31.01.1956
Efri deild: 57. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

146. mál, framleiðslusjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mál þetta er út af fyrir sig svo stórt, að það ætti að fylgja því í hvorri d. sem væri myndarleg greinargerð. Hins vegar tel ég, að það sé að bera í bakkafullan lækinn, að ég hér fari að skýra málið, og þá fyrst og fremst vegna þess, að útvarpsumræður, sem fóru fram frá Sþ. í gær, hnigu að verulegu leyti um þetta mál. Það, sem ég um það segði, yrði þess vegna ekkert annað en endurtekning og ekki nokkurt málsatriði, sem ég mundi upplýsa og hv. þdm. ekki áður vita. Ég óska ekki að hefja þann málamyndaleik hér. Ég tel hins vegar alveg sjálfsagt, ef hv. þm. óska eftir einhverjum þeim upplýsingum, sem ég kynni að geta lagt fram hér frekar en gert hefur verið, að gefa þær.

Ég minni á, að af ástæðum, sem öllum eru kunnar, er nauðsynlegt, að þetta mál nái afgreiðslu í dag. Ég hefði kosið, ef hv. þdm. vilja una því, og þá með hliðsjón af því, hversu mjög málið er kunnugt og rætt, að það mætti nú ganga fram nefndarlaust. Ég hef aðeins farið á fjörurnar um það við hv. stjórnarandstæðinga, án þess að þeir beinlínis hafi svarað því. En ef ekki yrði andstaða gegn því, þá teldi ég það æskilegt, og mundum við þá geta lokið málinu fyrir matmálstíma.

Meira hef ég, hæstv. forseti, ekki um þetta að segja og gef þá fyrirheit um að koma hér aftur og reyna þá að taka eitthvað fjörugri þátt í umræðunum.