24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

177. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Mér skildist á síðasta ræðumanni, hv. þm. A-Húnv., hann líta svo á, að með því að lögleiða það frv., sem hér liggur fyrir, væri stigið skref í þá áttina að taka hér upp ameríska stjórnarhætti. En það lítur út fyrir, að honum og öðrum hv. þm. í hans flokki þyki það ekki góð fyrirmynd, því að þeir munu ætla að beita sér gegn málinu. Hann nefndi, að það hefðu verið bornar fram nokkrar brtt. við frv., og er það rétt, og ég get glatt hann með því, að enn eru brtt. á ferðinni frá fjhn., því að við erum víst sammála um það, að lengi megi gott verk bæta.

Á þskj. 636, sem nýlega var útbýtt í deildinni, flytur fjhn. brtt. við 21. gr. frv., og er brtt. um það, að bankastjórum seðlabankans og öðrum, sem þar eiga sæti í stjórn, skuli ekki vera heimilt að vera í stjórn annarra peningastofnana. Telur nefndin rétt, að ákvæði séu um þetta í lögunum, þar sem það virðist óeðlilegt, að slíkt eigi sér stað, og má nú reyndar ætla, að til þess hefði ekki komið, jafnvel þó að ekkert hefði verið um þetta sett í lögin. En þar sem þarna er um seðlabanka að ræða, sem gert er ráð fyrir að hafi viðskipti við aðra banka ekki sízt, þá þykir rétt að hafa þetta ákvæði í lögunum.

En eftir að þessari brtt. var skilað til prentunar, kom í ljós, að gera þurfti lagfæringu á 20. gr. frv., og vill því fjhn. leyfa sér að leggja fram skriflega brtt. við þá grein.

Í 20. gr., fyrstu efnismálsgr., segir, að form. bankaráðsins hafi f.h. ráðsins stöðugt eftirlit með starfsemi viðskiptabankans, en fallið hafði niður af vangá að taka þarna til viðbótar annan málslið, sem er í þeirri lagagrein, sem þarna á að breyta, um eftirlit bankaráðsmannanna, annarra en formannsins, og er því till. fjhn. um það, að við þetta bætist: Hinir bankaráðsmennirnir skulu skiptast á um eftirlit ásamt formanni. — Er þetta efnislega eins og ákvæðið er nú í lögunum, og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða um þessa skriflegu brtt., svo að hún megi einnig koma hér til afgreiðslu.

Eins og eðlilegt má heita, hafa orðið nokkrar umr. um bankamálin almennt í sambandi við þetta frv. í tilefni af þeim umræðum vil ég taka fram, að ég lít svo á, að það muni heppilegast, að Landsbanki Íslands verði áfram aðalbanki þjóðarinnar, eins og hann hefur verið síðustu áratugina. Fleira en eitt mætti nefna til stuðnings þessari skoðun, en hér skal það eitt talið, að Landsbankinn hefur unnið sér traust í viðskiptum, bæði innanlands og hjá erlendum fjármálastofnunum, og er mikils um það vert. Ekki er fullvíst, að nýr seðlabanki, ef stofnaður yrði, nyti jafnmikillar tiltrúar í fyrstu. En ég tel eðlilegt, að aðaldeildir bankans, seðlabankinn og viðskiptabankinn, lúti hvor um sig sérstakri stjórn, eins og. stefnt er að með þessu frv. Skal svo ekki fjölyrt um þetta, en þess óskað, að það fyrirkomulag á stjórn og rekstri þjóðbankans, sem hér er ætlunin að lögfesta, megi vel gefast.