08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en látið í ljós nokkra undrun yfir því, að þegar þessi margumtalaða afmælisgjöf hæstv. félmrh. er hér til lokaafgreiðslu í þinginu, þá skuli hann ekki sjást hér. Hvaða ástæða er til þess, veit ég ekki, en það hlýtur að vekja nokkra athygli, því að vel gat verið, að það risu í sambandi við þetta mál einhverjar fyrirspurnir, sem æskilegt væri að hann væri viðbúinn að svara. (Gripið fram í.) Það hefur nú stundum komið fyrir, að það hefur verið frestað endanlegri afgreiðslu máls, ef þannig hefur staðið á, af því að mér skilst, að þetta sé ekki lokafundur þingsins, ef að líkum lætur, eftir því sem málum miðar hér áfram. En hvað sem því líður, þá hefur það auðvitað engin afgerandi áhrif á niðurstöður manna í málinu.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, er fyrst og fremst sú að taka undir orð hv. 8. þm. Reykv. um það, að vegna þess mikla áhuga, sem komið hefur í ljós hjá hv. allsherjarnefndarmönnum, sem hér hafa talað um framgang launajafnréttisins, þá vekur það út af fyrir sig einnig nokkra athygli, að þeir skuli ekki mæla beinlínis með samþykkt þeirrar viðbótartill., sem hv. 8. þm. Reykv. hér flutti um, að það yrðu sem skjótast gerðar ráðstafanir til þess, að þessi samþykkt geti orðið annað en pappírsgagn. Við fyrri hluta umr. um þetta mál lýsti ég þeirri skoðun minni hér og vitnaði þar til þeirra umræðna, sem fram fóru hér í Alþingi, þegar till. okkar sjö sjálfstæðismanna um ráðstafanir til þess að fullgilda þessa samþykkt var hér til meðferðar 1954, að þá var sérstaklega vakin athygli á því og það markaði vilja meiri hluta Alþingis i þessu máli, að það væri ekki talið fært að leggja til að fullgilda þessa samþykkt, nema fyrir fram væri búið að gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru til þess, að hún yrði ekki aðeins pappírsgagn, og hv. þm. þótti þá, að það væri naumast viðeigandi að gerast aðili að alþjóðlegum samþykktum eins og þessari nema geta þá útfært hana í veruleika.

Nú skal ég út af fyrir sig ekkert hafa á móti því, eins og við höfum hér tekið fram fleiri, að þessi samþykkt verði nú fullgilt, enda þótt engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess, að hún yrði að veruleika í þeim atriðum, þar sem enn skortir á um það efni. En það er vægast sagt mjög undarleg afstaða, ef jafnhliða því að samþykkja yfirlýsinguna á svo ekki að samþykkja þá viðbótartillögu, sem hér hefur verið lögð fram um það, að þessi yfirlýsing verði sem skjótast gerð að veruleika.

Þetta fæ ég ekki skilið, með allri virðingu fyrir þeim ágætu hv. þm., sem hér hafa talað fyrir munn þeirra, sem að nál. allshn. standa.

Varðandi svo hitt atriði málsins, sem hefur verið notað hér af hv. frsm. sérstaklega til þess að undirbyggja hér allmikla ræðu til svars andmælum Vinnuveitendasambands Íslands gegn þessu máli, þar sem er mjög látið í það skina, að afstaða þess sýni illan hug til málsins, þá get ég ekki séð, að umsögn þess um málið beinlínis bendi í þá átt. Þar er bent á ákveðnar staðreyndir, sem má vissulega færa rök fyrir, þó að það sé svo aftur önnur saga, hvort menn vilja telja þau rök fullgild til að fallast á þá afstöðu að fresta málinu. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé ástæðulaust að samþykkja ekki þessa till., enda hefur Alþingi áður lýst yfir vilja sínum um það atriði, þannig að till. sjálf, eins og hún liggur hér fyrir, er raunverulega ekki annað en ítrekun á þeim vilja, sem áður hefur verið lýst af meginhluta Alþingis. En ég tel það hins vegar ekki sanngjarnt að vera með árásir á hendur Vinnuveitendasambandinu, þó að það hér í mjög hógværu og rökstuddu áliti bendi á viss atriði, sem það telji að séu þess eðlis, að það sé ekki ástæða til að staðfesta ályktunina strax. Það var af hv. frsm. n. vikið að því, að ef Vinnuveitendasambandið hefði viljað sýna góðan hug í þessu máli, þá hefði það átt að bjóðast þegar til að gera heildarsamninga, án þess að til nokkurra átaka þyrfti að koma um að koma á þessu fullkomna launajafnrétti.

Ég veit nú sannast sagt ekki, hvort það er svo glæsilegt fyrir vinnuveitendur að gera slíka samninga. Þegar maður les það nú í blöðum að undanförnu, að það er haft til sérstakrar árásar á hendur þeim, að þeir skuli hafa leyst hér kjaradeilu á þann hátt, að það þurfti ekki að koma til verkfalls og vinnustöðvunar, þá er það ekki sérstaklega fýsilegt fyrir þá, ef þeir eiga von á svipuðum kveðjum og þeir fengu hjá stjórnarliðinu í sambandi við það mál, að fara sérstaklega að bjóðast til að fyrra bragði að laga þetta launamisrétti, sem kann að eiga sér hér stað og á sér stað á vissum sviðum.

Viðhorf okkar sjálfstæðismanna hefur verið það, að við höfum talið eðlilegt, að það yrði leitazt við að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fullgilda þessa samþykkt, áður en hún væri staðfest, eins og kom fram í ályktun Alþingis frá 1954 og þá var hér viðhorf mikils meiri hluta þings. Sé það hins vegar svo, að hæstv. félmrh. telji sér það einhvern stuðning í þessu máli að fá fyrst heimild til staðfestingarinnar og gera svo ráðstafanirnar á eftir, til þess að framkvæmd málsins verði að veruleika, þá er ekkert við því að segja.

En það hlýtur að minni hyggju ótvírætt að benda til þess, að það sé ekki ýkja mikill áhugi á, að málið verði að raunveruleika, ef þeir ágætu þingmenn, sem standa að nál., sjá sér ekki fært að mæla beinlínis með því, að þessi viðbótartill. hv. 8. þm. Reykv. við þáltill. verði samþykkt.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að Kvenréttindafélag Íslands hefur nýlega samþykkt áskorun um það til Alþingis að samþykkja umrædda þáltill. ríkisstj. um fullgildingu alþjóðasamþykktarinnar um jöfn laun karla og kvenna, og jafnframt skorar Kvenréttindafélagið á Álþingi að samþykkja brtt. Ragnhildar Helgadóttur, hv. 8. þm. Reykv., sem flutt var við umr. málsins á Alþingi.