27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að ræða hér almennt um afgreiðslu fjárlaganna umfram það, sem ég gerði við 2. umr., aðeins geta þess, að ég er sammála hv. meiri hl. nefndarinnar um aðalniðurstöðuna og sammála um, að það er óhjákvæmilegt að afla talsverðra nýrra tekna, til þess að hægt sé að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus. Mun ríkisstj. leggja fram frumvörp um þennan tekjuauka, eins og yfir er lýst í nál. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að innflutningur verði jafnmikill á næsta ári og hann var á þessu ári. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir, að tekjuskattur verði meiri en hann varð á yfirstandandi ári. En óhugsandi sýnist að tefla djarfara en gert er ráð fyrir um áætlunina, eins og hún nú er orðin, og hefur fjárlagaáætlun tekjumegin sennilega aldrei verið jafnteygð og nú.

Ég kvaddi mér hljóðs einkum til að mæla fyrir tveimur brtt. á þskj. 290.

Aðra þeirra flyt ég með hæstv. menntmrh., og hún er um, að heimilt sé að verja 10% álagi á skemmtanaskattinn samkvæmt lögum frá 1951 til sinfóníuhljómsveitarinnar. Áður hefur verið heimilt að verja 5% af þessu álagi til sveitarinnar, en við leggjum til, að það verði heimilt að verja öllu álaginu, 10%. Það skal tekið fram, að þetta er ekki tekið frá þjóðleikhúsinu og ekki frá félagsheimilunum, heldur hafa þessi 5%, sem hér á að auka við framlag til hljómsveitarinnar, runnið til ríkissjóðs upp í skuldir þjóðleikhússins. Það er mikið menningarmál að hafa sinfóníuhljómsveitina, og það sýnist ekki verða gert með öðru móti en því, að aukið verði framlag til hennar af hendi hins opinbera.

Um aðra till. vil ég fara nokkrum orðum. Hún er í fjórum töluliðum.

Það er fyrst að veita lán af greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1955. Það hefur verið augljóst síðari hluta ársins, að talsverður greiðsluafgangur mundi verða á árinu 1955. Það er sérstaklega vegna þess, að hin mikla þensla hefur aukið tekjur ríkissjóðs hraðar en hún hefur aukið gjöldin. Á fyrsta ári mikillar þenslu fer sennilega ætíð svo, að tekjur ríkissjóðs aukast hraðar en gjöldin. Þess vegna verður afgangur á s. l. ári, enda þótt ómögulegt sé að koma saman fjárlögum fyrir næsta ár án tekjuauka. Launahækkanir voru ekki komnar með neinum verulegum þunga á ríkissjóð s. l. ár og önnur gjöld mörg alls ekki búin að ná heldur fullum þunga þá, samanborið við það, sem þau verða á næsta ári.

Ég get ekki sagt, hve mikill þessi greiðsluafgangur verður, enda eru víst fá fyrirtæki í þessu landi og þótt umsvifaminni séu en ríkisbúskapurinn, sem geta sýnt niðurstöður fyrra árs í janúarmánuði. En við vitum, að afgangur verður talsverður. Nú hefði þurft að vera þannig ástatt, að við hefðum getað lagt þennan tekjuafgang til hliðar í framkvæmdasjóð og notað féð síðar, þegar meiri ástæða er til að ýta undir framkvæmdir en nú er og veita margs konar fyrirgreiðslu. Þessu er þó ekki að heilsa. Ástæðan er sú, að ræktunarsjóður var í haust og vetur í fjárþroti til útlána og sömuleiðis fiskveiðasjóður og að íbúðalánasjóður reyndist líka allt of lítill til þess að sinna sínum verkefnum. Hér kallaði því svo að, að stjórnin og þingmeirihlutinn, sem hana styður, hafa ekki séð sér annað fært en að veita stórar fjárhæðir til útlána í þessa sjóði. Þær fjárhæðir eru greindar í till., til ræktunarsjóðs 22 millj. kr., til veðdeildar Búnaðarbankans 2 millj. kr., til fiskveiðasjóðs 10 millj. kr. og til íbúðalánanna 13 millj. kr. Það fer um mann hrollur, þegar maður hugsar til þess, hvernig farið hefði um þessa starfsemi, t. d. lánastarfsemi ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs og íbúðasjóðs, ef ríkissjóður hefði annaðhvort verið rekinn með greiðsluhalla í ár eða engan afgang haft. Þá hefði orðið algert öngþveiti hjá því fólki, sem hefur treyst á lán úr þessum stofnunum. Erlend lán hafa ekki fengizt inn í þessar stofnanir á s. l. ári, eins og ég hef áður gert grein fyrir.

Þá er 2. töluliður. Þar er heimilað að greiða 1 millj. 200 þús. kr. upp í hluta ríkissjóðs af kostnaði við hafnargerðir, sem þegar hafa verið framkvæmdar. Það er gert ráð fyrir því, að þetta fé verði líka tekið af greiðsluafganginum, og von um, að það verði hægt. Það þarf ekki að útskýra þetta nánar. Menn vita, að því fer mjög fjarri, að Alþ. hafi séð sér fært að taka upp á fjárlög öll þau framlög, sem þurfti að gera til að uppfylla ákvæði hafnarlaganna á ýmsum stöðum, og hafa því safnazt stórar ógreiddar fjárhæðir í sambandi við ýmsar hafnargerðir. Hér er gert ráð fyrir að leysa ofur lítið úr, þar sem verst er ástatt.

Um 3. liðinn, þ. e. að heimila 1½ millj. kr. upp í hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði við skóla, sem þegar hafa verið byggðir, er sama að segja og næsta lið á undan. En því vil ég bæta við, að það er ekki gert ráð fyrir, að þetta fé verði tekið af greiðsluafganginum, heldur er gert ráð fyrir að nota í þessu skyni 1½ millj., sem áður var búið að heimila að nota til þess að greiða uppbætur á sparifé, en ekki þurfti á að halda í því skyni og við eigum þess vegna lagða til hliðar. Þarf því ekki að skerða greiðsluafganginn í sambandi við þessa heimild. Það stendur þannig á þessu, að þegar til kom, reyndust tekjur af skuldabréfum vegna stóreignaskattsins nægilega miklar til þess að standa undir öllum sparifjárbótunum en við vorum hræddir um, að svo mundi ekki verða, þegar heimildin var fengin til þess að taka 1½ millj. af greiðsluafgangi 1954 upp í sparifjárbæturnar.

Þá er loks 4. liður, sem er algert nýmæli, og það er að stofna framkvæmdasjóð til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hér er mjög merkilegt mál á ferðinni, og þyrfti að vera hægt að draga stórfé í slíkan sjóð til þess að veita því aftur til að stuðla að auknu atvinnulífi víðs vegar úti á landi, þar sem litið er um atvinnutæki. En vegna þess, hversu margt kallar að og lítil eru peningaráð, er nú ekki hægt að byrja þetta mál stærra að dómi stjórnarinnar en með 5 millj. kr. heimildarfjárveitingu. Eftir því sem við höfum litið til greiðsluafgangsins 1955, þá gerum við ekki ráð fyrir eða þorum við ekki að gera ráð fyrir á þessu stigi, að meira en 2 millj. af þessum 5 verði teknar af honum, og verður þá að ráðast, eftir því, hvernig afkoman verður á yfirstandandi ári, hvernig fer um hinar 3 millj., sem í sjóðinn eiga að fara. En ætlunin er, að í hann komi sem fyrsta framlag 5 millj. kr.

Ég vil benda á, að meðal brtt. hv. fjvn. er till. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að verja verulegum fjármunum vegna óþurrkanna á s. l. sumri, þ. e. heimild til að lána 10 millj. kr. og heimild til að verja nokkru fé til þess að styrkja heyflutninga og til þess að greiða vaxtamismun. Ég geri mér vonir um, að það verði hægt að greiða þessa fúlgu líka af greiðsluafgangi 1955 og að hún þurfi ekki að íþyngja fjárlögum 1956. Þess vegna er hún sett á heimildagrein. Ef ég hefði ekki álitið þetta, þá hefði ég ekki viljað samþykkja, að hún yrði sett á heimildagrein.

Ég vil svo enn á ný þakka hv. meiri hl. fjvn. fyrir prýðilega samvinnu og fyrir vinnu hans að fjárlögunum.