13.02.1956
Efri deild: 66. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1956

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Með þessu frv., sem nú hefur verið samþ. frá hv. Nd., er lagt til, að reglulegt Alþingi 1956 komi saman 10. dag októbermánaðar, hafi forseti Íslands ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.

Rökin fyrir þessu frv. eru tilgreind í hinni stuttu athugasemd, þar sem segir, að ef ekki sé annað ákveðið með lögum, eigi reglulegt Alþingi að koma saman ekki síðar en 15. febr. Nú vita allir hv. þm., að Alþ., sem nú situr, mun ekki verða lokið fyrir þann tíma. Þess vegna ber nauðsyn til að ákveða annan samkomudag, og hefur ríkisstj. leyft sér að leggja til, að Alþ. komi saman í síðasta lagi miðvikudaginn 10. okt.

Þetta mál er öllum svo kunnugt að fornu og nýju, að ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að orðlengja um það, en vildi leyfa mér að fara fram á, að það yrði nú afgr. og án nefndar á þrem fundum, hverjum eftir öðrum, ef hæstv. forseta sýnist ekkert við það að athuga.