13.02.1956
Efri deild: 67. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

151. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1956

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. (BSt) vil ég aðeins leiða athygli að því, að ég hef talið, að það væri heimilt að kalla Alþingi saman fyrr en 10 okt., ef henta þykir, og ég fellst alveg á þá bendingu, sem hann gaf. Að henni má leiða rök. En ástæðan fyrir því, að ríkisstj. bendir nú á 10. okt. fremur en þann dag, sem hv. þm. nefndi, er sú, að mér hefur skilizt, að a. m. k. sumir af sveitafulltrúunum og einkum bændurnir hafi fremur nefnt þennan dag sem þeim þægilegan, þ. e. a. s. að þurfa ekki að koma fyrr að nauðsynjalausu en 10. okt. Önnur rök eru sjálfsagt ekki frambærileg. Það mætti þá einmitt út frá því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, jafnvel nefna 20. september til þess að skapa aukið öryggi fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót og kannske hugsanlegan möguleika fyrir því, að það væri hægt að slíta þingi fyrir áramót.

Þetta er bending, sem verður tekin til greina, þegar þar að kemur, og ef ekki þykir annað mæla gegn því, má vel hafa fulla hliðsjón af því, sem hann sagði.