07.05.1957
Efri deild: 95. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

141. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hv. 1. landsk., varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls.

Ég þarf nú í rauninni ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, eins og það liggur nú fyrir. Ég get vísað til þess, sem ég sagði við 1. umr. þess. Ég benti þá á, hver nauðsyn væri á að afla fjár til sjúkrahúsabygginga eftir einhverjum öðrum leiðum en nú væri gert, þ.e. beinum framlögum úr ríkissjóði, framlögum, sem ávallt eru á eftir tímanum, þannig að ríkissjóður er að greiða skuld, sem er fallin á hann, í staðinn fyrir að greiða framlagið um leið og á fénu þarf að halda. Og þetta verkar þannig, að viðkomandi byggingar standa miklu lengur yfir en eðlilegt er, og af þeim orsökum verða þær miklu dýrari og erfiðari öll framkvæmd um byggingarnar.

Þetta sjónarmið viðurkennir meiri hl. heilbr.- og félmn.; sem sjá má á þskj. 474, sem er nál. þeirra. Þar segir, að sú hugmynd að stofna sjúkrahúsasjóð, sem hafi þetta verkefni með höndum, sé mjög athyglisverð hugmynd. En meiri hl. telur sér samt ekki fært að mæla með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir, þ.e. að afla sjóðnum tekna með rekstri talnahappdrættis. Hv. frsm. lýsti þessu í sinni ræðu og minntist þar á getraunahappdrætti, sem hefur verið hér í nokkur ár starfandi og hefur ekki reynzt vel. Það er rétt, að þetta getraunahappdrætti er ekki að öllu ólíkt hinu fyrirhugaða talnahappdrætti, en það er samt ekki rétt að draga af því þá ályktun, að talnahappdrætti geti ekki gengið vel, einkum þar sem ágóða af því verður varið til að styrkja sjúkrahúsbyggingar í landinu. Þátttakendur í talnahappdrættinu styrkja nauðsynlegt framfaramál, um leið og til vinnings er að hugsa.

Fyrir áliti sínu, sem fram kemur í nál., færir meiri hl. aðallega tvær ástæður. Það er þetta, sem ég minntist nú um form happdrættisins, að það væri ekki hepplegt til þess að afla væntanlegum sjúkrahúsasjóði tekna, og þess vegna treystir hann sér ekki til þess að mæla með því, og segir svo í nál., að þeir treysta sér ekki til að segja um það, hvort þetta happdrætti sé heppilegra til árangurs en önnur happdrætti, sem rekin væru fyrir slíkan sjóð og gegndu sama hlutverki.

Þetta er að nokkru leyti rétt, vegna þess að þó að talnahappdrættið, sem hér er hugsað, sé ekki að öllu eins og getraunahappdrættið, þá er það þó óreynt hér á landi og ekki víst, hvaða tekjur það gæfi. En það má bara benda á, að þar sem þetta hefur verið reynt, t.d. í Þýzkalandi, er það mjög stórt fyrirtæki og gefur miklar tekjur, sem notaðar eru til ýmissa heilbrigðis- og menningarmála þar í landi.

Þá kemur annað álit fram í nál. hv. meiri hluta. Þar segir: „Enn fremur álítur meiri hl. vafamál, hvort rétt sé, að Alþingi eigi yfirleitt að stuðla að stofnun nýs happdrættis, á meðan þrjár stofnanir í landinu, háskólinn, S.Í.B.S. og D.A.S. hafa hver um sig fastan stórfelldan happdrættisrekstur“.

Í sambandi við þetta álit meiri hlutans vil ég segja það, að eins og bent var á, starfa hér þrjú stór happdrætti. Þeirra elzt er happdrætti háskólans, sem starfaði hér eitt sin fyrstu ár. Síðar bættust tvö við, S.Í.B.S. og happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Það verður ekki annað séð en að þau starfi öll með blóma núna. Öll hafa þau gert stórvirki, hvert á sínum stað, og ekki er að sjá, að þau dragi frá rekstri hvers annars. Þvert á móti. Þau færa út kvíarnar á hverju ári. Ég hef ekki í höndum gögn, sem sýna, hver árlegur ágóði þeirra er, en þó hef ég vitneskju um, að eitt þeirra, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, hefur á þremur árum lagt til dvalarheimilisins 41/2 millj. kr., m.ö.o. 1 1/2 millj. kr. á ári. Þetta er aðeins fé, sem þetta eina happdrætti græðir á starfsemi sinni á hverju ári, 11/2 millj., og þá getur maður gert sér nokkra hugmynd um, hvað þau muni fá af peningum öll.

Það er ekki undarlegt, þó að mönnum komi það í hug að afla fjár á svipaðan hátt og þetta, þar sem reynslan sýnir, að þarna er um stórkostlega tekjuöflun að ræða, og ég geri ráð fyrir því, að reynslan muni sýna, að þó að eitt happdrætti bættist í þann hóp, sem nú er fyrir, mundi það ekki hafa mikil áhrif í þá átt að draga úr rekstri þeirra happdrætta, sem nú eru til, hvers um sig.

Álit mitt og hv. 11. landsk. er því það, að þó að samþykkt yrði að stofna sjúkrahúsasjóð fyrir allt landið og tekna til hans aflað með rekstri happdrættis, mundi það engin áhrif hafa á rekstur þeirra þriggja stóru, sem fyrir eru, enda engan veginn tilgangur minn með flutningi þessa frv. að leggja stein í götu þeirra, þvert á móti.

Með niðurlagsorð nál. meiri hl., þar sem segir: „Í trausti þess, að þetta mál verði athugað nánar og síðar fram borið, er henta þykir“ — get ég verið ánægður, svo langt sem þessi ummæli ná. En við, sem skipum minni hl., hefðum óskað þess, að þessa athugun hefði n. gert nú þegar og lagt málið síðan fram til jákvæðrar afgreiðslu, en ekki á þessu stigi vísað því til ríkisstj., því að ég hef takmarkaða trú á því, að það verði þessu máli til framdráttar.

Hv. 11. landsk. og ég leggjum til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir. En verði till. meiri hl. á þskj. 474 um að vísa málinu til ríkisstj. á þessu stigi samþykkt, álít ég þá afgreiðslu málsins þó jákvæða, að meiri hl. n. hefur viðurkennt, að málið sé athyglisvert og vert nánari athugunar, þó að hann treysti sér ekki til að mæla með samþykkt þess á þessu stigi.