23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (2797)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. V.-Húnv. leyfir sér að segja, að ég fari hér með fleipur eitt og staðlausa stafi, þegar ég segi, að það sé sannað, að Hamrafellið gæti siglt fyrir 80 sh. og greitt kaupverðið að fullu á 4–5 árum með því verði. Ég get nefnt hér nokkrar tölur.

Það er gert ráð fyrir, að þetta skip flytji 16 þús. tonn í ferð. Það er gert ráð fyrir, að það geti farið 11 ferðir á ári til Svartahafsins. Það eru 176 þús. tonn. Séu 200 kr. á tonnið eða 80 sh., þá eru brúttótekjur skipsins 35 millj. kr. Ef kaupverð skipsins hefur verið 50 millj. kr., þá er afborgunin á ári 10 millj. Vextir minnir mig að séu 5%. Þá eru þeir 21/2 millj. Þetta gerir samtals 12.5 millj., vextir og afborgun. Ég hef það fyrir satt, að rekstrarkostnaður skipsins fyrir utan vexti og afborgun sé 1.2 millj. á mánuði, ég skal segja 1.5 millj. Það eru 18 millj. á ári. Þetta gerir 30.5 millj. á ári, rekstrarkostnaðurinn, með því að greiða skipið niður á fimm árum. Þá er eftir 41/2 millj. króna.

Þarf gleggri tölur? Þarf gleggri skýringar? Og hvaða fyrirtæki á Íslandi fær að borga sig niður örar en þetta?

Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum við hv. þm. V-Húnv., því að hann kemur hér upp með fleipur eitt og staðlausa stafi af löngun til þess að reyna að hrekja það, sem ég sagði, en án þess að geta það. Og ég vil þess vegna fara nokkrum orðum um hæstv. viðskmrh.

Það var bágborin frammistaða hjá honum hér áðan, þegar hann var að reyna að verja sig. Hann sagðist viðurkenna, að Hamrafellið hefði getað flutt fyrir minna, en það var bara löngunin til þess að láta þetta fyrirtæki fá peninga af almenningi í landinu í kassann, sem réð því, að hæstv. ráðh. gerði það, sem hann gerði, og ríkisstj. öll.

Það er dálítið einkennilegt, þegar hann er að vitna í, að það hafi engar reglur verið til í sambandi við það, þegar íslenzk skip flytji í heilum förmum til landsins, þá hafi engin hámarksálagning verið, t.d. á kolum, salti, sementi, timbri og öðru slíku. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er örsjaldan og eiginlega aldrei, sem íslenzk skip flytja þessar vörur í heilum förmum. Þau flytja þessar vörur með og ásamt öðrum vörum. Og ég get nefnt kolin, sem er hámarksálagning á, og eins sementið, að þegar Kol & Salt ákveður að kaupa kol, þá er það fyrsta, sem þeir gera, að fara til verðlagsyfirvaldanna og vita, hvort þau vilja samþykkja þá fragt, sem fyrir hendi er. Og þess vegna er það, að Kol & Salt hefur gert allt, sem í þess valdi hefur staðið til þess að fá fragtina niður á hverjum tíma, þegar um flutninga á kolum hefur verið að ræða. Og það er sama máli að gegna með sement og timbur, sem vanalega er flutt í slöttum með íslenzkum skipum ásamt öðrum vörum, að þetta lýtur allt hámarksálagningu, allt saman.

Hæstv. ráðh. talaði um það hér áðan, að ég gæti ekki stært mig af því að hafa sparað einn shilling, því að ég hafi í minni ráðherratíð ekki hreyft hönd eða fót í því skyni. Þegar ég var ráðh., áttu Íslendingar ekkert olíuflutningaskip, og slíkt dæmi sem hér er um að ræða kom þess vegna ekki fyrir í minni tíð. En það get ég sagt þessum hæstv. ráðh. og öðrum ráðherrum og þeim, sem skrifa stjórnarblöðin, að þegar þeir eru að tala um, hversu mikið hefur sparazt fyrir það, að Hamrafellið er nú í eigu landsmanna, þá vil ég upplýsa þá um, að einn af forstjórum olíufélaganna kom að máli við mig í fyrravetur snemma og sagði, að nú væri tækifæri til þess að gera samninga fram í tímann um leigu á olíuskipum og það væri sannfæring sín, að það bæri að gera það. En hann sagði meira: Vegna þess að Íslendingar hafa nú keypt skip, sem kemur til landsins á hausti komanda, þá getum við ekki gert þetta.

Þetta bið ég menn að hafa í huga, þegar verið er að ræða um, að það hafi sparazt fleiri milljónir, jafnvel tugir milljóna fyrir það, að skipið er komið. Við getum fagnað því, að það er komið í eigu landsmanna, en við getum þá líka tekið það með í reikninginn, að ef ekki hefði verið von á þessu skipi á s.l. hausti, þá hefðu olíufélögin gert samninga fram í tímann um 50–60 sh. fragt og þá væri sú fragt í gildi enn í dag. Og það er fróðlegt að vita, að 90% af olíuskipastól landsmanna er nú í hinni lágu fragt, sem er bundin fram í tímann, og aðeins 10% af kaupskipaflotanum er á uppboði, sams konar uppboði og eigendum Hamrafells tókst að hafa við hæstv. viðskmrh.

Ég sagði áðan, að eigendur Hamrafellsins mundu hafa brosað í kampinn, þegar þeir gerðu samninginn við hæstv. ríkisstj., og ég er sannfærður um, að það hefur verið sigurbros. Og þeir hafa áreiðanlega haft í huga, að það væru ekki miklir verzlunarmenn í ríkisstjórninni, úr því að þeir létu féfletta sig svona.

Hæstv. ráðh. sagði áðan, að olíufélögin hefðu alltaf mátt leigja olíuflutningaskip fyrir sig. En hvers vegna skrifar hann 11. okt. s.l. og segir: „Ríkisstjórnin samþykkir, að olíufélögin leigi skip til flutninga á gasolíu“ o.s.frv. Hefði ríkisstj. þurft að skrifa slíkt bréf, ef hún hefði ekki litið þannig á, að hún hefði valdið í þessum málum?