27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flyt eina litla brtt. á þskj. 299, sem er við brtt. meiri hl. fjvn., við liðinn, sem snertir byggingu nýrra barnaskólahúsa. Eins og till. meiri hl. fjvn. er, þá er lagt til, að af nýjum barnaskólahúsum skuli byggt eitt í Reykjavík og til þess skuli veittar 435 þús. kr. Reykjavíkurbær hafði sótt um til fræðslumálastjórnarinnar að fá að hefja byggingu tveggja barnaskólahúsa, sem mundu fullbúin kosta um 6 millj. hvort og mundu taka tvísett 720 börn.

Ástandið í barnaskólamálum Reykjavíkur er nú þannig, að í alla barnaskóla Reykjavíkur er tvísett og í suma þeirra er þrísett, og sums staðar er ástandið orðið þannig, að það komast varla fleiri börn inn í kennslustofurnar en nú er troðið. Nú hefur það verið svo á undanförnum árum, að Reykjavíkurbær hefur lagt í það að byggja barnaskólahús, þó að ríkissjóður hafi þá ekki veitt á fjárlögum verulegar fúlgur til þess, eða Reykjavíkurbær hafi ekki getað fengið greitt úr ríkissjóði það, sem honum eftir gömlu lögunum bar. Þetta gat Reykjavíkurbær gert áður og varð náttúrlega til þess, að hann átti mjög miklar fúlgur hjá ríkissjóði fyrir byggingu barnaskólahúsa upp í þann hluta, sem ríkissjóður átti að borga þar af. Nú á síðasta þingi var lögunum breytt á þann veg, að það er ekki leyfilegt, hvorki fyrir Reykjavíkurbæ né aðra aðila úti um allt land, að hefja byggingu nýrra barnaskóla, nema búið sé að veita á fjárlögum fé til þess. Þannig er sem stendur Reykjavíkurbæ bannað að hefja byggingu nýrra barnaskólahúsa, nema þegar sé búið að veita til þeirra á fjárlögum. Hins vegar er alveg óhjákvæmilegt að bæta við tveimur barnaskólum. Það er ófremdarástand í barnaskólamálum Reykjavikur, þrátt fyrir það að mikið hafi verið byggt, vegna þess, að það er hér verið að byggja yfir allan þann fjölda af fólki, sem hingað flyzt, og þess börn. Þess vegna legg ég til, að liðurinn viðvíkjandi Reykjavík orðist þannig, að það séu veittar til byggingar barnaskóla við Bústaðaveg 435 þús. kr. og til barnaskóla við Hamrahlíð 435 þús. kr., m. ö. o., að Reykjavíkurbæ verði leyft að hefja byggingu tveggja barnaskóla. Upphæðin, sem ríkissjóður með þessu þarf að leggja fram, er aðeins tvöfalt meiri en nú er áætlað, 435 þús. kr. þarna til viðbótar. En það þýðir að gefa Reykjavíkurbæ leyfi til þess að byrja undireins að ráða bót á þeim vandkvæðum, sem menn nú þegar eiga við að búa.

Þegar þessum lögum var breytt á síðasta þingi, virtist það a. m. k. hjá þeim, sem fyrir þeim mæltu, ekki eiga að vera tilgangurinn að koma í veg fyrir, að þeir bæir byggðu, sem hefðu efni á því, og það hefur Reykjavík. Meiningin var sú, og því var eiginlega lýst yfir hvað eftir annað í sambandi við þau lög, að þetta væri fyrst og fremst gert til þess, að það yrði einhver regla á um það, að bæirnir úti um land fengju greitt það, sem þeir ættu inni, og gætu tryggt það. Ég álít, að þessi lög megi ekki verða til þess að koma svo að segja í veg fyrir nauðsynlega barnaskólabyggingu í Reykjavík, eins og þetta mundi verða, ef framlögin væru samþ. eins og nú er lagt til. Af því að þetta var miðað við einn skóla, tillaga fjvn. eða meiri hl. hennar, 435 þús. kr., þá álít ég, að það væri meira að segja betra, ef hv. fjvn. vildi ekki fallast á það eða hæstv. ríkisstj. að tvöfalda þessa upphæð, sem ég hérna hef lagt til, að hún skipti þá gömlu upphæðinni á tvo skóla, þó að hún setti ekki nema 200 þús. kr. á hvorn, þannig að Reykjavíkurbær fengi þá ekki til samans nema 435 þús. kr. Þá hefði hann leyfi til þess að byrja byggingu tveggja skóla, því að það er lífsnauðsyn fyrir fræðslumálin í Reykjavík. Þá yrði þetta ekki lengur raunverulegt fjármál, heldur aðeins spurning um það að veita formlega á fjárlögunum leyfi til þess að hefja slíka barnaskólabyggingu, sem ég efast ekki um að Reykjavíkurbær mundi reyna að gera, ef hann fengi slíkt leyfi. Þó að ég hafi formað mína till. svona og það sé eðlilegast, að hún væri samþ. þannig, vildi ég skjóta þessu fram til hv. meiri hl. fjvn. eða hv. fjvn., þegar hún athugaði þessa till., því að ég fæ ekki skilið, að það geti verið tilgangurinn með samþykkt laganna frá síðasta þingi um byggingu skólahúsa að koma þar með í veg fyrir, að Reykjavíkurbær geti sjálfur fengið að reyna að ráða fram úr þeim vandræðum, sem eru viðvíkjandi byggingu barnaskólahúsa þar.