13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hygg, að þessi till. spilli engu, en hennar sé ekki brýn þörf, því að það hefur þegar verið tekið fram, að ríkisstj. telji sig samkv. 2. gr. samþykktarinnar skuldbundna til þess að hafa nú forustu um, að hún komist í framkvæmd, og bent á ákveðna leið til þess, að ríkisstj. skipi nefnd, skipaða fulltrúum ríkisvalds, vinnuveitendasamtaka og verkalýðssamtaka, til þess að hraða framkvæmd málsins. Ég hygg, að það sé ekki hægt að fara aðra leið en þá. Þar er framkvæmdin alveg mörkuð. Svo hef ég enn fremur bætt við, að ef þetta þyki taka of langan tíma, tregða yrði á að framkvæma þessa leið, þá ætti að vera hægurinn hjá að koma málinu í höfn með löggjöf. Og það er líka undirbúið. Þannig getum við öll glaðzt yfir því, að báðar leiðirnar eiga að færa okkur að marki innan ekki mjög langs tíma.