22.03.1957
Neðri deild: 73. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

138. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir, felur í sér þær breytingar einar á lögunum um fiskveiðasjóð að hækka það mark, sem miðað hefur verið við um stærðir fiskiskipa, sem njóta skulu forgangsréttinda til lánveitinga úr sjóðnum, úr 200 rúmlestum í 300 rúmlestir og að afnema þau hámarksákvæði um lánsupphæð, sem áður voru í gildi í lögum sjóðsins. Eins og segir í grg. frv., var gert ráð fyrir því, að hámarkslán, sem veita mátti úr sjóðnum til fiskiskipa, væru 1 millj. 250 þús. kr. út á eitt einstakt fiskiskip og hámarkslán, sem veita mátti til framkvæmda til fasteigna eða framkvæmda í landi, voru 600 þús. kr. Nú er hér lagt til að afnema með öllu þessi hámarksákvæði, þannig að það standi opið fyrir sjóðsstjórninni, hve lánsupphæðin á einstakt skip verður há.

Ástæðan til þess, að lagt er til að gera þessar breytingar á lögunum um fiskveiðasjóð, er fyrst og fremst sú, að fyrir stuttu voru fyrir milligöngu ríkisstj. fest kaup á sex fiskiskipum, sem eru yfir 200 rúmlestir að stærð, en ráðgert hefur verið að veita lán úr sjóðnum einnig út á þessi fiskiskip.

Ef sjóðurinn ætti að lána 2/3 af kostnaðarverði þessara skipa, eins og hann gerir almennt ráð fyrir að lána út á ný fiskiskip, verða vitanlega að koma til allmiklu hærri lán í sambandi við þessi skipakaup en það hámark, sem í lögunum var áður. Til þess að koma því til leiðar, að sjóðurinn geti lánað á eðlilegan hátt einnig út á þessi fiskiskip, þurfti því að gera þær breytingar á lögum sjóðsins, sem hér er lagt til með þessu frv.

Um aðrar breytingar er ekki að ræða í sambandi við þetta frv., en í undirbúningi eru síðan till. um að auka nokkuð við tekjur sjóðsins, en það kemur fram síðar, og er ekki víst, að það verði flutt sem sérstök breyting á ]ögunum um fiskveiðasjóð, enda er það kunnugt, að ákvæðin um þá tekjuöflun, sem sjóðurinn byggir á, er að finna í enn öðrum lögum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að rekja þetta frekar hér við þessa umr., en óska eftir því, að málinn verði vísað til 2. umr. og sjútvn.