21.11.1955
Efri deild: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

96. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að heimilað verði að innheimta skemmtanaskatt á næsta ári með sama álagi og verið hefur undanfarið. Fjhn. hefur athugað frv., eins og sjá má á nál. hennar á þskj. 121, og leggur hún til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 4. þm. Reykv., var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt, og skal ég ekki segja um hans afstöðu.

Nefndin leit svo á, að það veitti sízt af öllu af því að framlengja þetta álag á skemmtanaskattinn nú, svo að þær stofnanir, sem skattsins njóta, fái þær tekjur, sem þær hafa haft undanfarið. Það mun vera svo, að þeim þykir það of lítið, og færa rök fyrir sínu máli nokkur. Til dæmis er það, að hér fyrir hv. d. liggur lagafrv., er hjá n. til meðferðar, um að skerða hluta þjóðleikhússins af skemmtanaskattinum og láta ganga til félagsheimila.

Nú er það auðvitað, að þeir, sem hafa yfirstjórn félagsheimilanna, mæla eindregið með þessu frv., en þjóðleikhúsið mælir fastlega á móti því og vill, að allur skemmtanaskatturinn renni til þjóðleikhússins, eins og var í upphafi, þegar skemmtanaskatturinn var á lagður.

Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, að það er víst sízt af öllu, að það megi skerða þær tekjur, sem þessar stofnanir, þjóðleikhúsið, félagsheimilin o. fl., hafa haft af skemmtanaskattinum undanfarið.