20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á næstsíðasta þingi fluttum við tveir þm. Alþfl. till. til þál. um ríkisútgáfu námsbóka. Hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora í ríkisstjórnina að nota heimild í lögum um ríkisútgáfu námsbóka til að gefa út námsbækur fyrir skóla gagnfræðastigsins alls.“

Þessari till. var vísað til hv. allshn. sameinaðs þings. Minni hluti n., fulltrúar Alþfl. og Sósfl., lagði til, að till. yrði samþ. óbreytt, en meiri hluti n., fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., lagði til, að till. yrði vísað til ríkisstj., í nál„ sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Minni hl. leggur til, að till. verði samþ. En á fjárl. yfirstandandi árs er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á framlagi til ríkisútgáfu námsbóka, sem geri framkvæmd málsins greiða nú á þessu ári. Meiri hlutinn telur rétt, að ríkisstjórnin láti fara fram vinsamlega athugun á málinu, og leggur því til, að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Með öðrum orðum, fyrir tveimur árum hefur þessari till. verið vísað til ríkisstj. með þeim ummælum meiri hl. allshn., að ríkisstj. láti fara fram vinsamlega athugun á málinu, en minni hl. lagði til. að till. yrði samþ. óbreytt. Það var ósk meiri hl. allshn., að ríkisstj. tæki vinsamlega á því að láta ríkisútgáfu námsbóka taka til gagnfræðastigsins alls.

Nú hefur ríkisstj. lagt fram frv. til laga um ríkisútgáfu námsbóka. Það var full ástæða til þess að endurskoða gildandi lög um ríkisútgáfu námsbóka. Stjórn þess fyrirtækis hefur lítið starfað undanfarin ár. Það hefur því miður veríð mjög lítið fé, allt of lítið fé til ráðstöfunar handa henni. Það hefur allt of mikið verið sparað á þessu sviði. Eins og hæstv. menntmrh. gat um í framsöguræðu sinni, hefur vantað ýmsar mjög mikilvægar kennslubækur. Ég vil sérstaklega taka undir það, sem hann sagði um skortinn á fullnægjandi kennslubók í Íslandssögu, sem sannarlega hefur ekki verið vansalaust um langan aldur, eins og ég gat einnig um á sínum tíma, er ég mælti fyrir áðurgreindri till. okkar, að ríkisstofnun, sem hefur þá skyldu að sjá börnum í skyldunámi fyrir kennslubókum, skuli ekki einu sinni sjá þeim fyrir sómasamlegri kennslubók í sögu lands og þjóðar. En Íslandssögukennslubók er ekki eina bókin, sem vantað hefur tilfinnanlega. Sama er að segja um ýmsar aðrar námsbækur, og að því er snertir t.d. landabréf eða landabréfabækur, hefur á því sviði ríkt alger skortur. Eins og hæstv. ráðh. tók fram, hefur frágangur bókanna verið allt of lélegur, verið með þeim hætti, að það hefur siður en svo vakið hjá börnum þá virðingu fyrir bókum, ég vil segja þá ást á bókum, sem eðlilegt er og sjálfsagt að hljótist af fyrstu kynnum þeirra af bókum.

Það var því fyllsta ástæða til að hreyfa þessu máli með því að endurskoða gildandi lög og gildandi framkvæmd á þessu sviði. En ný löggjöf á að sjálfsögðu að fylgja tímanum. Ný löggjöf á að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa á skólakerfinu síðan síðustu lög voru sett. Síðan gildandi lög um ríkisútgáfu námsbóka voru sett, hefur verið gerð gagnger breyting á fræðslulögunum og þá fyrst og fremst sú breyting, að skyldunámið hefur verið lengt um eitt ár. Það grundvallarsjónarmið var ríkjandi, þegar gildandi lög um ríkisútgáfu námsbóka voru sett, að ríkisvaldið ætti að sjá öllum börnum á skólaskyldualdri fyrir kennslubókum ókeypis, ríkisvaldið skyldaði börn til ákveðins náms, gerði þeim ókeypis kleift að stunda námið, og það væri jafneðlilegt, að þau fengju bækur sér að kostnaðarlausu, eins og þau fengju kennara og húsnæði sér að kostnaðarlausu. Þetta sjónarmið tel ég heilbrigt og eðlilegt og frá því eigi undir engum kringumstæðum að víkja.

Með hinni auknu skólaskyldu um eitt ár var því eðlilegt, að starfssvið ríkisútgáfunnar yrði einnig aukið um a.m.k. eitt ár. Í l. hefur verið heimild til þess að láta starfið ná til gagnfræðastigsins alls, en ríkisvaldið hefur ekki einu sinni séð ástæðu til þess að láta það ná til skyldunámsins alls.

Það, sem fyrst og fremst felst í þessu frv., er það, sem segir í 1. gr. þess, að sjá skuli börnum við skyldunám barnafræðslustigsins fyrir ókeypis námsbókum í greinum þeim, sem kenndar eru. Nú er skyldunám barnafræðslustigsins einu ári styttra en það áður var, en í staðinn hefur komið tveggja ára miðskóli. Það virðist vera lágmarkskrafa í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að svo verði kveðið á, að ríkisútgáfan starfi á sviði skyldunámsins alls, þ.e. sjái börnum fyrir skólabókum fram til unglingaprófs, þ.e.a.s., að starfssvið hennar sé aukið um eitt ár, en ekki minnkað sem svarar einu ári. Æskilegast tel ég persónulega, og það munu margir fleiri gera, að verksvið ríkisútgáfunnar verði látið taka til alls gagnfræðastigs. Ef mönnum ofbýður sá kostnaður, sem af því mundi hljótast, kæmi til mála til bráðabirgða, að sporið yrði aðeins tekið til unglingaprófs og hitt yrði enn látið bíða um sinn, þó að stefnt yrði að því marki. En þetta virðist mér sjálfsagt, að nú á þessu þingi stigi Alþ. ekki svo ótvírætt spor aftur á bak á þessu sviði sem verða mundi, ef þetta frv. næði samþykki óbreytt. Munum við flm. þáltill., sem ég gat um áðan, flytja brtt. og miða hana við það, að ríkisútgáfan taki til skyldunámsins alls, og teljum raunar, að þegar sé til yfirlýsing þingsins um velviljaða afstöðu til þess sjónarmiðs í afgreiðslu till., sem ég gat um áðan.

Það er langt frá því að vera þýðingarlitið fyrir almenning í þessu landi, hvernig þessu máli reiðir af. Ég gerði á sínum tíma á því lauslega athugun, hver sé námsbókakostnaðurinn fyrir unglinga í 1. bekk miðskólans, og hann nálgast 300 kr., hvert barn þarf að kaupa nýjar námsbækur, þegar það kemur úr barnaskóla í miðskóla, fyrir um það bil 300 kr. Þetta eru allveruleg útgjöld, sem án efa mætti lækka mjög verulega með því að fella þetta starf undir ríkisútgáfu námsbóka, því að reynslan hefur þar sýnt, að í höndum hennar hefur útgáfa bókanna verið miklu ódýrari en hún var áður og hún hefði orðið, ef þessi útgáfustarfsemi væri í höndum forleggjara með venjulegum hætti, og er það auðvitað algerlega eðlilegt, þar sem bækurnar eru gefnar út í miklu stærri upplögum en ella mundi eiga sér stað og auðveldara að koma við margs konar samræmingu. Hitt er svo annað mál, að sá gífurlega lági kostnaður, sem hefur orðið á bókum ríkisútgáfu námsbóka, hefur sumpart náðst með því móti að hafa bækurnar ófullkomnar og frágang þeirra lélegan, og með slíku mæli ég auðvitað ekki og tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði um þau efni, að þar þarf að verða mikil breyting á, þó að kostnaðarauki hljótist af.

Varðandi ákvæði 2. gr. um skipun námsbókanefndarinnar vildi ég aðeins láta þess getið, þó að einstakar greinar eigi ekki að ræða við 1. umr., að ég tel hæpið að láta prestastefnu Íslands tilnefna einn mann í námsbókanefnd, og þau rök, sem hæstv. ráðh. flutti fyrir því, sannfærðu mig ekki. Prestar höfðu áður fyrr miklu hlutverki að gegna í barnafræðslunni, en nú hafa þeir engu hlutverki að gegna lögum samkvæmt í barnakennslunni. Í þeim efnum hefur verið gerð gagngerð skipulagsbreyting, og nú eru engin tengsl — bókstaflega engin tengsl — milli hinnar almennu barnafræðslu og prestastéttarinnar í landinu. Ég tel því miklu eðlilegra, að þeirri grundvallarreglu verði haldið, sem er í núgildandi l., að framhaldsskólakennarar fái hér að leggja orð í belg og eigi hér sinn fulltrúa. Það eru ekki rök gegn því, að útgáfan starfi ekki á framhaldsskólasviðinu. Framhaldsskólakennararnir hafa einmitt mikla þekkingu á því, hvernig kennslubækur barnastigsins eiga að vera úr garði gerðar, því að þeir taka við börnunum síðar inn í sinn skóla og vita því, hvaða kröfur er eðlilegt að gera til barnanna, þegar þau koma inn í miðskólana og gagnfræðaskólana eða menntaskólana eða sérskólana. Þess vegna tel ég það mjög miður farið, ef allur tillöguréttur allra framhaldsskólakennaranna, sem hafa einmitt sérstaklega góða aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig námsefni barnastigsins á að vera, verður algerlega niður felldur.

Ákvæði frv. um greiðslu kostnaðar við útgáfuna tel ég til mikilla bóta frá því, sem áður hefur verið.

Ég vildi láta þessar athugasemdir koma fram þegar við 1. umr. málsins til þess að undirstrika, að ég tel frv. vera tímabært í fyllsta máta, en jafnframt láta í ljós mikla óánægju með það, að í frv. skuli raunverulega vera stigið spor aftur á bak, en ekki fram á við, eins og ég tel að stíga eigi. Ég vil vænta þess, að till., sem koma munu fram um að láta verksviðið ná til skyldunámsins alls, verði vel tekið af hv. Alþ., eins og ég tel raunar afstöðuna til till. fyrir tveimur árum gefa ákveðið tilefni til að ætla.