11.02.1957
Sameinað þing: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2355)

108. mál, kjörbréf varaþingmanns

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það hefur stundum að undanförnu þótt nokkuð á það skorta, að það væru mikil verkefni, sem lægju fyrir Alþingi, enda oft og tíðum svo, að það hefur verið mjög erfitt um að halda fundi og fundir oft ekki verið nema 5–10 mín. á dag. En nú hefur hæstv. ríkisstj. fundið nokkurt ráð til þess að bæta úr þessu aðgerðaleysi, þó að það ráð sé næsta kyndugt og óvenjulegt, og það er að efna með margvíslegu móti til umræðna um efnislega sama mál. Það er fyrst borið fram sem venjuleg beiðni um úrskurð á þingsæti til handa einum föllnum frambjóðanda hér í Reykjavík. Næst er svo borin fram till. til þál. um þetta sama mál. Og svo loksins er borið fram frv. til laga um þetta sama mál einnig, til þess að það geti þó þar orðið vinna fyrir báðar d. þingsins við þrjár umr. í hvorri deild að ræða þetta mál næstu daga.

till., sem hér liggur fyrir á þskj. 229 frá hæstv. forsrh., finnst mér vera rangnefnd, því að hún ætti miklu fremur að heita till. til þál. um að fyrirskipa yfirkjörstjórninni í Reykjavík að brjóta stjórnarskrána. Það væri miklu nær lagi og lýsti efnislega till. og því, sem hún hlýtur að leiða af sér, ef yfirkjörstjórnin í Reykjavík ætlar að fara eftir henni. Þar er yfirkjörstjórninni skipað að framkvæma verknað, sem hún hefur talið ólögmætan og meiri hl. Alþingis hefur einnig talið ólögmætan. Nú á að hafa þá aðferðina að fyrirskipa yfirkjörstjórninni að framkvæma þetta verk, og væntanlega á þá þessi þál. að skiljast sem fyrir fram loforð þeirra manna, sem að henni standa, til þess að Alþ. leggi svo blessun sína yfir kjörbréfaútgáfu yfirkjörstjórnarinnar, eftir að hún hefur farið fram.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur efnislega rætt þetta mál, og með skýrum rökum sannað, að hér er um tvímælalaust stjórnarskrárbrot að ræða, sem ekki verður komizt fram hjá með neinum vafningum eða þó að það sé klætt í fallegan búning, eins og einn af varamönnum í yfirkjörstjórninni í Reykjavík, einn af lögfræðingum Alþýðubandalagsins, hefur ]ýst að væntanlega muni verða gert til þess að gera þetta allt fallegra í augum almennings. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta, í grein, sem hann ritar í Þjóðviljann nú s.1. laugardag:

„Þessi tilgangur hinna fyrirhuguðu laga“ — hann gerði þá ráð fyrir, að það yrðu lög, eins og boðað hafði verið í kjörbréfanefnd hér í Alþingi — „verður að sjálfsögðu sveipaður í moldviðri einhvers sýndarréttlætis og sanngirni. En engar umbúðir geta dulið tilganginn, og engin látalæti eða þvættingur geta hulið þá augljósu staðreynd, að slík löggjöf væri brot á stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins“.

Þetta getur verið til nokkurrar athugunar fyrir hv. þingmenn Alþýðubandalagsins, sem ráða úrslitum hér á Alþ. um afdrif þessa máls. Að vísu er sá rökstuðningur færður fram fyrir þáltill., eins og hún liggur hér fyrir, að afgreiðslan á Alþ., þegar um þetta mál voru greidd atkv. fyrir helgina, hafi leitt í ljós, að í rauninni sé meiri hluti fyrir því, að Eggert Þorsteinsson fái að taka sæti á Alþ„ ef það sé borið fram með öðru móti, þannig að Alþ. sé ekki sjálft látið kveða á um það, að hann skuli fá kjörbréf, heldur að það sé undirbúið á þann hátt, að yfirkjörstjórnin sé látin gera það og síðan Alþ. látið greiða um það atkv.

Þetta eru sennilega umbúðirnar, sem varakjörstjórnarmaður Alþýðubandalagsins lýsir svo vel í þeim ummælum, sem ég las hér upp áðan. En af því að mér skilst, að á því velti endanleg afgreiðsla þessa máls hér í þingi, hvernig þingmenn Alþýðubandalagsins snúist við því, — þingmenn Framsóknar- og Alþýðuflokksins eru fyrir fram reiðubúnir til þess að samþykkja hvað sem er í þessu máli, — það velti á þeim rökstuðningi fyrir till. forsrh., að með henni sé gerð sú breyting á meðferð málsins, sem þingmenn Alþýðubandalagsins munu geta fellt sig við, þá get ég ekki stillt mig um annað en minnast á ræðu, sem hér var flutt, þegar málið var til meðferðar nú fyrir helgina, af form. þingflokks Alþýðubandalagsins, hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, þar sem hann ræddi þetta mál í allýtarlegri ræðu og gerði grein fyrir sinni skoðun og við skulum vona skoðun síns flokks í málinu, meðan ekki kemur það fram, að hann vilji ekki lúta hans leiðsögn. Kjarni hans máls var sá, að hann taldi að vísu ekki óeðlilegt, að Alþfl. fengi varamann hér, úr því að svona stæði á, en alger forsenda fyrir þessu væri, að um það yrðu sett lög, ekki þál. Þingsályktun hefur ekkert lagagildi og getur ekki breytt neinum lögum a.m.k., og hann ítrekaði það margoft í sinni ræðu. Hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Úr þessu, þegar slíkur ágreiningur getur verið um tilgang stjórnarskrár og um kosningalög, álit ég einvörðungu hægt að skera með einu móti, og það er með lagasetningu Alþingis, svo fremi sem slík lagasetning brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.“ — Það er þó sá fyrirvari á.

Og hann bætir við:

„Ég álít það alveg gersamlega óhugsandi að ætla t.d. að útkljá eitthvað þess háttar með einhverri yfirlýsingu á Alþingi.“ Nákvæmlega því, sem ætlunin er hér að gera, því að þál. hefur ekkert gildi annað en vera yfirlýsing Alþingis.

Hann segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, beinlínis um það, sem tilgangurinn er að gera með þessari þáltill.:

„Það hefur aldrei komið fyrir, að Alþingi hafi svo að segja ákveðið að gefa út kjörbréf eða taka mann inn á Alþingi, án þess að hann hafi kjörbréf. Ég álít, að Alþ. geti ekki gert slíkt, megi ekki gera slíkt og geti alls ekki fyrirskipað neinni kjörstjórn, yfirkjörstjórn né landskjörstjórn, hvað hún skuli gera í slíkum efnum. Slíkt væri að mínu áliti alger valdbeiting af hálfu Alþingis.“

Þetta er nú dómur formanns Alþýðubandalagsins um þann verknað, sem hér á að framkvæma og hæstv. forsrh. segir í grg. sinnar till. að ljóst sé að hafi meirihlutastuðning á Alþingi. Vafalaust hlýtur það að byggjast á breyttri afstöðu þingmanna Alþb., einhverra eða allra. Hv. form. þingflokksins er nú ekki mættur hér á þingi, af hvaða ástæðu sem það er. Ekki getur sá meiri hluti byggzt á þeim skoðunum, sem fram komu frá hálfu Sjálfstfl. í umræðum um málið áður. Það verður því næsta fróðlegt fyrir Alþ. og ekki þá síður fróðlegt fyrir þjóðina að heyra endalok þeirrar atkvgr., sem fer fram um þetta mál, með hliðsjón af þeim ummælum, sem hér hafa verið viðhöfð.

Ég vil ekki fyrir fram ætla þingmönnum Alþb. eitt né neitt varðandi þeirra afstöðu eða ætla, að þeir hverfi frá hinni skeleggu lýsingu formannsins á því stjórnarskrárbroti, sem hér sé verið að fremja, og þeim óhæfilegu vinnubrögðum að ætla að fara að skipa yfirkjörstjórn að gera það, sem sé alger misbeiting á valdi Alþingis. Við sjáum, hvað setur, þegar að atkvgr. kemur.

Ástæðan til þess, að þetta mál er komið hér fyrir þingið, er auðvitað sú, sem alltaf mátti búast við, að þær tilfæringar og sá leikur, sem tekinn var upp af Framsfl. og Alþfl. í síðustu kosningum, hlyti að draga dilk á eftir sér og hefna sín á einhvern hátt og leiða til enn meira öngþveitis en þá þegar varð.

Hæstv. forsrh. var að ræða hér um í ræðu sinni áðan, að það hefði þótt sjálfsagt, þegar lögunum um kosningar til sveitarstjórna var breytt, að heimíla flokki það, þar sem tveir flokkar hefðu staðið saman að lista, að varamaður úr sama flokki kæmi inn, ef aðalmaður forfallaðist. Ég veit ekki, hvort hann hefur átt við með þessu, að það ætti að vera einhver rökstuðningur í því máli, sem hér liggur fyrir, því að mér vitanlega hefur því verið haldið fram alveg ákveðið og var haldið fram í haust, þegar þessi sami hæstv. forsrh. og aðrir stuðningsmenn stjórnarinnar voru að afsaka kosningabandalag sitt frá í vor, að hér hefði ekki verið um að ræða það brot á kosningalögum, að það væru blandaðir listar, þannig að það hlýtur að verða að ganga útfrá því, — eða ég vil a.m.k. leyfa mér að spyrja, hvort eitthvað hafi breytzt síðar, sem gæfi ástæðu til að taka þetta mál upp aftur hér, — að Rannveig Þorsteinsdóttir hafi verið varaþingmaður Alþfl. hér í Reykjavík, þar sem hún var á hans lista. Getur því að sjálfsögðu ekki verið nein rök í þessu máli sú breyting á sveitarstjórnarlögunum, sem hæstv. ráðh. vék að.

Það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi leyfa mér efnislega að minnast á hér í þessu máli og að vísu hefur nokkuð verið vikið að, en þó ekki til hlítar, en það er í sambandi við þá kenningu, sem fram kom hér við umræðurnar fyrir helgina, að það hefði orðið breyting á flokkavaldinu eða á viðhorfi Alþ. til áhrifa flokka á kosningar 1934. Í framhaldi af því var af hæstv. forsrh. nokkuð rætt um breytingu þá, sem gerð var á kosningalögum til sveitarstjórna 1942.

Nú hefur þetta út af fyrir sig ekki afgerandi þýðingu, vegna þess að stjórnarskrárákvæðinu hefur ekki verið breytt. Hafi það verið ætlun Alþ. að auka áhrifavald flokkanna varðandi val varamanna, bar að sjálfsögðu að breyta þessu ákvæði. En einmitt síðari meðferð málsins sýnir ótvírætt, að það hefur verið gengið út frá því, að þessi regla ætti svo áfram að gilda, og henni hefur ekki verið breytt í stjórnarskránni, þótt síðar hafi farið fram stjórnarskrárbreytingar. Þetta staðfestir einmitt sú meðferð og breyting, sem gerð var á kosningalögum til sveitarstjórna 1942. Áður en sú breyting var gerð, hafði þetta ákvæði sveitarstjórnarlaganna, sem sett voru 1936, hljóðað þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Um það, ef ekki bjóða sig fleiri fram við bæjarstjórnar- eða hlutbundnar hreppsnefndarkosningar en kjósa á bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmenn, um talning atkvæða, um mat á gildum og ógildum atkvæðum og um úrslit kosninga, hverja skuli úrskurða kosna sem bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmenn og hverja varamenn, í hverri röð og hverjar atkvæðatölur þeirra séu hvers um sig, fer samkv. gildandi ákvæðum um kosningar til Alþ., þegar um hlutbundnar kosningar er að ræða.“

Þetta var það ákvæði, sem áður gilti um það, að varðandi það, hverjir ættu að vera varamenn og hvernig þeir skyldu valdir, skyldi fara eftir lögum um kosningar til Alþingis. En hvernig stóð þá á því, að það var talið nauðsynlegt að breyta sveitarstjórnarlögunum á Alþ., ef skilja mátti ákvæði kosningalaga til Alþingis; sem byggðust á ákvæðum stjórnarskrárinnar, á þann hátt, að heimilt væri að taka síðari varamenn inn fyrir aðalmenn, ef fyrri varamenn eða hinir kjörnu varamenn forfölluðust? Jú, rökstuðningurinn fyrir því kom greinilega fram í grg. þeirri, sem fylgdi stjórnarfrumvarpinu um þessa breytingu á sveitarstjórnarlögum. En í þeirri grg. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeirri reglu hefur verið fylgt, að framboðslisti, sem hlotið hefur bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmenn, skuli hafa rétt til jafnmargra varamanna. Þegar framboðslisti hefur aðeins fengið kosna einn eða tvo aðalmenn, þá kemur það fyrir, að varamenn eru ekki fyrir hendi til þess að taka sæti í bæjarstjórn eða hreppsnefnd í stað forfallaðs aðalmanns, og getur þá svo farið, að bæjarstjórn eða hreppsnefnd verði óstarfhæf.“

Þarna er afdráttarlaust lýst yfir þeirri skoðun þáverandi hæstv. ríkisstj., og vafalaust hefur þetta frv. verið borið fram með leyfi og samþykki þáverandi hæstv. forsrh„ að samkv. þeim reglum, sem fylgt hafi verið, þ.e.a.s. samkv. ákvæðum laga um kosningar til Alþingis, sem byggjast á ákvæðum stjórnarskrárinnar og hljóta að verða að vera í samræmi við þau ákvæði, hafi alls ekki verið heimilt að viðhafa þá reglu að taka inn síðari menn og telja þá rétt kjörna varamenn. Og það er einmitt þess vegna, af því að það þótti ástæða til þess að heimila þetta, að þessi breyting var gerð á lögunum um kosningar til sveitarstjórna. En sú breyting haggar vitanlega á engan hátt því, hvaða regla gildi um kosningar til Alþingis, vegna þess að hvorki var þeim ákvæðum kosningalaga til Alþingis breytt, sem um þetta fjalla, né heldur var stjórnarskrárákvæðinu breytt, þegar síðari stjórnarskrárbreytingar voru gerðar. Og stjórnarskrárbreyting var einmitt til meðferðar um svipað leyti, þannig að það er næsta undarlegt, þegar þetta mál lá fyrir Alþ. og talið var eðlilegt og sanngjarnt, að þessi breyting væri gerð varðandi sveitarstjórnirnar, að það skyldi ekki vera gengið þannig frá, að það skyldi einnig verða heimilað með alþingismenn.

Ég skal fyllilega játa, að það er margvísleg sanngirni, sem mælir með því, að þessi tilhögun gæti verið viðhöfð, sem hér er lagt til að verði. En það eru, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, mörg önnur tilfelli, þar sem nákvæmlega sama sanngirnissjónarmið kemur til greina, en gersamlega útilokað er talið af öllum að framkvæma, nema því aðeins að þetta eigi að vera upphafið að því, að það eigi með þáltill. að mega heimila t.d., að varamenn komi inn á þing í staðinn fyrir þingmenn í einmenningskjördæmum, þá væntanlega tilnefndir af sínum flokkum, ef flokksvaldið á að fá þá miklu viðurkenningu, sem allur þessi málflutningur virðist byggjast á. En ég held, að slík aðferð væri vægast sagt næsta hæpin og vafasöm til tryggingar lýðræðinu í landinu, því að í sannleika sagt verð ég að segja, að reynslan a.m.k. í þetta sinn staðfestir ótvírætt, að það er mjög ógiftusamlegt og ólíklegt til réttlátrar niðurstöðu að veita Alþ. sjálfu vald til þess að kveða á um kjör þingmanna.

Það liggur óvefengjanlega fyrir í þessu máli, að kosningu þingmanna fyrir Reykjavík á þessu kjörtímabili er endanlega lokið og að úrslit þeirra kosninga urðu þau, að Alþfl. fékk hér kjörinn einn mann af sínum lista. Það var úrskurðaður inn á þing annar maður á listanum sem uppbótarþingmaður, og þá kemur þriðja sætið sem varaþingmannssæti.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri þá verið að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar, ef 2. maður á listanum væri tekinn inn sem uppbótarþingmaður, vegna þess að það væri ekki gert ráð fyrir því i stjórnarskrárákvæðinu, að slíkt væri heimilt. Þetta er auðvitað reginvilla og hin furðulegasta lögskýring, vegna þess, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, að innan sömu lagagreinar verður auðvitað að skilja setningarnar og ákvæðin í samhengi hvert við annað, og auk þess segir alveg sérstaklega í 31. gr. stjórnarskrárinnar: „Að öðru leyti fer um skipun jöfnunarþingsæta eftir kosningalögum.“ Það er heimilað að setja um jöfnunarþingsætin nánari ákvæði með kosningalögum. Og það liggur auðvitað í augum uppi, að þessir 11 þm., sem til jöfnunar eru milli þingflokka sem uppbótarmenn, eru kosnir á sama tíma og kjördæmakosnu þingmennirnir, þannig að um þann mann er ekki að ræða sem varamann, þar sem hann hefur fengið kosningu sem landslistamaður. Þetta getur því auðvitað ekki á nokkurn hátt styrkt þá kenningu, að það sé heimilt að taka næstu tvo eða þrjá menn eða þá væntanlega eins lengi og listinn endist til sem varamenn inn á þing.

Þó að það sé kannske ekki til sérstakrar fyrirmyndar að vera að vitna í Þjóðviljann, þá get ég samt ekki stillt mig um annað en að vitna í nokkrar setningar í þeirri grein, sem ég gat um hér áðan, af því að hún er rituð af einum af helztu lögfræðingum Alþb. og manni, sem mér skilst að sé varamaður í yfirkjörstjórn, þar sem hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir aðrir frambjóðendur þess lista, þ.e. í 4.–16. sæti, voru að öllu leyti fallnir á þeirri stundu, sem formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík hafði lokið við að lýsa í embættisnafni úrslitum kosninganna hér í bænum. Þeir höfðu ekki náð kosningu. Þeir voru aftur orðnir nafnlausir einstaklingar í hafi hinna óbreyttu borgara eins og við hinir, — ekki hv. þingmenn, ekki tilvonandi uppbótarmenn, ekki tilvonandi varaþingmenn, aðeins fyrrverandi tilvonandi, ekki einu sinni frambjóðendur lengur. Þeir voru ekki lengur neitt sérstakt. Listinn, sem nafnið þeirra stóð á fram að kjördegi, var ekki einu sinni framboðslisti lengur. Hann var aðeins skilríki frá liðinni tíð handa hagstofunni og Íslandssögunni. Þeir, sem áttu nafn sitt á honum, neðan þriðja sætis, mundu aldrei geta komizt í kallfæri við Alþingi Íslendinga sem innanhúsmenn þar, fyrr en kjörtímabilið væri liðið.“

Það er ekki neitt hikandi orðalag á skoðun þessa hv. varamanns í yfirkjörstjórn, sem þarna kemur fram.

Þó að það ætti ekki að skipta miklu máli, hvort Eggert Þorsteinsson, sem er hinn mætasti maður, kemur hér inn á þing eða ekki í stað Rannveigar Þorsteinsdóttur, þá er það út af fyrir sig ekkert atriði í málinu, og sú andstaða, sem hér hefur komið fram gegn þeirri hugmynd, að Eggert Þorsteinsson taki hér sæti á Alþingi, stafar ekki á nokkurn hátt af andúð á honum, þvert á móti. En það er næsta kynleg hugmynd og sýnir hugsunarhátt þeirra manna, sem þar að standa, sem kemur fram í blaði hæstv. forsrh. nú um helgina, að afstaða Sjálfstfl. til málsins hafi auðvitað miðazt af því, að hann var í stjórnarandstöðu. Það sem sagt virðist vera skoðun blaðsins, að það sé óhugsandi, að þingmenn eða þingflokkar geti haft afstöðu til mála eftir því, sem þeir telja rétt og satt, heldur hljóti það að fara eftir því, hvað hagsmununum líður hverju sinni. Ef þessi hugsunarháttur á að ríkja hér á hinu háa Alþingi um þá úrskurði, sem Alþ. á að fella, þá er ég hræddur um, að það þurfi ekki að vænta mikillar virðingar þjóðarinnar. Það, sem hér er verið að framkvæma undir forustu hæstv. ríkisstj., er einhver sá blygðunarlausasti leikur, sem leikinn hefur verið á þessu sviði, þar sem ótvírætt er brotið gersamlega í bága við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins. Í slíkum leik viljum við sjálfstæðismenn ekki taka þátt, og af því markast okkar afstaða til málsins, en ekki á hinn minnsta máta af neinum fjandskap við þann mann, sem hér er verið að deila um. Og ég er heldur ekki í neinum efa um það, að þó að kannske allir hv. þm. stjórnarflokkanna muni hlýða forsrh. um það að rétta upp hönd sína með þessari þáltill., þá verður það með samvizkunnar mótmælum hjá mörgum.

Stjórnarskrá okkar unga lýðveldis er sá hornsteinn, sem við byggjum á, og það er engra skylda fremur en Alþingis að sjá um, að stjórnarskráin sé í heiðri höfð. Og þó að það komi um stundarsakir illa við einstaka flokka að geta ekki hagrætt ákvæðum hennar eftir vild, þá verður það að teljast hin mesta ósvinna og verður að harma það, að ríkisstj. skuli láta leiðast til þess að ganga á undan með að brjóta ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins. Ég efast um, að hæstv. forsrh. og meðstarfsmenn hans hafi gert sér grein fyrir því, hvað þeir raunverulega eru hér að gera, í kappi sínu við að ná fram þeim árangri, sem þeir vilja endilega að náist hér. Ég öfunda þá sannarlega ekki af því hlutskipti, þegar dæmt verður siðar um þann verknað, sem þeir stofna hér til, ef meiri hluti Alþingis ætlar að leggja blessun sína yfir till. þeirra.