07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

28. mál, endurskoðun laga um atvinnu við siglingar á íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi bárum við fimm þm. hv. Ed. fram till. til þál. um endurskoðun laga um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og laga um stýrimannaskólann í Reykjavík. Þeir þm., sem fluttu þessa till., áttu allir sæti og eiga sumir hverjir enn í sjútvn. Ed. Tillagan hljóðaði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á lögum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og á lögum um stýrimannaskólann í Reykjavík, með sérstöku tilliti til þess, hverra breytinga á þessum lögum sé þörf vegna þróunar síðari ára í siglinga- og fiskveiðamálum landsmanna. Enn fremur verði athugað, hversu megi á hagkvæmastan hátt auðvelda mönnum aðgang að hæfilegu námi, er veiti réttindi til skipstjórnar á hinum stærri vélbátum. Er þess óskað, að niðurstöður umræddrar endurskoðunar og tillögur til breytinga á lögunum verði lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Í grg. var það fram tekið, að af hálfu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum hefðu flutningsmönnum þessarar till. borizt ákveðnar óskir um, að flutt væru frv. til laga um breytingu laganna um atvinnu við siglingar og um stýrimannaskólann til þess að samræma þau lög betur kröfum tímans en nú er sökum þeirrar öru þróunar, sem orðin er, einkum á fiskiskipaflotanum, frá því að lög þessi voru sett.

Sívaxandi og þráfaldar beiðnir um undanþágur frá ákvæðum téðra laga vegna skorts á nauðsynlegum réttindum gera nauðsyn endurskoðunar lagaákvæðanna og athugun á breytingum til úrbóta mjög brýna.

Þá var það einnig fram tekið, að vegna skorts á hæfilega mörgum mönnum, er hafa réttindi til skipstjórnar á hinum sístækkandi vélbátaflota, er horfið að því, a.m.k. í sumum veiðistöðvum, að veita undanþágur frá ákvæðum laganna, og er það gert vegna þess, að ella mundi ekki unnt að halda mörgum bátanna úti.

Þessi þróun málanna er mjög varhugaverð og getur reynzt hættuleg öryggi skipa og skipshafna yfirleitt.

Þá er sagt, að rétt þyki að vandlega athuguðu máli að reyna hér þá leið til lausnar þeim vandamálum, sem fyrir hendi eru í þessum efnum, sem farin er með þessari þáltill., í stað þess að flytja frv. til breytinga án undangenginnar endurskoðunar laganna. Þess var vænzt, að þeir menn, er ríkisstj. væntanlega skipi til endurskoðunar þeirra laga, er um ræðir, kynni sér m.a. skoðanir Farmanna- og fiskimannasambandsins, skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum og annarra skipstjóra- og stýrimannasamtaka í hinum stærri veiðistöðvum, og í framsögu tók ég það enn fremur fram, að nauðsynlegt væri, að skólastjóri stýrimannaskólans, sjómannaskólans, tæki þátt í þessari endurskoðun eða menn af hans hendi.

Þá var það og tekið fram, að áríðandi væri, að endurskoðun yrði hraðað og að ríkisstj. legði till. þær, sem endurskoðunin væntanlega gefur tilefni til, fyrir næsta þing.

Með því að ég hef ekki orðið var við, að þessar till. hafi birzt hér eða að ríkisstj. hafi lagt hér fram neitt frv. í þessu efni, en veit hins vegar, að þörfin fyrir breytingu og umbætur á þessum lögum er engu minni og jafnvel heldur meiri nú en hún var, er síðasta þing var háð, tók ég fyrir að bera fram þessa fsp. til þess að fá vitneskju um það, hversu málum þessum liði sem stendur, og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. mundi geta leyst úr því mér til fróðleiks og öllum öðrum hv. þm., sem áhuga hafa á þessu málí. því að það kom í ljós, að áhugi fyrir þessari endurskoðun var mikill meðal þingsins, þar sem þáltill. sú, er ég lýsti nú, var samþykkt að ég held einróma og óbreytt, samþykkt á Alþingi 8. marz þetta ár.

Ég vonast svo til, að hæstv. ráðherra, sá sem fer með þessi mál, muni geta upplýst, að þessi endurskoðun sé í fullum gangi, ef henni er þá ekki lokið, og að væntanlegt sé frv. frá hæstv. ríkisstj. til að leysa úr þeim vanda, sem hér er kominn, að því er snertir réttindi manna til þess að stjórna hinum stærri vélbátum víðs vegar um land.