13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2460)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þetta mál hefur á sér nokkuð sérstæðan blæ, þar sem hér hefur ekkert í raun og veru verið deilt um efni málsins, að jöfn skuli laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, en hins vegar hefur málflutningur hæstv. félmrh. grundvallazt á metingi um það, hvort hann hafi verið öðrum skeleggari stuðningsmaður þessa málefnis fyrr eða síðar. Hann segir þó sjálfur hér, að 1954 hafi sjö sjálfstæðismenn fengið samþykkta áskorun hér í þinginu um, að slík till. sem þessi skyldi flutt.

Að þessu athuguðu er nú í raun og veru mjög vandasamt að gera upp á milli, hverjir skeleggari eru í málflutningnum, að öðru leyti en því, að sjálfstæðismenn hafa fengið samþykkta þessa áskorun 1954 um flutning till., sem nú 1957 er flutt af hæstv. félmrh. Á því að hlusta á þessar umr. finnst mér helzt bera á milli sjálfstæðismanna og hæstv. félmrh. í þessu máli, að þeir hafi ekki eins vandað val þeirra daga, sem þeir hafa flutt sín málefni, en í fyrstu ræðu hæstv. félmrh. skýrði hann hátíðlega frá því, að það hefði verið á mannréttindadaginn og kvenréttindadaginn, sem hann hefði verið öðrum dögum fremur önnum kafinn við undirbúning og flutning þessa máls. Nú færi vel á því, ef þingið gæti sameinazt um það, þegar þessi till. verður afgreidd, að hafður verði þá í huga einhver hátíðisdagur, svo að það verði nokkuð í samræmi við annan undirbúning af hálfu hæstv. félmrh.

Þegar þetta er haft í huga, verð ég þó að segja, að mér finnst, að sjálfstæðismenn ættu að vísu ekki að angra hæstv. ríkisstj. út af málaflutningi hér i þinginu, því að eins og málflutningur hæstv. ríkisstj. hefur verið að undanförnu, þá er mjög skiljanlegt, að einstaka ráðherra vilji gera tilraun til þess að lyfta sér upp með flutning einstaka máls, sem er þó a.m.k. þinglega flutt, og um það verður ekki deilt í sambandi við þessa till. En mig undrar það, að eftir því sem sjálfstæðismenn hafa lýst sig ákveðnari stuðningsmenn þessa máls, bæði fyrr og síðar og í þessum umr., þá er eins og hæstv. félmrh. verði öllu viðskotaverri í hverri ræðunni á fætur annarri og er nú búinn, held ég, fimm sinnum að taka til máls. Og þegar svo hv. 8. þm. Reykv. vill auka við þessa till. og gera alþingissamþykktina ákveðnari með sinni viðbótartill., þá er ekki annað að skilja á hæstv. félmrh. en honum sé meinilla við þessa till.

Við verðum víst að una því, sjálfstæðismenn, að hæstv. félmrh. verði því óánægðari sem við erum skeleggari stuðningsmenn þessa máls, bæði fyrr og síðar, en að sjálfsögðu hefur það ekki áhrif á afstöðu okkar, þegar til afgreiðslu málsins kemur.