12.10.1955
Neðri deild: 3. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þá er þetta frv. komið fram enn einu sinni, og hefur hæstv. ríkisstj. ekki einu sinni haft svo mikið við að breyta því, að hún geri það lögfræðilega sæmilega úr garði. Þetta frv. er enn þá þannig, að 3. kafli úr lögum, sem sett voru 1948, er látinn gilda og þó ekki greinarnar allar, heldur aðeins ákvæðin um tekjuöflun, dreifð hér og hvar innan um greinarnar. Þetta er búið að minnast á við hæstv. ríkisstj. ár eftir ár, að hún a. m. k. gangi frá þeim álögum, sem hún leggur á landsfólkið, í sæmilega lögfræðilegu formi. Ekki einu sinni svo mikið hefur hæstv. fjmrh. látið vinna enn sem komið er. — En það er nú ekki verst. Því hefur verið lofað ár eftir ár, og sérstaklega var því lofað í hvert skipti, sem verið var að leggja einhvern nýjan skatt á fólkið í landinu, að þetta væri bráðabirgðaskattur, þetta væri aðeins til eins árs og síðan yrði það ekki lengur látið haldast. Þegar þessi skattur, sem hér er um að ræða, var lagður á, átti að verja honum í alveg sérstöku skyni, og í upphafi 3. kaflans, þessa kafla, sem enn einu sinni er framlengdur, þannig þó, að fellt er niður úr honum allt, sem ekki er til tekjuöflunar, og þar með náttúrlega líka inngangurinn, hljóðaði inngangurinn svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“

Ábyrgðin um verð á útfluttri vöru er nú löngu afnumin, en hins vegar hefur þessi skattur upp á síðkastið alveg sérstaklega orðið til þess að hækka og auka dýrtíðina innanlands.

Hæstv. fjmrh. er nýbúinn að leggja fyrir okkur yfirlit yfir afkomu ríkisins síðasta ár, og þá fara tekjurnar um 100 millj. kr. og jafnvel yfir það fram úr áætlun, m. ö. o., enn einu sinni sýnir það sig, að þessi skattur er ekki nauðsynlegur. Það hefur komið fyrir líka á undanförnum árum, að það, sem tekjurnar fara fram úr áætlun, hefur verið meira en sem numið hefur öllum söluskattinum, og það mun fara eitthvað svipað núna. Að minnsta kosti er svo, að það er engum blöðum um það að fletta, að stórum hluta af söluskattinum hefði mátt sleppa á undanförnum árum.

Að vísu kemur hæstv. fjmrh. nú og segir í sinni stuttu framsögu fyrir þeim 100 millj., sem hann vill fá, að ríkissjóður megi einskis í missa, og þetta syngur hann ár eftir ár, alltaf sama lagið, næstum sömu orðin, og alltaf er það orðið umbreytt í hreinasta háð, þegar hann skilar svo reikningunum. Í þetta skipti skilaði hann reikningunum það snemma prentuðum til okkar, að það var áður en hann flutti þessa framsöguræðu um söluskattinn, svo að raunverulega löðrungar hann sjálfan sig, um leið og hann er nú að fara fram á, að Alþingi samþykki þessar álögur enn á ný. Það, sem er þó verst í þessu öllu saman, er, að hæstv. ríkisstj. hefur lofað því á undanförnum árum, búin lofaði því í vetur, og hæstv. fjmrh. hefur hvað mest talað um það, að það þurfi að draga úr dýrtíð, en á sama tíma er eins og hæstv. fjmrh. sjálfur geri leik að því að auka dýrtíðina með því að viðhalda álögum, sem ekki væri nauðsynlegt að leggja á þjóðina, en verða til þess að hækka stórkostlega alla dýrtíð í landinn og allan framleiðslukostnað. M. ö. o.: Í staðinn fyrir loforðin um að létta af sköttum svo fljótt sem hægt væri er haldið öllum þeim þungu sköttum, og jafnvel þótt þeir reynist óþarflega þungir, þá eru þeir ekki léttir. Þó er máske ekki einu sinni hæstv. fjmrh. verstur í þessum efnum, heldur er öll ríkisstj. sek um það að skipuleggja dýrtíðarflóð í þjóðfélaginu og þyngja í sífellu dýrtíðina á almenningi. Það er eins og sú sama regla sem gildir hér í fjárlögunum hjá hæstv. fjmrh. hafi alveg sérstaklega þetta sumar verið gerð að höfuðstefnu ríkisstj., að margfalda dýrtíðina, hefna sín á almenningi með því að auka dýrtíðina á öllum sviðum. Það hefur engu líkara verið, síðan við skildum hér á síðasta þingi, en að ríkisstj. hafi farið beint út til allra aðila í landinu, sem ráða verðlagningu, og sagt við þá: Aukið þið nú hver á sínu sviði verðlagið eins og þið frekast getið. — Síðan kyrja blöð ríkisstj.: Dýrtíðin vex, það er allt kauphækkuninni að kenna. — Og þessi sama ríkisstj. veit, að kaupið er ekki orðið það sama í dag og það var 1947, fyrir átta árum, þrátt fyrir kauphækkanirnar síðasta vor; er ekki orðið það sama að tiltölu og miðað við dýrtíð.

Sú sama stefna hæstv. ríkisstj. sem kemur fram í þessari till., að framlengja enn þá einu sinni söluskattinn óbreyttan og gera þannig af hálfu ríkisvaldsins skipulagðar ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina, hefur verið framkvæmd í þjóðfélaginu á síðustu mánuðum með slíkum krafti, að allt landsfólkið stynur undir því dýrtíðarflóði ríkisstj. núna. Þetta er nauðsynlegt að taka fram, og þetta verður nauðsynlegt að taka fram í sambandi við þær till., sem ríkisstj. kemur til með að gera hér, ekki sízt vegna þeirra blekkinga, sem hún hefur sjálf í frammi í sambandi við það, hver sé undirrót þess dýrtíðarflóðs, sem ríkisstj. skipuleggur nú gegn alþýðu manna. Það þarf að koma greinilega fram í þessu sambandi þáttur fjmrh. þar í, en annars þáttur ríkisstj. almennt, að það er hennar stefna og hefur verið hennar höfuðstefna á undanförnum árum að láta auka dýrtíðina, eins og hún frekast hefur getað, og gera ekkert til þess að draga úr henni.

Mér dettur aðeins í hug í þessu sambandi, ekki sízt vegna þeirra stórkostlegu aðgerða, sem ríkisstj. gerði að sínu aðalmáli á síðasta þingi, húsnæðismálalöggjafarinnar, að það mætti ef til vill minna aðeins á það, hvernig hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar hafa skipulagt dýrtíðaraukninguna á undanförnum árum í sambandi við þau mál. Fyrir 10 árum var húsaleiga hér í Reykjavík á 3 herbergja íbúð almennt um 150 kr. á mánuði, a. m. k. í öllum þeim húsum, sem þá voru nokkurra ára gömul, tveggja til þriggja ára. Nú í dag er húsaleiga fyrir 3 herbergja íbúð í Rvík 1500–2000 kr., og hún hækkaði víða, eftir að ríkisstj. gaf út sínar fyrirskipanir til auðmannanna í landinu um að keppast um að hækka eins og hægt væri allt verðlag, í vor úr 1500 upp í 2000 kr., þegar menn þóttust sjá, að það væri algerlega búið að gefa laust, sleppa öllum hömlum af hálfu ríkisstj. á dýrtíðinni í landinu. M. ö. o.: Húsaleiga hér í Rvík á húsnæði, sem a. m. k. um það leyti sem verkamannabústaðirnir voru settir fyrir 25 árum taldist hæfilegt fyrir almenning og telst með því minnsta núna, er komin upp í 1500–2000 kr., er tíföld og meira en það á við það, sem hún var 1945. Og þetta er fyrir tilstilli ríkisstj. og hennar flokka, þeirra flokka, sem afnámu húsaleigulögin, afnema öll verðlagsákvæði og sleppa allri dýrtíðinni lausri og ýta undir auðmannastéttina í Rvík og alla þá, sem aflan í henni hanga, um að hækka dýrtíðina eins og frekast sé hægt. Á sama tíma sem húsaleigan hefur tífaldazt og meira, hefur kaup tvöfaldazt. Kaup Dagsbrúnarmanns, sem 1946 var um 8 kr. á tímann, er nú um 16 kr. Ef reiknað er með, að húsaleiga í t. d. þriggja herbergja íbúð sé 1600 kr., þá er það helmingurinn af mánaðarkaupi Dagsbrúnarmanns fyrir 8 tíma vinnu á dag. Þetta er ástand, sem þekkist ekki neins staðar á Norðurlöndum, að verkamenn þurfi að greiða helminginn af sínu mánaðarkaupi í húsaleigu, nema hér á Íslandi, beinlínis skipulagt af hálfu núverandi stjórnarflokka. Og það er ekki nóg með, að þeir, sem verða að leigja, verði að búa við svona kjör, heldur verða þeir, sem eru að byggja yfir sig og eiga að heita að búa í eigin húsnæði, að reikna sér svona leigu til þess að standa undir sínum íbúðum vegna þess okurs, sem hæstv. ríkisstj. hefur skipulagt viðvíkjandi lánum. Það hefur verið hennar stefna, yfirlýst frá því að Marshalllánin voru tekin, að hækka í sífellu vextina, og það hefur verið hennar stefna í mótsetningu við það, sem var fyrrum, þegar lán til verkamannabústaðanna voru upp í 42 ára lán með 2% vöxtum, að láta menn ekki fá nema tiltölulega stutt lán í bönkunum, sem hún ræður og ber ábyrgð á, og hækka vextina upp í 5 og 5½%, þannig að menn verða nú líka í þeim íbúðum, sem menn eiga sjálfir og eru að byggja sér, að reikna þessa sömu háu húsaleigu, enda hefur braskið, sem ríkisstj. hefur gefið lausan tauminn, og það hefur verið hennar höfuðstefna, blómgazt þannig, að ég get t. d. nefnt dæmi um íbúð, sem fyrir tveim árum kostaði 140 þús. kr., þriggja herbergja kjallaraíbúð hér í Rvík, var árið eftir seld á 190 þús. og í ár á 230 þús. Þá geta menn reiknað út, að hjá þeim, sem kaupir íbúð á 230 þús. kr. og verður að búa í henni sjálfur, er leigan, þó að hann reikni ekki nema 10% í vexti og viðhald, komin upp í 2000 kr. á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð. Það er þetta brask, sem ríkisstj. hefur skipulagt í þjóðfélaginu, hefur ýtt undir, hefur hleypt lausu á almenning. Þær smáu viðnámsráðstafanir, sem verkalýðssamtökin hafa gert og verkamenn hafa orðið að fórna miklu fyrir, standa í margra vikna verkföllum, leiða til þess, að verkamenn hafa aðeins tvöfalt kaup á við það, sem var fyrir 10 árum, á meðan ríkisstj. lætur tífalda húsaleiguna, og þá er ástandið þannig, að hæstv. ríkisstj. ýtir undir gróðafíknina, dýrtíðaraukninguna, það, sem hæstv. fjmrh. mundi stundum hafa kallað verðbólguna, og reynir svo í sínum áróðri að skella skuldinni á verkamenn, ef þeir leyfa sér að sýna smávægilegt viðnám á móti þessari óþolandi dýrtíðaraukningu ríkisstjórnarinnar. Ég hef minnzt á húsaleiguna sem dæmi, vegna þess að það var málið, sem ríkisstj. lofaði á síðasta þingi að skyldi verða bætt úr, og hún færir vafalaust nú fram sínar ástæður til þess að koma fram með skýringar á, hvað hún hafi unnið þar mikil afrek.

En það er ekki aðeins á þessum sviðum, sem snerta almenning mest, sem dýrtíðaraukningin kemur þannig niður. Ég vil aðeins í sambandi við þessar till. hæstv. ráðh. um að framlengja söluskattinn einu sinni enn þá minna á eitt atriði, sem hæstv. fjmrh. finnst vafalaust lítið atriði.

Allur þessi söluskattur lendir m. a. á öllum vélum til framleiðslu, öllum vélum til stofnunar nýrra fyrirtækja, og það jafnt þeirra fyrirtækja, sem þörfust eru talin og ríkið takmarkar með sérstökum lögum, hvernig leggja megi á, sem til þeirra, sem væru mikil gróðafyrirtæki. Eitt af því t. d., sem söluskatturinn leggst á og hæstv. ráðh. gerir ekki neinar till. um að breyta hér, eru allar vélar til raforkuframleiðslu.

Þegar hæstv. ríkisstj. með sínu mikla yfirlæti tók við völdum, áttu raforkumálin að vera eitt af þessu stóra, sem hún ætlaði að gera í landinu. Allar þær áætlanir, sem hún hafði í upphafi, hefur hún ýmist verið að smáminnka eða hún hefur verið að fresta þeim. Ég veit ekki, hvort hún hefur verið að fresta þeim fram yfir það, að stjórnin félli, þannig að hún gæti gert allar ráðagerðirnar að kosningamáli einu sinni enn þá, eða hvort það er bara það almenna stjórnleysi hennar á öllum efnahagsmálum þjóðfélagsins, sem veldur frestuninni. En mér er sérstaklega vel kunnugt um eitt af þeim fyrirtækjum, sem söluskatturinn lendir þannig á með miklum þunga, eitt af þeim fyrirtækjum almennings, sem ríkið með alveg sérstökum lögum þó vildi reyna að tryggja að legðu ekki mikið á. Þessi söluskattur lendir á öllum raforkuvélum til allra virkjananna, sem nú er verið að undirbúa, og hefur lent á þeim undanfarin ár, þ. á m. Sogsvirkjuninni. Hin nýja Sogsvirkjun kostaði, eins og ég hef sagt hér frá áður, 195 millj. kr. Af þessum 195 millj. kr. voru 25 millj. kr. söluskattur og aðrir tollar til ríkisins af vélunum, mestmegnis söluskattur, 9 millj. kr. voru vextir, meðan á byggingunni stóð, vextir til banka ríkisins. 35 millj. kr. af 195 millj. voru skattur til hæstv. ríkisstjórnar. Síðan bætast þessar Eysteinsmilljónir, þessar 35 milljónir, við allan stofnkostnað Sogsvirkjunarinnar, reiknast síðan með á eftir í öllu því, sem lagt er á, og verða þannig beinlínis til þess að hækka dýrtíðina í þjóðfélaginu. Ég þekki ekki nokkurt ríki um víða veröld, sem hefur þessar aðferðir við stofnsetningu ríkisfyrirtækis. Ríkið á helminginn, Reykjavíkurbær helminginn, og fyrirtækið er rekið sérstaklega með almenningshag fyrir augum, og í lögum hér frá Alþ. er ákveðið, að það má ekki leggja nema 5% á kostnaðarverð raforkunnar frá þessu fyrirtæki. En ríkisstj. sjálf tekur, áður en þessi 5% eru lögð á, í stofnkostnaðinn þarna 35 millj. kr., 25 millj. kr. þar af í söluskatti og öðrum tollum til ríkisins, og er söluskatturinn þó þar mestur. Sama máli kemur auðvitað til með að gegna nú með þær virkjanir, sem fyrirhugaðar eru á Vestur- og Austurlandi, og ég þykist vita, að einn af erfiðleikunum við að útvega fé til þessara fyrirtækja núna er sá að útvega fé til þess að borga ríkisstj. skattana, sem lagðir eru á þessi fyrirtæki, áður en þau verða til.

Ég hef hvað eftir annað hér á Alþingi sýnt f'ram á nauðsynina á því, að hægt verði að ráðast í þá nýju Sogsvirkjun snemma, vegna þess að hér vofa stórvandræði yfir, ef Sogsvirkjun getur ekki tekið til starfa í síðasta lagi að tveim árum liðnum, fyrir utan stórkostlegt tap á öllum rekstri Sogsvirkjunarinnar og rafmagnsveitnanna. Hugsanleg er minnkun eða stöðvun áburðarverksmiðjunnar eða annað slíkt. Og það er vitanlegt, að það virðist hafa gengið a. m. k. allerfiðlega fyrir hæstv. ríkisstj., að svo miklu leyti sem hún hefur með þessa lánaútvegun að gera, að útvega lán til þessa fyrirtækis, sem er þó eins bráðnauðsynlegt og eins öruggt fyrirtæki til greiðslu og Sogsvirkjunin er. En eitt af því, sem skapar vandræði í þessu, er, að af þeirri Sogsvirkjun, sem nú á að leggja í og nú kostar sínar 120 millj., verða upp undir 20 millj. kr. söluskattur og tollar til ríkisins. Þetta er engin búmennska, en þetta er ákaflega gott ráð til þess að auka dýrtíð, og það virðist vera það eina, sem ríkisstj. hefur verulegan áhuga á.

Ég álít þess vegna, að það ætti að taka þessi mál til alvarlegri athugunar en gert hefur verið undanfarið, og það er ef til vill ekki alveg ómögulegt, að það væri hægt. Það er vitanlegt, að það er orðið hálfórótt í stjórnarherbúðunum. Þær hafa ekki beinlínis verið neitt kærleiksheimili á undanförnum árum, en nú ganga þó hótanirnar, svo að maður ekki tali um klögumálin, á víxl, og það svo hávært, að í blöðum ríkisstj. bergmálar raunverulega meira baráttan á milli stjórnarflokkanna innbyrðis heldur en nokkurn tíma baráttan við stjórnarandstæðingana.

Nú þætti mér þess vegna gaman að vita, ef það er meiningin hjá stjórnarflokkunum og þeir hafa þegar komið sér saman um það að sundrast í vetur og jafnvel stofna til kosninga næsta vor, hvort þeir hafa samt komið sér saman um að framlengja fyrst jafnósvífið og undanfarin ár allar álögur á almenning í landinu. Er það samkomulag? Á að gera öllum nýjum fyrirtækjum í landinu, raforkuverum og öllum öðrum fyrirtækjum, jafnerfitt og verið hefur með, að þau verði sett á stofn? Á að gera almenningi jafnþungt fyrir að greiða? Á að skipuleggja dýrtíðina jafnósvífið og gert hefur verið undanfarið og koma svo eftir nýárið og segja: Ja, við erum á móti öllum þessum tollum og alveg á móti því að vera að gera svona erfitt fyrir raforkuverin og annað slíkt? M. ö. o.: Ætla t. d. Framsfl. og Sjálfstfl. fyrst að samþykkja öll þessi lög og koma svo með þingsályktanir eftir nýárið um að fella niður svo og svo mikið af söluskattinum? Það væri mjög fróðlegt að fá að vita um þessi vinnubrögð. Þau væru nefnilega alveg í samræmi við það, sem við erum að sjá öðru hverju, jafnvel með þeim þáltill., sem þegar eru komnar fram nú á fyrsta degi þingsins hjá stjórnarflokkunum. Þau væru í samræmi við vinnubrögðin, eins og þegar ríkisstj. var að gefa yfirlýsingar um, að radarstöðvarnar hérna væru hernaðarleyndarmál og þess vegna yrðu að vera amerískir hermenn í þeim, og um leið komu þá þingmenn stjórnarflokkanna fram með till. um, að það væru eingöngu Íslendingar í radarstöðvunum. Þess vegna gæti ég búizt við, að eftir nýárið kæmi annaðhvort Frams.- eða Sjálfstfl. fram með till. um að fella niður meginið af söluskattinum, eftir að þeir væru búnir núna fyrir nýárið, meðan verið væri að afgreiða fjárlögin, að knýja söluskattinn í gegnum þingið. Þess vegna vek ég máls á þessu núna. — Hins vegar vil ég mjög eindregið mælast til þess við fjhn., að hún athugi nú söluskattslögin af fullri alvöru.

Það sýnir sig ár eftir ár, að þetta eru ekki aðeins óréttlátar álögur á almenning, sem koma þungt niður á honum, verka eins og verstu tollar, heldur eru þetta líka að mjög miklu leyti óþarfar álögur á almenning. Og þó að meiri hl. fjhn. hafi engan áhuga á réttlætinu, þá hefur hann kannske einhvern áhuga á því, sem væri óþarfi. Það væri þess vegna kannske hugsanlegt, að hann væri til í að skera eitthvað ofur lítið niður af því, sem auðséð er að ríkissjóður vel mætti við að missa, og þá er það fyrst og fremst sá hluti af þessum álögum, sem lendir þyngst á almenningi, og í öðru lagi sá hluti, sem verður til þess að auka beinlínis dýrtíðina í landinu, eins og söluskatturinn á þau framleiðslutæki, sem framleiða þá nauðsynjavöru, sem almenningi er sérstök þörf á og almennt þykir frekar rétt að reyna að halda niðri verði á. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hv. fjhn. sýni nú nokkurt sjálfstæði gagnvart hæstv. ríkisstj. í þessum málum og þrautreyni, hvort ekki mætti knýja fram á þessum þyngstu og stærstu álögum í sambandi við fjárlögin nokkra breytingu.