23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (2817)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Forseti (EmJ):

Ég vil aðeins til viðbótar því, sem ég sagði áðan, geta þess, að þegar fyrirspurnatíminn var ákveðinn, var hann ákveðinn, ef ég man rétt, í þeirri veru, að þm. gætu aflað sér upplýsinga um hluti, en að hann yrði ekki almennur umræðutími. Það er það, sem mér hefur fundizt í þessum umr. koma fram, að menn hafi viljað breyta þessum fyrirspurnatíma í umræðutíma. En það sýnir ræðutímaákvörðunin í fundarsköpum, að þetta hefur ekki verið ætlunin, þar sem þingmönnum eru yfirleitt ekki ætlaðar í þessum umr. nema tvennar fimm mínútur, og það getur aldrei orðið grundvöllur að neinni verulegri umræðu, þó að mér hafi virzt í þessum umr., að þeim hafi verið beint inn á þær brautir.