04.12.1956
Neðri deild: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

69. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Við þm. Skagf. flytjum hér lítið frv. á þskj. 94, og það frv. er um breytingu á sjúkrahúsalögunum, sem eru frá 31. des. 1953.

Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessu frv., eru ákvæði í þeim sjúkrahúsalögum, að kaupstaðir eða bæjarfélög, sem svo eru nefnd, hvort sem eru stærri eða minni, skuli greiða meiri hluta af stofnkostnaði sjúkraskýla eða sjúkrahúsa, spítala, heldur en sveitir eða héruð gera eða hreppsfélög. En nú liggur það í augum uppi, að þetta ákvæði er ekki að ölu leyti réttlátt, og eins og fram er tekið í grg., eru ýmis sveitarfélög töluvert miklu fólksfleiri en fámennustu kaupstaðirnir. En þessi munur mun þó sérstaklega vera settur í hin áður umgetnu lög með tilliti til þess, að þar sem fjölmenni er mikið, þar sé eðlilegast, að þyngri 'baggi sé lagður á þau svæði eða þær heildir heldur en þar sem fámennið er mikið. Þess vegna er það, að okkar breyting felur það í sér, að takmarkið um meira eða minna framlag til sjúkrahúsa sé miðað við 1500 íbúa, þ.e.a.s., að öllum bæjarfélögum eða kaupstöðum, sem hafa færri en 1500 íbúa, beri ekki að leggja meira fram en sveitarfélögum eða héruðum. Væri þessi breyting gerð, mundi meira samræmi vera í þessu, því að ég veit ekki, hvort það eru nokkur sveitarfélög, sem hafa fleiri íbúa en 1500, og mundi þá áreiðanlega vera meira samræmi í þessu.

Ég skal ekkert leyna því, að við berum þetta, þm. Skagf., m.a. fram af því, að nú er búið að hefja byggingu á sjúkrahúsi á Sauðárkróki, sem er einn með minnstu kaupstöðunum eða bæjarfélögunum, ef á að hafa það orð um það, og liggur mjög i augum uppi, að fyrir svo fámennan kaupstað eins og Sauðárkrókur er verða miklir erfiðleikar að standa undir þeim hluta af því, sem í lögum er ákveðið að kaupstaðir skuli leggja fram. En að öðru leyti finnst okkur þetta líka almennt réttlátt og sé því sjálfsagt, að það gangi yfir alla. Og það eru þó nokkrir kaupstaðir hér á landi, sem hafa undir 1500 íbúa, fleiri en Sauðárkrókur, og mundu þá að sjálfsögðu njóta góðs af þessari breytingu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég vænti þess, að hv. Nd. taki þessu vel og að þetta verði athugað með sannsýni, og ég vænti þess, að það geti orðið samkomulag um að gera þessa breytingu á nefndum lögum.

Ég vil svo leyfa mér — að lokinni þessari umr. — að leggja til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn., sem það heyrir undir samkv. eðli málefna.