01.03.1956
Efri deild: 78. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

160. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Andrés Eyjólfsson):

Herra forseti. Frv. þetta er um breyt. á l. nr. 42 1955, um almenningsbókasöfn, og er flutt af hæstv. ríkisstj., nánar tiltekið af hæstv. menntmrh. Í frv. er lagt til, að á lögunum verði gerðar tvær höfuðbreytingar og þrjár að auki, sem eru beinar afleiðingar af' aðalbreytingunum.

Fyrri aðalbreytingin er sú, að Kjósarsýsla verði gerð að sjálfstæðu bókasafnshverfi, og í sambandi við það, að Hlégarður í Mosfellssveit skuli vera aðsetur bókasafnsins. Samkv. lögunum er Kjósarsýsla nú í bókasafnshverfi með Kópavogskaupstað og aðsetur bókasafnsins í Kópavogi. Er það skiljanlega miklu óhagstæðara fyrir íbúa Kjósarsýslu, sem eiga aðalerindi sín um þjóðveg þann, sem liggur fast við Hlégarð.

Hin aðalbreytingin er sú, að Vatnsleysustrandarhreppur verði lagður til Hafnarfjarðarkaupstaðarbókasafnshverfis. Samkv. lögunum, eins og þau eru nú, fylgir þessi hreppur Keflavíkurbókasafnshverfi. Eru rökin fyrir þessari breytingu hin sömu og þeirri fyrri, að Vatnsleysustrandarmönnum er hægra um vik að nálgast bækur frá Hafnarfirði en frá Keflavík, þar sem leið þeirra liggur oftar til Hafnarfjarðar en til Keflavíkur.

Af þessum breytingum leiðir svo að sjálfsögðu það, að Kópavogskaupstaður verður einn um sitt bókasafn og Vatnsleysustrandarhreppur flyzt frá Keflavík.

Menntmn. lítur svo á, að breytingar þessar á lögunum séu réttmætar og viðkomandi aðilum til hagnaðar. Leggur hún því til, að frv. verði samþ. óbreytt.