12.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Rannsókn kjörbréfa

Ólafur Thors:

Herra forseti. Af hendi okkar sjálfstæðismanna hefur verið gerð glögg grein fyrir, hvers vegna við teljum ekki rétt að samþykkja kjörbréf uppbótarþingmanna Alþfl., og ég tel, að það sé að bera í bakkafullan lækinn, að ég fari að reyna að bæta við þau rök eða endurtaka þau. Ég vísa þess vegna um aðalatriði málsins algerlega til þeirra og mun gera a. m. k. flest höfuðrökin að mínum rökum.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var nokkur ummæli í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl), en ræða hans er hvað niðurlagið snertir orðrétt prentuð í Þjóðviljanum í dag.

Áður en ég kem að meginefni þessa stutta málflutnings míns, þykir mér rétt að vekja athygli á því, að hv. þm., Einar Olgeirsson, margendurtók það, að Sjálfstfl. bæri einn ábyrgð á því, að úrskurður landskjörstjórnarinnar væri rangur, úrskurðurinn um það, hvort Hræðslubandalagið, bandalag Alþfl. og Framsfl., skyldi teljast einn flokkur eða tveir við úthlutun uppbótarþingsæta.

Ég leyfi mér nú aðeins að minna á það, svona til gamans, að í þeim meiri hluta, sem kvað upp sína úrskurði, voru tveir framsóknarmenn og aðeins einn sjálfstæðismaður, en hann man ekki eftir að kenna neinum um „ódæðið“ nema sjálfstæðismanninum. Er þetta ekki einhver mælikvarði á dóm þessa ágæta þm. um, hvað er rétt og hvað er rangt í málunum?

Hitt er svo aðalatriðið í þessu sambandi, að enda þótt tveir mætir og landskunnir heiðursmenn séu valdir í þessa landskjörstjórn af Sjálfstfl., þá eru þeir ekki þar sem handbendi Sjálfstfl. Þeir eru þar sem dómarar, sem kveða upp sinn dóm, eftir því sem þeir telja hann réttan. Ég harma það, að þessir ágætu menn eru mér ekki sammála nema að nokkru leyti, og ég harma það, að þeir gátu ekki orðið sammála. Það raskar ekki því áliti mínu, að þeir hafi sagt það, sem þeir töldu réttast, Ég neita aðeins, að þeir þurfi að hafa réttar fyrir sér í þessum efnum en ég og aðrir flokksbræður mínir hér á þingi og raunar utan þings einnig.

En það er dálítið athyglisvert, að í öllu helgislepjuhjalinu um öryggi lýðræðis og þingræðis í landinu skuli einmitt þessi maður, hv. 3. þm. Reykv., beinlínis ráðast á það, að landskjörstjórnarmenn séu ekki handbendi ákveðins flokks, að þeir skuli leyfa sér að hafa skoðun, og enn þá verra, að þeir skuli leyfa sér að fara eftir þeirri skoðun, Það virðist vera höfuðglæpurinn.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta og þessa málfærslu hv. þm., Einars Olgeirssonar, ég tel hana dæma sig alveg sjálfa og raunar fordæma sig sjálfa.

Aðalatriðið í málflutningi hv. þm., Einars Olgeirssonar, var þetta, sbr. Þjóðviljann í dag. Þar segir hann orðrétt:

„Alþýðubandalagið telur, að kosningabandalög flokka eða einstakra frambjóðenda og flokka í þeim tilgangi að afla fleiri þingmanna en rök standa til samkvæmt atkvæðatölu þeirra, brjóti í bága við anda stjórnarskrárinnar og kosningalaganna.“

Þetta er skoðun Alþb. Það telur, að slík framboð, slíkt atferli, það brjóti í bága við anda stjórnarskrárinnar og kosningalaganna, og áfram:

„Alþýðubandalagið telur, að kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. í kosningunum 1956 hafi verið þess eðlis, að rétt hefði verið að telja þá í kosningunum og við úthlutun uppbótarþingsæta sem einn þingflokk.“

Alþb. telur, að það hefði átt að telja þá sem einn þingflokk, vegna þess að allt annað brjóti í bága við anda stjórnarskrárinnar og kosningalaganna, og telur, að það beri að líta á þessa flokka við úthlutun uppbótarþingsæta sem einn flokk, svo að ég noti nú orð hv. þm. sjálfs. Ja, skýrar getur nú ekki verið að kveðið í þessum efnum. Hann má eiga það, hv. þm., að hann er alveg hreinskilinn, hvort sem hann hefur ætlað að vera það eða ekki. Og spurningin eftir þessa yfirlýsingu er nú aðeins sú, hvort Alþýðubandalagsmenn kjósa fremur að gera það, sem rétt hefði verið, eins og þeir kveða að orði, eða að löghelga með atkvæði sínu hér á hv. Alþ. brot á anda stjórnarskrárinnar og kosningalaganna. Það er þetta, sem að er spurt, Valið sýnist ekki erfitt. Það er að velja um rétt eða rangt. Hv. Alþýðubandalagsmenn hafa valið, og þeir tóku að þeirra eigin dómi rangt fram yfir rétt. Ég viðurkenni, að þeir eru dálítið lágkúrulegir, og ég geri ráð fyrir, að sennilega fyrirverði þeir sig. Þeir reyna að breiða yfir sig hjúp og að bregða fyrir sig skildi, og þeim er sannarlega vorkunn, þótt þeir reyni eitthvað. Þeir segja nú: Það er of seint að bæta úr óréttlætinu. Það er landskjörstjórnin, sem þessu ræður. Þingið getur ekki bætt úr yfirsjónunum, úr því sem komið er. — Þetta eru annaðhvort bein orð eða áreiðanlega rétt farið með orð og hugsun hv. þm., bæði eins og það kom fram í ræðu hans og einnig eins og það er prentað í Þjóðviljanum í dag.

En nú segi ég: Ef það er of seint að bæta úr þessu, hvers vegna er þá Alþingi að fjalla um málið? Hvaða skrípaleikur er þetta? Er það misskilningur hjá mér eða er það rétt hjá mér, að Alþ. hafi áskilið sjálfu sér rétt til dóms og úrskurðar í slíkum málum? Er það rétt, að Alþ. hafi áskilið sér þennan rétt í því skyni að geta hrundið úrskurði landskjörstjórnar, ef það álítur hann rangan, eða bætt úr yfirsjónum landskjörstjórnar, í hvaða formi sem þær eru? Er nokkur maður hér á Alþ, í vafa um, að Alþ. hefur áskilið sér þetta vald og fyrst og fremst í þessum tilgangi? Auðvitað veit hv. þm., Einar Olgeirsson, að þessu er svona háttað, og auðvitað skilst Alþýðubandalagsmönnunum, að þeir eru að reyna að villa þjóðinni sýn til þess að hylja það, að þeir hafa selt, svo að ég noti nú meira og minna þeirra orðalag, kosningalögin, stjórnarskrána, réttlætið, lýðræðið og þingræðið fyrir auð og völd, eins og þeir hafa komizt að orði sjálfir. Þeir hafa selt þessa smápinkla sína, kosningalögin, stjórnarskrána, lýðræðið, þingræðið og réttlætið fyrir það, sem þeir svo ætla að hafa hinum megin: auð og völd. Þeir keyptu þetta hnoss sitt, auðinn og völdin, þessu verði. Það er það, sem þeir hafa gert, aumingja mennirnir, bæti ég við.

En séu Alþýðubandalagsmennirnir og Einar Olgeirsson, hv. þm., búnir að gleyma því, að þeir hafa þekkt sannleikann í þessu máli, áður en þeir seldu sál sína fyrir völdin, þá skal ég með ánægju leiða þá á braut sannleikans með því að rifja upp þeirra eigin orð, og ég skal meira að segja taka þau beint úr Þjóðviljanum, svo að það sé nú ekki í kot vísað, og ég skal hafa ummælin bæði fyrir þann dag, sem landskjörstjórnin felldi sinn úrskurð, og ég skal líka minna á ummæli eftir þann dag, sem úrskurðurinn féll.

Fyrir úrskurðinn lýsir Þjóðviljinn því atferli að leggja blessun sína yfir, að þessir flokkar séu viðurkenndir sem tveir flokkar varðandi úthlutun uppbótarsæta, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þarf ekki að lýsa því, að hér er um að ræða algert brot á anda og tilgangi kosningalaganna. Uppbótarþingsætin áttu einmitt að tryggja sem mestan jöfnuð milli þingflokka, „þannig að hver þeirra fái þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við kosningarnar“, eins og segir í 124. gr. kosningalaganna. En hér er einnig um að ræða brot á bókstaf kosningalaganna. Í 29. gr. þeirra segir svo: „Stjórnmálaflokkur má eigi bera fram nema einn landslista við sömu alþingiskosningar.“ Og eins og áður er sagt, verður að líta á Hræðslubandalagið sem einn stjórnmálaflokk, kosningaflokk, út frá framboðum þess og vinnubrögðum öllum.“

Þetta stendur í Þjóðviljanum 25. maí. 27. maí, tveim dögum seinna, segja þeir: „Málflutningi fyrir landskjörstjórn lauk í gær.

.... Tóku fulltrúar Alþýðubandalagsins og Þjóðvarnar undir þá kröfu, að landskjörstjórn kvæði upp úrskurð um þetta atriði, og lýstu þeirri skoðun sinni, að Hræðslubandalaginu bæri tvímælalaust að bera fram einn landslista. .. Hræðslubandalagið ber það einkum fyrir sig í yfirlýsingum sínum, að Sjálfstæðisflokkurinn og Bændaflokkurinn hafi haft kosningasamvinnu sín á milli 1937. Þar er þó ekki um hliðstæðu að ræða. Flokkarnir unnu ekki saman í öllum kjördæmum, heldur buðu fram hvor gegn öðrum í sumum, og auk þess fengu báðir uppbótarþingsæti. Samvinnan var ekki við það miðuð að ræna fleiri uppbótarþingsætum en flokkunum bar, Enginn vefengir rétt Framsóknar- og Alþýðuflokksins til að vinna saman í kosningum, en hitt er að sjálfsögðu fráleitt, að þeir fái heimild til að bjóða fram tvo landslista í því skyni einu að ræna langtum fleiri þingsætum en þeir eiga rétt á.“

Þetta er svona meðal fárra blessunarorða, sem þetta merkisblað Alþb. hafði um þennan heiðarlega tilgang, sem nú á að fara að dæma um, hvort sé lögmætur eða ekki lögmætur. Það er dómurinn, áður en kjörstjórnin felldi sinn úrskurð.

Svo kveður landskjörstjórnin upp sinn úrskurð, og enda þótt meiri hluti hennar telji athæfi Hræðslubandalagsins ólögmætt, gat þessi meiri hluti ekki náð samstöðu og bjargaði með því tilgangi og fyrirætlunum Hræðslubandalagsins.

Sem kunnugt er, urðu sjálfstæðismennirnir í kjörstjórninni ekki sammála, og hinir frómu leiðtogar Alþb, voru svo sem ekki lengi að finna út, hvernig á því stóð. Þá kunnu þessir háu herrar góð skil á verknaðinum, sem þeir nú ætla að fara að fremja. Ég ætla að hafa yfir orð þeirra sjálfra, því að þau lýsa, hverjum augum þeir í raun og veru líta á það athæfi, sem þeir eru nú sjálfir að gera sig seka um.

Í Þjóðviljanum 29. maí, daginn eftir að landskjörstjórn hefur fellt sinn dóm, eru Alþýðubandalagsmenn byrjaðir að gera því skóna, að nú ætli Sjálfstfl. að fremja það afbrot, þann glæp, eins og þeir kalla það, að samþykkja þessi kjörbréf Alþfl.-mannanna, og þá segja þeir:

„Það er nú augljóst mál, að afstaða Sjálfstæðisflokksins til kosningabragða Hræðslubandalagsins einkennist af einstæðum fláttskap. ... Íhaldið vildi aðeins setja forsprakka Hræðslubandalagsins í gapastokkinn. ... Þá aðstöðu ætlar íhaldið sér að nota í samningum við framsóknarforsprakkana og hægri klíku Alþýðuflokksins. Ef þið tryggið okkur áframhaldandi völd og gróða, skulum við leggja blessun okkar yfir þingmannarán ykkar.“ Ef þið viljið leggja blessun ykkar yfir völdin og gróðann, ef þið viljið tryggja okkur þetta, þá skulum við leggja blessun okkar yfir þingmannaránið, vera með ykkur í að stela af kjósendunum öllu þessu helgasta og bezta, stjórnarskránni og þingræðinu og lýðræðinu og kosningalögunum og öllu — en við verðum að fá völd fyrir það. Og enn halda þeir áfram:

„Menn eru ýmsu vanir af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins, en þó verður vart öllu lengra komizt í tvöfeldni og óheiðarleika, í fullkomnu skeytingarleysi um réttan málstað. Hvað segir það fólk, sem kosið hefur Sjálfstæðisflokkinn í góðri trú, um jafnbotnlaus óheilindi?“ — Ja, hvað segja kjósendur? Það er von, að spurt sé.

Ég ætti nú eiginlega ekki að vera að tala mikið frá eigin brjósti, þetta er svo ágætt, sem hv. þm. og hans félagar hafa sagt sjálfir. Ég get litlu bætt við. Hér er kveðinn upp dómur, þungur dómur og réttur, áfellisdómur og dauðadómur yfir því athæfi að selja fyrir áframhaldandi völd eða fyrir ný völd sjálfan frumburðarréttinn og vera með í þingmannaráninu og gerast ræningjar í staðinn fyrir að vera þessir frómu, ágætu menn, sem þeir nú annars vilja vera!

Já, það „verður vart lengra komizt í tvöfeldni og óheiðarleika“, segja þessir ágætu Alþýðubandalagsmenn, heldur en að leggja blessun sína yfir þingmannaránið, og svo spyrja þeir loksins: „Hvað segir nú fólkið,“ sem kosið hefur slíka óþokka? Öllu gleggri sjálfslýsingu en Alþb.-mennirnir þarna hafa gefið af sjálfum sér er tæplega hægt að gefa, og nú spyr ég: „Hvað segir fólkið, sem kosið hefur þessa menn?“ Þjóðviljinn segir um þetta athæfi, svo að ég haldi mér nú að þeirri biblíu, þann 30. maí, — hann er að lýsa mönnunum, sem ætla að leggja blessun sína yfir þessi kjörbréf, og hann segir:

„En þessir ránsmenn og braskarar gleyma því, að til er einn dómstóll, sem er æðri en landskjörstjórn og Alþingi, kjósendur sjálfir.“

Ránsmennirnir gleymdu kjósendunum þessa stundina, og ég held, að hv. þm., sem var að tala hér í gær, hafi líka verið búinn að gleyma kjósendunum. Ég vildi óska af gömlum kunningsskap, að hann rankaði við sér og raknaði úr rotinu og að hann myndi eftir kjósendunum, og ef hann á réttlæti til, þá eyddi hann því, sem eftir er í honum, í það að sameinast Sjálfstfl. um að hrekja þá árás á lýðræði og þingræði og stjórnarskrá og kosningalög, sem hér er gerð.

Ég vil svo leyfa mér að minna á enn ein ummæli Þjóðviljans um þetta mál þann 29. maí. Það er úr miklu að moða í þessu ágæta blaði, enda sjaldan komið fyrir — að þess viti — annað eins glæpamál og ef það ætti að samþykkja þessi bréf, og ég vorkenni þeim, þótt þeir vilji hafa um þetta harða dóma, jafnharðir og þeir eru í dómi um margt, sem í sjálfu sér eru lítil afbrot. Þjóðviljinn segir 29. maí:

„Málið sjálft er þó mjög einfalt í eðli sínu. Það var um það spurt, hvort æðra skyldi tilgangur og andi stjórnarskrárinnar og kosningalaganna eða lagakrókar og refjar. Það tiltæki Hræðslubandalagsins að skila tveimur landslistum, enda þótt um sé að ræða sameiginleg framboð í öllum kjördæmum landsins, hafði þann eina tilgang að ræna miklu fleiri þingsætum en atkvæði heimila. ... Það tiltæki er í eðli sínu ekkert annað en kosningasvik og er í fyllstu andstöðu við ákvæði stjórnarskrár og kosningalaga. Þess háttar svik er lengi hægt að verja með lagakrókum og orðhengilshætti, en það breytir engu um sjálfan kjarna málsins.“ — Og má ég minna hv. 3. þm. Reykv. á þetta: „Þess háttar svik er lengi hægt að verja með lagakrókum og orðhengilshætti, en það breytir engu um sjálfan kjarna málsins“? Og má ég ráðleggja honum að tala ekki oftar í málinu, ekkert orð, því að hann getur verið með lagakróka og orðhengilshátt, en það breytir engu um sjálfan kjarna málsins?

Ég vil nú leyfa mér að spyrja að gefnu tilefni frá hv. þm.: Er það líklegt eða er það aðeins hugsanlegt, að Alþ. geti löghelgað slík svik, slíkt þingmannarán — ég er alltaf með orðalag hans sjálfs — eingöngu í skjóli þess, að landskjörstjórnin varð ekki sammála um rök fyrir fordæmingu þessara svika? Það er það, sem hv. þm, ætlar að reyna að skjóta sér undir. Mig langar að láta Þjóðviljann einnig svipta þessari dulu af honum, ef það mætti verða til að koma fyrir hann vitinu.

Í grein, sem hann sennilega hefur skrifað sjálfur, stendur þann 29. maí: „Þrír landskjörstjórnarmenn af fimm heimiluðu þingmannaránið, en úrskurður Alþingis er eftir.“ Þarna er úrskurður fallinn. Þegar Þjóðviljinn segir þetta og líklega þessi hv. þm. sjálfur, leiðtogi flokksins, þá er úrskurður landskjörstjórnar fallinn. Þá liggur sú staðreynd fyrir, að landskjörstjórn er búin að kveða upp þann úrskurð, sem þessi hv. þm. ætlaði í gær að skjóta sér undir og fela undir allan fláttskapinn, ekki minni en hann er nú. Það þarf nokkuð stóra voð yfir það allt. Undir því átti að fela fláttskapinn. Hér stendur: „Guði sé lof, að til er hæstiréttur! Að vísu er landskjörstjórnin búin að tala, en þingið á eftir að tala.“

Mér sýnist, að hér sé ekki farið í neinar grafgötur um, hvað fyrir liggur. Það er ráðizt hastarlega að kjörstjórninni fyrir, að hún gaf úrskurð. Hún er heiftarlega minnt á í leiðinni: Það er til hæstiréttur, það er til aðili, sem er yfir henni. Hún er minnt á það, að hennar orð eru ekki síðustu orðin, Hún er minnt á það, að ef rétt fái að vera rétt, á Alþingi Íslendinga lokaorðið, þá hafi hennar rangi úrskurður enga þýðingu. Það hvílir að vísu í hugum Alþýðubandalagsins þessi skuggi yfir heiðríkju réttlætisins, að Sjálfstfl. ætli að selja sig fyrir auð og völd, Þess vegna eru þeir ekki alveg eins vissir um, að kjörstjórnin fái þá hirtingu, sem þeir telja hana eiga skilið. En það er ekki eini skugginn, sem þarna hvílir.

Hér hefur Alþýðubandalagið kveðið upp sinn úrskurð, og það er ekki hægt að éta hann ofan í sig. Ja, hvað er hægt, veit ég ekki, en það hlýtur að standa í einhverjum, Þeir hafa lýst því yfir, að ef Sjálfstfl. sé ekki sekur um það glæpaatferli, sem þeir eru að gera honum getsakir um, þá skuli yfirkjörstjórnin fá að vita, að það sé annar aðili, sem ráði yfir henni. Þessu hafa þeir lýst yfir.

Það hefur legið frá öndverðu skýrt fyrir, að Sjálfstfl. telur ekki hægt að viðurkenna þessi kjörbréf. Hann hefur alltaf verið á þeirri skoðun og þar af leiðandi sammála hv. Alþb.-mönnum um þetta, þar til Alþb.-mennirnir seldu sig fyrir þetta, sem þeir segja, auð og völd.

Nú hefur sá sorglegi viðburður gerzt, að Alþb.-mennirnir hafa lýst yfir, að það hafi skipt um skoðun. Þegar þeir álitu, að aðrir mundu gerast sekir um slíkt athæfi, þá var það sala að þeirra viti. Þá var verið að selja réttlætið fyrir auðinn og völdin. Ég læt þá sjálfa velja sjálfum sér lýsinguna, og þar þarf engu við að bæta.

En það verð ég að segja, að þetta er mesta kokvídd, sem ég man eftir á Alþ, Slík kok með svona vídd hljóta að vera margæfð, æfð í því t. d., að einn maður sé heilagur guð í dag og morðingi og fantur á morgun. Þessi kok hljóta að hafa rennt niður mörgu sælgæti frá Moskvu og víðar. Þessi kokvídd er ekki einleikin.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, Mig langar aðeins að minna á að lokum, að hv. þm. lét mjög í það skína, að þessi verknaður, sem hann annars hefur dæmt svona þungum dómi, gæti átt vissa afsökun í þeirri staðreynd, að Hræðslubandalagið hafi ekki náð meiri hluta. En ég segi: Ef þetta er lagalega órétt, hvernig getur það löghelgazt af þeirri staðreynd, að í staðinn fyrir að fá 27 þm. fengu þeir bara 25 þm. og urðu þess vegna að leita til Alþb.? Mig langar að heyra, á hvaða rökum það er reist, að verknaður, sem er þingmannarán, brot á anda og bókstaf stjskr., brot á kosningal., þingræði og lýðræði, — hvernig verknaður, sem er þannig í eðli sínu, getur alveg breytt um eðli við það, að það þarf að leita til Alþb. um stuðning við stjórnarmyndun. Nei, ber þarna ekki allt að sama brunni, að lög og réttur fer eftir því, hverju þessi hv. þm. og flokkur hans þarf á að halda hverju sinni?

Mér sýnist, að þessi afstaða flokksins til málsins sé þannig, að þeir þurfi að vera þess minnugir, sem þeir voru að brýna fyrir okkur sjálfstæðismönnum, þegar þeir voru að gera okkur upp getsakirnar, að fólkið á eftir að dæma, og yfir kjörstjórninni og yfir Alþ. er þjóðin. Og þann dóm verða þeir að þola, sem slíkt atferli hafa í frammi, ekki aðeins Hræðslubandalagið, sem hefur brotið lög og rétt að minni hyggju, heldur einnig og ekki sízt þeir, sem hafa svo sterka sannfæringu fyrir, að þetta séu lögbrot, eins og Alþb. hafði, en breyta gersamlega um þá sannfæringu og tjalda allt öðru og gagnstæðu, þegar þeir eru komnir í stjórn landsins og hafa náð sætum í ráðherrastólunum með því að selja þennan helga rétt þjóðarinnar.