10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (3028)

29. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég verð að játa, að ég er ókunnugur því atriði, sem brtt. á þskj. 512 fjallar um, enda er henni útbýtt nú svo að segja samstundis. En ég leit í grg. frv. um þetta mál eða þetta atriði og þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „En 1. lið hefur verið breytt þannig, að við hann hefur verið bætt setningunni: „sem hefur allt að 28% fituinnihald og selt er í 150 g umbúðum eða stærri.“ Er þetta nýmæli tekið úr norskum lögum, sett í þeim tilgangi að ákveða, hvað skuli teljast iðn- og suðusúkkulaði. Í lögin hefur slíkt ákvæði vantað mjög tilfinnanlega.“ Þetta segja þeir, sem sömdu grg. fyrir þessu frv., og það er meiri hl. þeirrar n., sem undirbjó þetta mál. Það sýnist þá, að þeir hafi sett þetta ákvæði af því, að þeim hafi fundizt mjög þýðingarmikið, að það væri í lögunum.

Nú finnst mér þetta satt að segja vera þannig vaxið, að það væri ekkert óeðlilegt, þar sem þetta atriði hefur, að því er mér skilst, ekki verið rannsakað sérstaklega, að fengin væri vitneskja um það frá þeim, sem standa að þessu frv., — og mætti. snúa sér um það til skrifstofustjórans í fjmrn. og tollstjórans í Reykjavík, –hvaða ástæður liggja til þess, að þeim finnst þetta ,hafa vantað mjög tilfinnanlega í lögin. Mér finnst ekki eðlilegt, að þetta þurfi að koma hér til atkvæða, án þess að menn heyri nánar um. þetta. Að vísu upplýsti hv. frsm. meiri hl. nokkuð um. málið, en sennilega ekki eins ýtarlega og þessir menn gætu gert. Ég vil þess vegna gera það að minni uppástungu, til þess að bæði sjónarmiðin komi fram, bæði sjónarmið iðnrekenda og þeirra, sem standa að því að setja þessa nýju löggjöf, að málinu verði frestað og að hv. n. fái vitnisburð um það, hvaða ástæður liggja að baki þessari umsögn, sem ég las úr grg., og málið komi síðan hér fyrir, þegar það hefur verið athugað.