13.10.1955
Neðri deild: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

3. mál, íþróttalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er frv. til íþróttalaga, sem er samið af n., er þáverandi menntmrh., Björn Ólafsson, skipaði hinn 23. júlí 1951 til þess að endurskoða íþróttalögin frá 1940. Áttu sæti í n. þeir Sigurður Bjarnason forseti þessarar deildar, sem var formaður nefndarinnar, Benedikt G. Waage forseti Íþróttasambands Íslands og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi.

Nefndin skilaði frumvarpi eða drögum að frumvarpi, eins og hún mun hafa orðað það, til menntmrn. á s.l. vetri, nokkru fyrir jól, og var málið síðan til athugunar hjá rn. og þess ráðunautum og hefur nú verið lagt fram með nokkrum ekki verulegum efnisbreytingum frá því, er nefndin hafði samið það.

Í þessu frv. eru nokkrar breytingar frá fyrri íþróttalögum, fyrst og fremst er frv. fært til samræmis við lagabreytingar, er síðan hafa orðið í fræðslulögum og t.d. varðandi íþróttakennaraskólann. Enn fremur er frv. gert nokkru einfaldara en núgildandi íþróttalög eru og að öðru leyti tekið tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur. Þannig er t.d. lagt til, að starf íþróttafulltrúa verði gert fast starf, en nú er það þannig að nafninu til, að ætlazt er til, að hann sé ráðinn um þriggja ára skeið. Eins og til háttar, er vonlítið, að hæfur maður fáist til slíks starfa, nema um fasta stöðu sé að ræða, enda efast ég ekki um, að það mundu þykja hin mestu firn, ef t.d. núverandi íþróttafulltrúa yrði vikið frá eða hann látinn hætta störfum við eitthvert þriggja ára bil, eftir að hann er búinn að vera eins lengi við þessi störf og raun ber vitni um. Sýnist engin ástæða til þess að láta um þetta gilda aðrar reglur en tíðkanlegt er um embættismenn eða starfsmenn almannavaldsins yfirleitt.

Þá er lítillega gerð breyting á því, til hvaða mannvirkja og framkvæmda eigi að greiða styrki úr íþróttasjóði, og enn fremur kveðið nánar á um þá íþróttastarfsemi fyrir utan mannvirkin, sem styrkja má. Eins er ætlazt til þess, að skýrt komi fram, að skólar fái ekki styrk samkv. þessum lögum, þar sem það fer eftir þeim almennu reglum um styrki til skóla, hvort eða að hve miklu leyti þeir njóti fyrirgreiðslu eða aðstoðar úr ríkissjóði. Hitt sýnist ekki ná neinni átt, sem þó sýnist hafa verið leitazt við í einstaka tilfelli, að láta mannvirki í senn njóta fullra styrkja sem skóla- eða kennslubygging og enn fremur styrkja sem íþróttamannvirki. Annaðhvort hlýtur að nægja, og er kveðið skýrt á um í þessu frv„ að svo skuli verða.

Þá er tekið fram í þessu frv., að styrkja megi mannvirki með allt að 40% kostnaðarverðsins. N. mun hafa fylgt eitthvað svipuðu, og er af hálfu semjenda frv. lögð áherzla á, að þetta hlutfall sé ákveðið, vegna þess að þá muni reynast hægara að fá lán út á mannvirkin en ella.

Út af fyrir sig hef ég og rn. ekkert við það að athuga, að styrkja megi þessi mannvirki með allt að 40%. En ég játa, að ég fæ ekki skilið, og það er tekið fram í athugasemdunum, að þetta muni greiða fyrir lánum út á mannvirkin, þar sem hér er einungis um að ræða hámark, en ekki skyldu til þess að borga 40%. Það væri auðvitað allt annað mál, ef beint væri tekið fram, að borga skyldi úr íþróttasjóði fast 40%. Þá væri um gerbreytingu að ræða frá því, sem verið hefur, og fullkomið öryggi ætti að vera fyrir lánveitendur að lána sem þessu næmi. Þá væri einungis um það að ræða, hversu langan tíma það mundi taka, að ríkissjóður borgaði sín 40%, ef það ætti að koma inn, áður en yfir lyki. En frv. ætlast, að því er ég hef skilið, ekki til þess, að þannig verði farið að, heldur einungis að þetta hámark, 40%, verði ákveðið, og er ekki nema gott um það að segja, það getur verið almenn leiðbeiningarregla. En veðhæfi held ég naumast skapist í hinum væntanlega ríkishluta með slíku móti, úr því að ekki er ákveðnara til orða tekið en raun ber vitni um. Um þetta var sem sagt nokkur skilsmunur í áliti milli mín og n. Ég taldi ekki annað fært en að henda á það í athugasemdunum.

Þá er ætlazt til þess samkv. frv., að héðan í frá verði tryggt, að þegar heimavistir og heimavistarskólar séu byggðir, þá sé séð fyrir íþróttahúsrúmi í samræmi við það. Þetta mun hafa tíðkazt yfirleitt með héraðsskóla eða skála gagnfræðastigsins, eins og þeir nú eru kallaðir, en ekki hafa verið allsherjarregla varðandi barnaskóla, og er sjálfsagt að bæta úr þessu, eftir því sem skólar eru reistir héðan í frá. Hins vegar verður að notast við þær byggingar, sem þegar eru og erfitt kann að vera að bæta úr varðandi þetta. Breytingin miðast sem sagt fyrst og fremst við það, að fyrir þessu verði séð varðandi ný byggingar.

Þá er ákveðið, að sundnáminu skuli lokið á þeim tíma, sem barnanámsskyldunni lýkur, þ.e.a.s. nokkuð færist fram sá tími, sem sundnámið stendur, og er það í samræmi við þá breytingu, sem orðið hefur á hinni almennu fræðsluskyldu frá því, sem áður var, enda er litið þannig á, að heppilegra sé, að börnin nemi sundið frekar á 10–12 ára aldri en t.d. 13–14 ára. Svo er ætlazt til, að aðstoð við flutning taki einnig til, ef unglingar taka þátt í sundnámskeiðum, en áður hefur þetta verið takmarkað við börnin, en eðlilegt sýnist, að þetta taki til nemenda í öllum skólum.

Þá ætlaðist nefndin til, að kveðið væri á um það berum orðum í frv., að að því skyldi stefnt, að líkamsæfingar eða íþróttir væru a.m.k. einn tíma daglega í skólunum. Ég taldi, bæði vegna þess, að þetta orðalag: „að stefna að“ einhverju, er svo loðið, að fram hjá því er hægt að fara, eftir því sem stjórnarvöldin vilja, og eins vegna þess, að yfirleitt er ekki tekið fram í lögum um námstímafjölda varðandi hverja námsgrein, að þetta ákvæði ætti ekki heima í frv„ heldur væri eðlilegra, að um þetta væri kveðið á í námsskrá, og þá mundi það fara eftir því, hvað öðrum greinum er ætlað og hversu langt nám er á hverjum degi o.s.frv., hvaða reglur yrðu um þetta settar. Ég tel, að þetta skipti ekki miklu efnismáli, en sýndist þó réttara að hafa þann hátt á, sem ákveðinn var, að fella þetta atriði niður úr frv.

Þá varð ágreiningur innan sjálfrar nefndarinnar, milli semjenda frv., um, það, hvort halda skyldi í lögum ákvæði um, að ekki mættu nemendur í skólum taka þátt í íþróttaiðkunum, meðan skólarnir stæðu, nema með samþykki skólastjóra. Meiri hl. n. leggur til, að þetta ákvæði sé fellt niður, en íþróttafulltrúinn leggur til, að því sé haldið, og ég sá ekki ástæðu til að gera breytingu við till. meiri hl.. sem einnig munu vera studdar af yfirgnæfandi meiri hluta starfandi íþróttamanna og íþróttafélaga í landinu. En þetta er eitt af þeim atriðum, sem ég tel sjálfsagt að nefnd athugi sérstaklega, úr því að ágreiningur er um þetta milli þeirra, sem frv. sömdu.

Þá er ætlazt til þess, að Íþróttakennaraskóli Íslands, sem sérlög gilda um og sett hafa verið ákvæði um, eftir að íþróttalögin voru sett í fyrstu, megi einnig hafa almenna kennslu fyrir menn, sem eiga að hafa almennar leiðbeiningar í íþróttum, þó að þeir séu ekki eiginlegir íþróttakennarar. Slík fræðsla fyrir þvílíka leiðbeinendur mun hafa verið ákveðin í íþróttalögunum í fyrstu, en síðan felld niður, þegar lögin um íþróttakennara voru sett, en meinlaust sýnist vera og eðlilegra, að íþróttakennaraskólinn hafi heimild til þess að hafa slíka kennslu handa þessum leiðbeinendum. Eins er ráðgert, að Íþróttasamband Íslands og ungmennafélagasambandið megi hafa slíka kennslu, ef þau óska.

Þá er ætlazt til þess, að sett séu fyrirmæli, sem útiloki þann möguleika, að íþróttamannvirki séu gefin eða seld, án þess að íþróttanefndin samþykki, og ef slíkt samþykki er veitt, þá endurgreiðist sú styrkupphæð, sem veitt hefur verið til mannvirkisins, úr íþróttasjóði. Þetta ákvæði sýnist vera eðlilegt og nauðsynlegt til að hindra, að misfarið sé með það fé, sem íþróttasjóður hefur veitt til þessara mannvirkja.

Ég hygg, að ég hafi stuttlega gert grein fyrir helztu breytingunum, sem felast í þessu frv. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það, en legg til, að frv. verði vísað til hv. menntmn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.