01.03.1957
Sameinað þing: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2377)

130. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands h/ftil flugvélakaupa

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki mín meining, að þetta mál verði tafið, og ekki heldur, að það verði endilega nú farið að hnýta aftan í það heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast fyrir Loftleiðir flugvélakaupin, heldur að heyra frá hæstv. fjmrh., hvort hann hefði ekki einnig hug á því að greiða fyrir Loftleiðum, þegar það væri tímabært. Nú heyri ég það á hæstv. ráðh., að hann ber sama hug til þess máls eins og þess, sem hér liggur fyrir, en að það er ekki farið fram á heimild fyrir ríkisábyrgð vegna þess, að Loftleiða-málið er ekki komið enn á það stig, sem það þarf að vera, þegar ríkisábyrgð er gefin. Og þegar þannig er ástatt, þá er það skiljanlegt, að nú sé flutt till. aðeins um Flugfélag Íslands. Það var aðeins skýring á þessu, sem ég óskaði eftir að fá, og ég tel, að hún hafi komið fram í orðum hæstv. fjmrh„ að hann muni, þegar tímabært þykir og flugfélagið Loftleiðir hefur uppfyllt svipuð skilyrði og Flugfélag Íslands, einnig beita sér fyrir ábyrgð Loftleiðum til handa.