17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Eyf., hóf mál sitt með því að minnast á forgöngu sjálfstæðismanna í fjármálum. M. a. tók hann þannig til orða, að ef varnaðarorðum sjálfstæðismanna hefði verið fylgt, þeirra sem fóru með fjármálin fyrir 1950, hefði betur farið, og ef þeir hefðu fengið því framgengt, sem þeir hefðu viljað. Ég veit ekki betur en að þessi hæstv. fjmrh. hafi þá fengið því framgengt, sem þeir vildu beita sér fyrir, og það hafi ekki staðið á samstarfsmönnum þeirra þá. Satt að segja finnst mér dálítið broslegar þessar sífelldu sögur sjálfstæðismanna af þessum ráðherrum, sem engu réðu, meðan þeir fóru með völdin, en allt, sem vel tekst, er að þakka, löngu eftir að þeir eru hættir störfum.

Viðvíkjandi því, að hin góða afkoma ríkissjóðs sé að þakka stefnubreytingu, sem sjálfstæðismenn hafi sérstaklega beitt sér fyrir 1950, vil ég enn þá einu sinni upplýsa, að þetta er alveg rangt og því villandi, eins og þráfaldlega hefur verið leiðrétt. Sú stefnubreyting var knúin fram með kosningunum, sem fram fóru haustið 1949, og þær kosningar voru knúðar fram með till., sem Framsfl. gerði um þessi mál og var síður en svo vel tekið af öðrum flokkum þá, þó að nú vilji menn tileinka sér þær.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, minntist á, að það hefði mistekizt að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og halda því. Ég vil benda hv. þm. á það, að hér var stöðugt verðlag og nokkurn veginn stöðugur framleiðslukostnaður í nærri þrjú ár og jafnvægi í gjaldeyrisviðskiptum út á við það sama tímabil. Hins vegar hefur þetta nú allt. raskazt, eins og við vitum mjög vel og greinilega, og kemur þar ýmislegt til, en þó fyrst og fremst niðurstaða verkfallsins, sem varð á s. l. vetri. — Hv. þm. sagði, að ég hefði minnzt á, að verðbólgubraskarar græddu á því ástandi, sem nú væri og hefði skapazt. Það er sannarlega rétt, að það gera þeir, enda munu engin ráð vera til þess að koma í veg fyrir, að menn geti grætt á fasteignabraski og braski með peninga, þegar það er alveg augljóst, að fram undan eru stórhækkanir á öllum sviðum. Slíkt ástand verður ætíð til þess, að sérstaklega glæsilegt haglendi skapast fyrir alls konar verðbólgubraskara.

Hv. 11. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, reyndi að gera að höfuðatriði í sínu máli, að það væri fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, sem væri orsök þess dýrtíðarflóðs, sem við nú byggjum við, en ekki niðurstöður verkfallanna frá s. l. vori. Í því sambandi viðhafði hann ýmis furðuleg ummæli, og hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, tók nokkuð í sama streng. Tvennt var það, sem þeir bentu á sérstaklega: Annað, að tollar og skattar hefðu verið stórkostlega hækkaðir og þeir hefðu haft dýrtíðaraukandi áhrif. Þetta er algerlega rangt. Á undanförnum árum hafa tollar og skattar verið lækkaðir, svo að nema mundi nú mörgum milljónatugum árlega. Þá sögðu þeir, að útþensla ríkisbáknsins væri sífellt mikil og ætti sinn þátt í dýrtíðaraukningunni. Þetta er ekki heldur rétt. Ef að er gáð, er niðurstaðan sú, eins og ég gat um áðan, að greiðsluafgangurinn, sem orðið hefur, hefur einmitt orðið vegna þess, að ríkisútgjöldin hafa ekki vaxið í hlutfalli við ríkistekjurnar og ekki vaxið í hlutfalli við almenna útþenslu í þjóðarbúskapnum.

Þá sagði hv. 11. landsk. þm., að það væri glöggt, af hverju verðhækkanirnar, sem nú væru að dynja yfir, stöfuðu. Það væri glöggt, að þær stöfuðu ekki af kauphækkunum, sem áttu sér stað í vor. Út af þessum fullyrðingum gætu menn rifjað það upp fyrir sér, að áður en verkföllunum lauk í vor, þegar kommúnistar voru að taka upp verðhækkunarstefnuna í vor, þá voru látnar fara fram athuganir á því, hverjar mundu verða afleiðingar kauphækkananna, eins og þá var ástatt. Þær athuganir sýndu, að það væri í vændum stórfelld hækkun á verðlagi og framleiðslukostnaði, ef kaup hækkaði. Og þessir útreikningar hafa allir staðizt. Þetta vissu menn áður. Það lá alveg á borðinu, að þessar verðhækkanir hlutu að verða afleiðingar þess, sem þá var að gerast. Hitt er svo annað mál, ég efast ekkert um það, að ýmsir hafi hækkað óeðlilega verð og braskað margvíslega í skjóli þeirrar öldu, sem reist var.

Það er ljóst, að sú stefna, sem tekin var upp í vor af kommúnistum, hlaut að hafa í för með sér stórfellda hækkun á verðlaginu og stórfellda hækkun á framleiðslukostnaðinum. Það er sannast að segja furðulegt, að hv. alþm. skuli bera sér annað í munn. En hvernig stendur á því, að þessi stefna var tekin upp, en ekki önnur heillavænlegri? Það lá fyrir s. l. vor, að kaupmáttur launa hafði staðið nokkurn veginn óbreyttur í þrjú ár, eða frá 1952. Á hinn bóginn lá það fyrir, að kaupmáttur kaupgjalds var minni en hann hafði verið 1947. Það er ekkert óeðlilegt, þótt verkafólk og aðrir vilji hækka sínar raunverulegu tekjur, ef það er hægt, og bæta þar með sinn hlut úr þjóðarbúinu. Og þá kom spurningin: Hvernig hefði slíkt helzt mátt verða? Áreiðanlega hefði slíkt helzt mátt verða með því, að reynt hefði verið að lækka verðlagið, reynt hefði verið að fá samtök um að pína verðlagið eitthvað niður. Möguleikar á því voru að vísu mjög takmarkaðir, eins og á stóð, en þeir voru einhverjir til. En hvernig stóð á því, að ekki var hægt að nýta þessa möguleika og ekki fengust einu sinni samtök um að rannsaka þá til hlítar, svo að séð yrði, hvað hægt væri að gera með sameiginlegu átaki, t. d. stjórnarinnar og verkalýðssamtakanna, í þessu efni? Ástæðan var sú, að kommúnistar máttu ekki heyra annað nefnt en einmitt hækkunarstefnuna og það vegna þess, að þeir vildu koma á því óheillaástandi, sem við nú búum við. Þetta var ástæðan til þess, að hin leiðin fékkst ekki einu sinni athuguð. Kommúnistar gengu með í vösunum áætlanir um að hækka kaupgjald í landinu um 30–70%. Það voru þær kröfur, sem þeir gerðu. Auðvitað datt mönnunum ekki í bug, að menn gætu fengið raunverulegar kjarabætur, sem neinu slíku næmi, eða að nokkur gæti á slíku hagnazt. En þeir höfðu þessar kröfur uppi samt, vegna þess að þeirra launapólitík er ekki miðuð við að fá það bezta, sem hægt er, út úr dæminu fyrir verkalýðinn, heldur er hún miðuð við að skapa ný vandamál. Þess vegna er það ekkert einkennilegt, þó að kommúnistum eins og hv. 11. landsk. sé það áhugamál að reyna að slíta í sundur samhengið í þessum málum, reyna að berja höfðinu við steininn og halda því nú fram, að það, sem nú er að koma fram í efnahagsmálunum og framleiðslumálunum, sé ekki afleiðing þess, sem hann og aðrir slíkir beittu sér fyrir í vor. Það grátlega við þetta allt saman, það vitum við öll, er, að verkamenn hafa ekkert á þessum aðförum grætt. Svo rammt kveður að þessu, að jafnvel talsmaður Þjóðvfl. hér í þessum umr., hv. 8. þm. Reykv., lýsti því yfir hér sem sinni skoðun, að verkamenn hefðu ekkert á því grætt að fylgja stefnu kommúnista í þessum málum. Þegar svo maður eins og hv. 11. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, og hans félagar eru búnir að koma þessum málum í algert öngþveiti, kemur hann hér í útvarpið og grætur krókódílstárum út af afkomu framleiðslunnar, hvað sérstaklega sé farið illa með framleiðsluna o. s. frv.

Lítum svo aðeins á þau úrræði, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa drepið á, sérstaklega hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, og raunar kom það sama líka fram, þó ekki eins skilmerkilega, hjá hv. 11. landsk. þm., Lúðvík Jósefssyni. Við vitum, að málflutningurinn er í þessu tilliti nær sá sami. Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, las upp till. frá sínum flokki um það, hvað nú ætti að gera. Það var í sem stytztu máli þetta: Það á að hafa gengið óbreytt, það er alveg tekin afstaða á móti gengislækkun, hafa kaupgjaldið óbreytt, þannig að það verður sem sé 20% hærra í janúarmánuði næsta en það var í aprílmánuði s. l., en jafnhliða þessu á svo að afnema allan söluskattinn og ekki nóg með það, heldur afnema allan bátagjaldeyrinn og alla framleiðslustyrki yfirleitt, án þess að nokkuð komi í staðinn. Svo fylgja þessari speki hátíðlegar yfirlýsingar um, að tillögumenn séu að hugsa um að mynda ríkisstjórn alveg á næstunni. Þetta ætti sem sé að vera stefnan. Hvernig halda menn svo, að ástandið yrði í framleiðslumálum landsmanna, þegar búið væri að framkvæma þessar till. Þjóðvfl., en þeim fylgja hátíðlegar yfirlýsingar um, að þeir vilji taka á sig ábyrgð? Svipuð er afstaða kommúnistanna.

Þá var talað um það hér áðan, að Alþýðusambandið hefði boðað til viðræðna við stjórnmálaflokkana. Ég vil segja um þetta aðeins örfá orð. Á s. l. vetri skrifaði Alþýðusambandið Framsóknarflokknum og fleiri flokkum og stakk upp á viðræðum um stjórnarmyndun. Framsfl. svaraði þá á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórnin telur það mjög mikils virði og raunar nauðsyn sérhverri ríkisstj. að hafa gott samstarf við stjórn Alþýðusambands Íslands, samtök launafólks í öllum stjórnmálaflokkum. Framsfl. hefur áhuga á því nú sem fyrr, að lýðræðissinnaðir umbótamenn nái samstarfi um stjórn landsins. En til þess að mynda ríkisstj. og koma fram málum þarf stuðning meiri hluta þingmanna, eins og yður er að sjálfsögðu ljóst. Á þessu stigi málsins vill miðstjórnin því spyrjast fyrir um það, hvaða þingstyrkur sé á bak við tilmæli yðar, og að því svari fengnu er miðstjórnin fús til að taka þennan þátt bréfs yðar til nánari yfirvegunar. En án alls tillits til þessa er miðstjórnin reiðubúin til þess að ræða við stjórn Alþýðusambandsins um það, hvaða mál hún telur brýnustu hagsmunamál Alþýðusambandsins og fólksins í verkalýðsfélögunum, og reyna af fremsta megni að finna lausn á þeim vandamálum.“

Frá því að þetta bréf var skrifað í marz s. l. vetur og þangað til nú fyrir nokkrum dögum heyrði Framsfl. ekkert frá Alþýðusambandinu um það, hvort Alþýðusambandið vildi taka upp viðræður um hagsmunamál Alþýðusambandsins og fólksins í verkalýðsfélögunum, en nú fyrir nokkrum dögum barst bréf, sem sagt hefur verið frá, til Framsfl., þar sem stungið er upp á, að hann tilnefni menn til þess að ræða við Alþýðusambandið. Ég hafði skilið þetta svo, að hér væri átt við viðræður um hagsmunamál Alþýðusambandsins og fólksins í verkalýðsfélögunum, en það er afstaða Framsfl. í þessu máli, að um stjórnarmyndun verði að ræða við þingflokka. En að sjálfsögðu er Framsfl. ætíð reiðubúinn til þess að ræða við Alþýðusambandið um hagsmunamál þess fólks, sem innan vébanda þess starfar.

Að lokum þetta: Ég tel, að höfuðmeinsemdin í okkar þjóðlífi sé sú, hvað kommúnistar eru sterkir í verkalýðsfélögunum og að þeim hefur tekizt að fá því ráðið innan verkalýðsfélaganna, að sú stefna var upp tekin, sem hefur kallað yfir okkur þau vandkvæði, sem við nú búum við, án þess að launafólkið hafi af því nokkurn hagnað eða ávinning. Á hinn bóginn mundu vera miklir möguleikar til þess að koma fram þýðingarmiklum hagsmunamálum almennings og ná betri tökum á viðfangsefnunum yfirleitt en hægt hefur verið undanfarið, ef áhrif kommúnista gætu orðið kveðin niður innan alþýðusamtakanna, og ég tel, að þá mundi nást samstarf umbótaaflanna.