. skattahækkun á hinum ýmsu liðum, sem hæstv. ráðh. hefur nú gert grein fyrir að felast í frv. Ég tel, að varlegt sé að áætla þetta frv. þýða 60 millj. kr. skattahækkun, og byggi það þegar á því, að 25% hækkun á verðtollinum einum jafngildir 45 millj. kr. verðtollsauka. Hækkun verðtollsins ein lætur því nærri að gefa sömu tekjuaukaupphæð og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að allt frv. gefi, ef miðað er við, að innflutningur verði svipaður á þessu ári og hann reyndist á árinu 1955. Það vill hæstv. ráðh. að vísu draga í efa, en ég tel ekkert benda til þess, að ástæða sé til að draga það í efa.

Í öðru lagi, og það er mergurinn málsins, tel ég, að engin þörf sé fyrir þessa skatta og þar af leiðandi engin þörf á að samþ. þetta frv. Fjárl. hafa ekki verið afgr. enn, 3. umr. stendur yfir, en fyrir því hafa verið færð sterk rök, svo sterk, að ég treysti þeim, að tekjuáætlun fjárl. sé enn röng. Hún hefur verið það mörg undanfarin ár, og undanfarin ár hefur hæstv. fjmrh. staðið hér og sagt: Tekjuáætlunin er frekar of há en of lág. — Það hefur alltaf reynzt eftir á, þegar árið var liðið, vera rangt. Hæstv. ráðh. hefur alltaf verið svartsýnni en ástæða hefur verið til. Hann telur eflaust embættisskyldu sína að vera svartsýnn á afkomu ríkissjóðsins, en það hefur aldrei farið eftir spádómum hans í þessum efnum. Tekjurnar hafa ávallt undanfarin ár reynzt mun meiri en þær hafa verið áætlaðar. Þetta hefur verið svo föst regla, að legið hefur nærri að álíta, að þetta væri með vilja gert, til þess að ríkisstj. hefði rúmar hendur um ráðstöfun fjárins, til þess að hún gæti, eftir að árið er liðið eða þegar árið væri að líða, komið fram með frumvörp í skyndi, þar sem hún ráðstafaði tekjuaukanum til þeirra þarfa, sem hún kýs að verja honum í. Raunverulegar tekjur ársins í fyrra, 1955, voru 110 millj. kr. hærri en áætlað var í fjárl. fyrir árið.

Verðtollurinn er í frv. fyrir 1956 áætlaður 155 millj. kr., en hann var í raun og veru 1955 178 millj. kr., eða 23 millj. kr. hærri. Virðist engin ástæða vera til að áætla hann lægri á þessu ári en hann reyndist í fyrra. Söluskatturinn er áætlaður á þessu ári 120 millj. kr. Hann var 1955 130 millj. kr., þ. e. 10 millj. kr. hærri í fyrra en hann er áætlaður í ár. Á þessum tveimur liðum skakkar því 33 millj. kr. Um fjölmarga aðra tekjuliði fjárlfrv. gildir það, að þá væri hægt að áætla talsvert hærri en þeir hafa verið áætlaðir. Vil ég t. d. nefna bifreiðaskatt og benzínskatt, sem hvorir tveggja munu vafalaust skila mun meiri tekjum í ríkissjóð en áætlað er í fjárlagafrv.

Ég tel þess vegna, að þessi skattlagning, sem hér er ráðgerð, sé óþörf, það sé hægt að afgreiða fjárlagafrv. tekjuhallalaust, þó að þessir skattar séu ekki lagðir á. En um það er ég hæstv. ráðh. og ríkisstj. sammála, að brýna nauðsyn ber til, eins og ástand allt er í efnahagsmálum þjóðarinnar, að tekjuhalli verði ekki á fjárl., heldur þvert á móti er þar tekjuafgangur nauðsynlegur.

Varðandi einstök atriði frv. vil ég aðeins láta þess getið, að það skásta, sem var í frv. eins og það kom frá hæstv. ríkisstj., var úr því fellt í hv. Ed., þ. e. ákvæðið um að innheimta og leggja í sérstakan sjóð 1% af vörumagnstolli og verðtolli samkvæmt tollskrá til þess að verja til byggingar tollstöðva í landinu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tollgæzlan er í hinum mesta ólestri, fyrst og fremst sökum þess, að aðstaða öll til tollheimtunnar er óforsvaranleg víðast hvar á landinu. Það hefði því verið til mikilla bóta að gera ráðstafanir til þess að bæta skilyrði tollgæzlunnar. Þeir peningar, sem til þess hefði verið varið, hefðu skilað sér aftur á skömmum tíma. Þetta ákvæði frv., sem var það skásta og að mínu viti hefði fyllilega komið til greina að samþykkja, felldu hæstv. stjórnarflokkar út úr frv. í Ed.

Þá vil ég aðeins geta þess, sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni og er raunar getið í grg. fyrir frv., að hækkun vörumagnstollsins er miðuð við vísitölu. Það er í hæsta máta undarleg regla, sem hér er tekin upp, að hækka tolla á landsmenn eftir vísitölu. Hvar er nú fordæmingin á vísitöluskrúfunni margumtöluðu? Mig minnir, að það hafi verið einn aðalkjarninn í öllum boðskap hv. stjórnarflokka undanfarin ár, að vísitöluskrúfan væri stórhættuleg, eitt það allra hættulegasta við það fyrirkomulag, sem við nú búum við í kaupgjaldsmálum. Þegar hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að draga úr áhrifum svokallaðrar vísitöluskrúfu, t. d. með því að hætta að láta kaupgjaldshækkun verka á landbúnaðarverðið. En nú er hér tekinn upp sá kostur að færa vísitöluskrúfuna inn á nýtt svið, þ. e. að fara að láta hana verka á tollana líka. Menn geta hæglega séð, hvar þetta kemur til með að lenda. Ef verðlag hækkar á einhverri innfluttri vöru og vísitalan hækkar af þeim sökum, þá á rétt á eftir að hækka tollana, af því að vísitalan hækkaði. Þá hækkar auðvitað vísitalan enn, og svona heldur þetta áfram.

Hér er greinilegt dæmi um það, að skrúfugangur vísitölunnar er settur í gang. Hann hefur verið afnuminn á sumum sviðum réttilega, þar sem hann hefur skaðlegar verkanir og óþarfi er að láta hann verka, og þá hleypur hæstv. ríkisstj. til og innleiðir skrúfuganginn á öðrum sviðum.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að sér virtust það vera meðmæli með þessu frv., að álögurnar væru þó ekki miklu meiri en stjórnarflokkarnir hefðu lækkað álögurnar á almenningi um undanfarin ár. Það er nú svo. Gaman hefði nú verið að fá að njóta þess einu sinni í svolítinn tíma, að álögur á landsmenn væru lækkaðar. En það virðist ekki eiga að geta gerzt. Hæstv. ríkisstj. unir því auðsjáanlega alls ekki, að almenningur fái að njóta þeirra lækkana, sem hún er búin að gorta af mörg undanfarin ár. Hún er ekki í rónni, þrátt fyrir allt gortið af lækkununum, fyrr en hún er búin að taka þetta af almenningi aftur og hækka álögurnar um það, sem hún áður lækkaði þær um, þó að hún hafi mikið af því gortað.

Hvað sem annars um þetta má segja, telur Alþfl. það vera merg málsins í þessu sambandi, að þessar álögur séu — sem betur fer — óþarfar og þess vegna sé óþarft að fylgja frv., og munum við því greiða atkv. gegn því við afgreiðslu málsins hér.