29.03.1957
Efri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

10. mál, dýravernd

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um dýravernd hefur verið mjög rækilega undirbúið. Fyrrv. menntmrh. fól það Ármanni prófessor Snævarr, og hefur hann lagt í það mikla vinnu og vandvirkni að gera frv. sem bezt úr garði. Frv. var lagt fyrir Nd. sem stjórnarfrumvarp.

Menntmn. þessarar deildar ræddi málið ýtarlega á fjórum fundum. Ég hreyfði því í n., að af þeim breytingum, sem Nd. hefði gert á frv., teldi ég eina verulega til hins verra, og það væri að fella niður ákvæði 17. gr. frv. um sérstaka dýraverndunarnefnd, sem skyldi vera ráðuneytinu til aðstoðar í þessum málum. Svo illa hittist á, að ég gat ekki sótt þann nefndarfund, þegar málið var svo afgreitt, og aðrir nm. mæltu með frv. óbreyttu.

Ég hef ekki flutt brtt. um þetta, vegna þess að ég vissi, að ýmsir lögðu áherzlu á að fá málið samþ. óbreytt hér í d., svo að það þyrfti ekki að ganga aftur til Nd. Nú hafa hins vegar verið bornar fram allýtarlegar brtt., sem skipta töluverðu máli, af hv. 1. þm. N-M., og ég tel því rétt að hreyfa þessu máli nú og vil biðja hæstv. forseta um að fresta málinu, til þess að færi gæfist til þess að koma þessari till. að, en þetta mun vera 3. umr.

Það segir í grg. þessa frv., að sums staðar sé sá háttur hafður um dýraverndarmál, að sérstakar dýraverndarnefndir, nefndir kunnáttumanna og áhugamanna, séu starfandi til ráðuneytis valdamönnum í þessu efni. Í grg. er m.a. bent á, að sá háttur sé á hafður í Noregi, og hefur verkefni þessara nefnda verið að hafa vakandi auga á brotum á dýraverndarlögum og eiga frumkvæði að því, sem horfa má til framdráttar dýravernd þar í landi. Hafa þessir hættir þótt gefast vel, segir í grg. frv. Þessi háttur er svo upp tekinn af höfundi frv., og í 17. gr. hins upphaflega frumvarps segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Menntamálaráðuneyti hefur yfirstjórn allra mála, er varða dýravernd. Ráðuneytið nýtur aðstoðar dýraverndarnefndar um stjórn þeirra málefna. Menntamálaráðuneyti skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Skal einn nefndarmanna skipaður eftir tillögum Dýraverndunarfélags Íslands, einn eftir tillögum Hins íslenzka náttúrufræðifélags, einn eftir tillögum Dýralæknafélags Íslands. Menntamálaráðuneyti skipar einn nefndarmann, en yfirdýralæknir er sjálfskipaður formaður nefndarinnar.“

Ég tók það fram í n. og vil taka það fram enn, að ég tel rétt að halda þessari skipan eins og frv. lagði til, að hafa dýraverndarnefnd og eins skipaða og þar er, að öðru leyti en því, að ég tel sjálfsagt, að Búnaðarfélag Íslands tilnefni þó einn mann í nefndina, Gæti þá orðið sú breyting á, að þessir þrír aðilar, sem hér eru nefndir, tilnefndu menn, auk þess Búnaðarfélagið og yfirdýralæknir yrði sjálfkjörinn formaður nefndarinnar.

Síðan segir í 17. gr.:

„Tillagna dýraverndarnefndar skal leitað við setningu reglugerða eða annarra stjórnvaldsreglna um dýravernd. Nefndinni er skylt að gera tillögur til menntmrn. um allt, sem horfir til framdráttar dýravernd“ o.s.frv. Dýraverndarnefnd skal starfa kauplaust. En þó að nefndarmenn fengju ekki laun, þá er því ekki að leyna, að óhjákvæmilega yrði einhver kostnaður af störfum hennar.

Ég tel af ýmsum ástæðum þessa skipun heppilegri, að hafa þarna ráð eða nefnd kunnáttu- og áhugamanna, heldur en að það heyri eins og hvert annað venjulegt mál undir ráðuneytið beint og starfsmenn þess.

Í grg. segir m. a. um þetta, að það mundi vera hagur að því fyrir ráðuneytið að hafa sér við hlið nefnd kunnáttumanna og áhugamanna um dýravernd, þegar til framkvæmdar á lögunum kemur. — M.a. á nefndin að láta í té umsagnir handa löggæzlumönnum, ákæruvaldi og dómstólum um þessi mál. Enn fremur er það verkefni nefndarinnar að beita sér fyrir aukinni þekkingu manna og skilningi á dýraverndarmálum. Er hér einkum höfð í huga ýmiss konar útbreiðslustarfsemi í ræðu og riti, fræðsla í skólum og útvarpi, efling félagsstarfsemi, er lætur sig dýravernd varða, o.s.frv.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég tel miður farið, að Nd. felldi þetta ákvæði niður, og vil sem sagt fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. til næsta fundar, svo að færi gæfist á að semja og koma á framfæri þessari brtt.

Varðandi það atriði, undir hvaða rn. þessi mál eigi að heyra, þá er það náttúrlega mikið álitamál, og ég skal viðurkenna, að það er margt í málflutningi hv. 1. þm. N–M., sem ég get alveg fallizt á. Það er líka þannig, að í ýmsum löndum er þessu ólíkt farið. Í Noregi heyra dýraverndarmál undir landbrn., eins og hv. þm. leggur til að verði gert hér. Í Danmörku heyra þessi mál hins vegar undir dómsmrn. En ástæðan til þess, að hér hefur verið lagt til í þessu frv., að dýraverndarmál heyri undir menntmrn., er sú, að svo hefur jafnan verið um dýraverndarmálin, ég held frá upphafi, og önnur friðunarmál heyra einnig undir það rn. Þannig er ákveðið t.d. í lögunum um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem voru samþ. hér á Alþ. fyrir þrem árum, að þau mál heyra undir menntmrn., og sama er í lögunum um náttúruvernd, sem samþ. voru á síðasta þingi, að þau mál heyra undir menntmrn. Þess vegna hafa þótt hyggilegri vinnubrögð að sameina öll þessi friðunarmál á einn stað, í eitt og sama ráðuneyti, og hef ég orðið öðrum nm. í menntmn. sammála um, að rétt sé að halda þessari skipan, þó að ég hins vegar, eins og ég tók fram, geti fallizt á ýmis af rökum hv. þm. fyrir brtt. hans.