29.01.1957
Neðri deild: 47. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. forseta, að það er ekki vansalaust, að nefndir skuli ekki skila málum. En hér er við ramman reip að draga fyrir suma nm.

Ég vil skýra frá því, að í iðnn., sem hefur sumt af þeim málum, sem hér var drepið á, var haldinn fundur nokkru fyrir jól eftir beinum tilmælum mínum og fleiri nm. Þegar á fundinn kom, kom fram till. um að leita álits hæstv. ríkisstj. um þau málefni, sem fyrir lágu.

Síðan er töluverður tími liðinn, og hefur ekki verið haldinn í n. fundur, væntanlega vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið sér tíma til þess að sinna því að gefa það álit, sem um var beðið, svo að það er ekki einhlítt að beina áskorun til nefndanna. Henni verður fyrst og fremst að beina til nefndarformanna — og til hæstv. ríkisstj. í þeim tilfellum, þar sem hennar umsagnar hefur verið óskað.

Eins var það varðandi hv. allshn., sem hafði til meðferðar breytingu á bifreiðalögunum, sem hv. þm. V-Húnv. hafði flutt, að nm. voru sammála um, að ekki væri tímabært að afgreiða það mál, fyrr en sýnt væri, hvort ríkisstj. ætlaði að leggja fram frv. til l. um umferðarmál, sem vitað er að hefur legið marga mánuði í dómsmrn. Mér vitanlega hefur ekki fengizt upplýst til hlítar enn þá, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera í þessum efnum, en að sjálfsögðu er afgreiðsla frv. hv. þm. V-Húnv. undir því komin, hvað verður um þann mikla lagabálk, sem einnig grípur yfir það efni, sem hans frv. fjallar um.