21.03.1957
Efri deild: 74. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

206. mál, skattfrádráttur

Jón Kjartansson:

Þrátt fyrir þessi ummæli hv. formanns fjhn. sný ég ekki aftur með það, að mér finnst þessu máli vera sýnt allt of mikið tómlæti. Hann taldi, að það væri ekkert tómlæti, af því að þeir hefðu tekið við þessu frv. úr Nd. og afgreitt það fljótlega. En þegar þeir líta á, hvernig frv. er, þá held ég, að þeir geti komizt að raun um, að það bætir ekki það ástand, sem nú er sem er vissulega meiningin að eigi að gera. Ég hygg, að það verði sú reyndin, ef ekki er gerð bragarbót á. Það bætir það að engu leyti eða svo til að engu leyti.

Hv. formaður fjhn. segir, að þegar eftirsóknin var hér fyrir nokkrum árum eftir skiprúmi á togara, hefðu kjörin þó verið miklu lakari en nú. Þetta er alger misskilningur. Kjörin þá, miðað við vinnu í landi, voru betri. Þess vegna var sótzt eftir þessari vinnu, enda þótt aðbúnaður hefði verið allt annar og lakari þá en nú. Kjörin voru miklu betri, og þess vegna sóttust ungir menn eftir togaraskiprúmi, sem þeir gera nú ekki þrátt fyrir þessi góðu skip, sem nú eru. Það kemur til af því, að kjörin eru miklu lakari en kjörin í landi. Það er þetta, sem verður að breyta, til þess að það sé hægt að manna okkar skip. Við getum aldrei verið fiskiþjóð, ef við sinnum ekki þessu betur en nú er gert.