12.02.1957
Sameinað þing: 29. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

Varamenn taka þingsæti

Forseti (KK):

Þá verður gengið til dagskrár og tekið fyrir það eina mál, sem er á dagskrá, rannsókn kjörbréfs. Í því sambandi er þess fyrst að geta, að mér hefur borizt bréf svo hljóðandi :

„Reykjavík, 12. febr. 1957. Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá Einari Olgeirssyni, 3. þm. Reykv.:

„Með því að ég fer á morgun utan til að sitja 5. þing Norðurlandaráðs og mun verða fjarverandi næstu 3–4 vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 3. málsgr. 144. gr. laga nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður, Eðvarð Sigurðsson, taki sæti á Alþingi í forföllum mínum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Halldór Ásgrímsson,

forseti neðri deildar.“

Til þess að spara tíma og komast hjá því, að það þyrfti að hafa fundarhlé, þá hefur kjörbréfanefnd verið beðin að athuga þetta kjörbréf, og vænti ég þess, að hún hafi lokið störfum, og vil ég þá hér með gefa frsm. hennar, hv. þm. Siglf., orðið.