09.04.1957
Efri deild: 85. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

143. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Í lögum nr. 23 frá 1953 er heimilað að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum, fólks- og sendibifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á stöð, sem hlutaðeigandi bæjarstjórn viðurkennir. Einnig er í sömu lögum heimilað að takmarka tölu vörubifreiða í Reykjavík. Þessum lögum er svo breytt 1955 með lögum nr. 25 1955. Þar er heimilað að takmarka fjölda leigubifreiða í öllum stærri kaupstöðum landsins, í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Siglufirði, Keflavík og Vestmannaeyjum. Og með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er farið fram á að víkka þessa takmörkunarheimild, færa hana niður til kauptúna með 700 íbúa eða fleiri.

Samgmn. þessarar hv. d. mælir með frv. óbreyttu. En verði frv. samþ. þannig, þá verður efni laganna í ósamræmi við fyrirsögn laganna upphaflega. Þess vegna þótti n. rétt að bæta við brtt. þess efnis að færa efnismál laganna saman og gefa lögin út sem heild, þegar þetta frv. yrði samþ. og það orðið að lögum. Það er dálítið óviðfelldið að hafa slík lög sem þessi í þrem lögum, og þetta er allt saman mjög fáar lagagreinar og kostar ekki mikla uppprentun. Samgmn. leggur til, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.