05.03.1957
Neðri deild: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

69. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Mitt erindi er nú fyrst og fremst að þakka hv. þd. fyrir það, hvernig hún hefur tekið á þessu máli, sem ég sem frsm. heilbr: og félmn. gat ekki flutt hér við 2. umr. málsins, og var það að vísu ekki af mér sjálfráðum ástæðum, því að ég var þá ekki það heilbrigður, að ég treysti mér til þess að mæta. En hv. þd. hefur samþykkt frv. við 2. umr. og orðið á þann hátt við ósk hv. heilbr.- og félmn., en allir þeir, sem mættu á fundi í n., eftir að þetta mál hafði lengi legið þar fyrir, 4 nm. af fimm, voru sammála um að mæla með, að frv. yrði samþykkt.

Þetta ber mér fyrir hönd okkar flm. frv. fyrst og fremst að þakka, og ég efast ekkert um, hvernig úrslitin verða við lokaatkvgr. hér í þessari hv. deild um frv., eins og það liggur fyrir. Efni þess er svo einfalt, að það þarf ekki að ræða það, enda hefur nú hæstv. heilbr.- og félmrh. talað um frv. hér og lesið langa grg. frá landlækni, sem ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. sérstaklega fyrir: Bæði er álitið vel skrifað, og ráðherrann las það líka mjög skilmerkilega og vel upp, og ég sá, að hv. dm. höfðu mikla ánægju af því.

En það er alveg eins og hæstv. ráðh. tók fram, að þetta var í raun og veru ekkert um það mál, sem hér liggur fyrir. Þetta er um sjúkrahúsmálið almennt og hvernig með það hefur verið farið. M.a. má taka okkar ágæta systurhérað, Húnavatnssýslu, til samanburðar, þegar lögunum var breytt þannig, að þeir gætu fengið meiri styrk til þess stórmyndarlega sjúkraskýlis, sem nú hefur verið reist þar. Ég hef ekkí trú á, að nokkrum þeim þm., — ég hygg, að ég hafi verið einn af þeim, sem samþykktu það á sínum tíma, — hafi þá dottið í hug annað en að það sama hlyti að gilda fyrir hérað eins og Skagafjörð, því að hver er munurinn, má ég spyrja? Er það aðeins það, að Sauðárkrókur skríður aðeins yfir 1000 íbúa, en í Húnavatnssýslu eru tvö kauptún, sem samanlögð munu hafa nokkurn veginn nákvæmlega sama íbúafjölda og eiga vitanlega að búa að þessu sjúkraskýli og spítala, sem þar hefur verið reistur? Það er ekki til neins að mínum dómi að ætla sér að mæla þetta í einhverjum tölum eingöngu.

Ég get að vissu leyti fallizt á ýmislegt af því, sem kom fram í áliti landlæknis um, að það væri nokkuð handahófskennt, hvernig ástatt væri í þessum málefnum hjá okkur, og ég get meira að segja fallizt á, að það hefði getað verið ástæða til að athuga þessi mál gaumgæfilega í heild sinni.

Ég var eitthvað 31/2 árs tíma heilbrmrh. Ég gerði ekkert í þessu, svo að ég get nú ekki farið að áfellast núv. heilbrmrh., þó að hann hafi ekki hafizt handa heldur í þessum málum, en þetta eru allt mikil vandamál, það er okkur ljóst. Hitt held ég að ekki þurfi að segja neinum hv. alþm., hve mikil nauðsyn það er, að spítali eða sjúkraskýli eða hvað við nefnum það verði reist í Skagafirði. Hv. fjvn. — og með henni hygg ég að hæstv. heilbr.- og félmrh. hafi farið norður til Sauðárkróks nú í vetur — mun hafa séð það sjúkraskýli, sem þar er nú, og ég hygg jafnvel, að hæstv. ráðh. hafi þar lýst því yfir, að það væri hin brýnasta nauðsyn að bæta úr því ófremdarástandi, sem þar væri, og það sem allra fyrst.

Nú er það víst, að það er allt of mikið ofurefli fyrir Skagafjörð. Ég þakka að vísu ummæli í nál. landlæknis um þetta blómlega og ágæta hérað. Ekki skal ég úr því draga. En fólksfjöldinn er ekki ógurlegur, og hann mun ekki vera meiri þar en vestan fjallskarðsins í næsta héraði, sem ég hef nefnt áður, en ég er heldur ekki að telja neitt eftir. En það er ekki hægt fyrir Alþingi að ætla sér að sýna slíka hlutdrægni í þessum málum, t.d. að neita Skagfirðingum um hlutfallslega sama styrk og Alþingi áður hefur veitt héraði eins og Húnavatnssýslu, því að þótt lítils háttar munur sé á íbúatölu í einu eða tveimur þorpum, þá breytir það í sjálfu sér engu í þessu sambandi. Og um vangaveltur landlæknis um, hvernig þessu skuli fyrir komið, er eins og ég gat um áður, það kann vel að vera, að það þurfi að gerbreyta þessu öllu. En það er ekki hægt að stöðva það, að reist sé sjúkrahús, þegar ekkert sjúkrahús er til, og húsið á Sauðárkróki er ekkert hús. Þið sáuð þessar fjalakompur, sem hafið komið inn í þetta í haust, og þið vitið, að það er ekki nokkur leið að taka þar á móti sjúklingum lengur. Það er komið þar nákvæmlega hið sama ástand og var á Blönduósi með sjúkrahúsið þar, áður en þetta var reist, nema kannske þá enn þá verra, og það er þetta, sem er aðalatriðið í málinu.

Ef á að taka þessi mál föstum tökum, verður það ekki gert með því að ætla að vera neitt að níðast á Skagfirðingum eða Sauðárkróki gagnvart þessu sjúkrahúsi, sem hér er um að ræða. Það verður að taka allt málið til meðferðar um landið allt. En Skagfirðingar eru ráðnir í því og Sauðárkrókskaupstaður að reyna að reisa þetta hús eins fljótt og unnt er. Því er, held ég, tiltölulega þröngur stakkur skorinn. Það er minna hús en sjúkrahúsið á Blönduósi og verður áreiðanlega ekki farið í allt of stórar framkvæmdir þar, síður en svo. En þetta er svo nauðsynleg framkvæmd fyrir Sauðárkrókskaupstað og fyrir héraðið allt, að það getur ekki komið til nokkurra mála, að hægt sé að draga það til lengdar. Þótt nú einhver nefnd yrði skipuð, eins og mér skildist að landlæknir raunverulega legði til í sínu erindi, mundi hún sennilega starfa ein tvö ár eða hver veit hve lengi. Þetta er stórt og vandasamt mál, og við vitum, að það tekur oft töluverðan tíma, áður en búið er að melta það á þann hátt, a.m.k. að koma svo till. gegnum Alþingi á einhverjum ákveðnum grundvelli, og ættu þá Skagfirðingar að bíða mörg ár enn í sínum ómerkilega og ómögulega fjalakofa, sem nú er talinn sjúkraskýli á Sauðárkróki, án þess að geta hafizt handa af fullum krafti. Þetta mál hefur verið undirbúið heima í héraði mjög rækilega og verið athugað um fjárhagslega möguleika til þess að reisa húsíð, og Sauðárkróksbúar og Skagfirðingar yfirleitt eru reiðubúnir til að leggja mikið á sig í þessu máli. En það er víst, að ef ekki fæst það hækkaða framlag, sem hér er farið fram á úr ríkissjóði, tefur það þessa framkvæmd stórmikið og verður auk þess ofurefli fyrir héraðið að koma því upp, a.m.k. það tekur miklu lengri tíma, — það er ábyggilegt — og þetta er frá sjónarmiði okkar flm. aðalatriði málsins.

Ég get vel skilið, að hæstv. heilbr.- og félmrh. svona að hálfu leyti mæli gegn frv. Þó mælti hann nú eiginlega ekki gegn frv., en hann tók undir ummæli landlæknis um, að þörf væri á endurskoðun allra þessara mála, og um það get ég vissulega verið honum sammála að miklu leyti. Honum ber að sjálfsögðu sem góðum búmanni fyrir sitt ráðuneyti að vera ekki of útausandi á fé ríkisins; það get ég líka mjög vel skilíð. En ég held, að málið sé þannig til komið og þetta sé það réttlætismál, eins og hv. þd. hefur sýnt með afgreiðslu sinni á málinu, fyrst og fremst hv. heilbr.- og félmn. og siðar hv. þd. við 2. umr. málsins, að það sé ekki til neins að ætla sér að stöðva þetta mál nú. Það er ekki hægt, og hér er ekki að mínum dómi farið fram á neitt nýtt. Það er aðeins verið að feta í sömu spor og Alþingi áður hefur stigið með breytingum á þessari löggjöf og einmitt til þess sama og hér er farið fram á, þ.e. að flýta fyrir, að unnt sé að koma upp nauðsynlegum stofnunum útí um byggðir landsins, þar sem ástandið er þannig, að það er óhugsandi annað en slíkar stofnanir verði settar upp.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri og ætla alls ekki, enda ástæðulaust að fara í neinar deilur um þetta mál. Ræða hæstv. heilbrmrh. gaf í raun og veru alls ekki tilefni til þess heldur. En sem sagt, ég vil að lokum aftur fyrir hönd okkar flm. flytja hv. Nd. þakkir fyrir það, hve vel hún hefur tekið frv. og að það fer þá í því formi, sem það nú hefur, að mér virðist, til hv. Ed., sem við líka vonum að sýni sama skilning og sömu vinsemd við afgreiðslu frv.