09.11.1956
Efri deild: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (3053)

30. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. fjhn. tók fram, að upphaflega féllust allir hv. nm. í fjhn. á það að mæla með þessu frv. Við höfðum að vísu hlustað á ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann talaði fyrstur fyrir málinu, en á hinn bóginn vissum við ekki nema að litlu leyti á því augnabliki nokkra forsögu þessa máls, sem síðan hefur fram komið, og henni er lýst í bréfi, dags. 29. okt., af forstjóra sjóðsins, sem er frú Gunnlaug Briem.

Ég skal ekki við þetta tækifæri lýsa því, sem frúin segir í þessu sínu bréfi, nánar. En mér virðist, að undirbúningur málsins hafi ekki af hálfu ráðh. verið, elns og eðlilega mætti til ætlast, í fullu samráði við forstjóra sjóðsins. Skorti þar nokkuð á. Á hinn bóginn kunna að vera lögfræðileg atriði í þessu máli, eins og hv. frsm. minntist á, sem útskýringar þarfnast við og ég fyrir mitt leyti er ekki bær að dæma um, áður en þau lögfræðilegu atriði væru mér skýrð.

Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að það mun vera nokkur munur á orðalagi þeirra skuldabréfa, sem eru fyrir lánum söfnunarsjóðsins, og skuldabréfa a.m.k. þess banka, sem hv. frsm. minntist á. En svo kunna fleiri atriði að koma til greina, sem geri vafasamt að hækka vexti af nýjum lánum í þessari lánsstofnun, söfnunarsjóðnum, án þess að öðru leyti að fyrirkomulagi sjóðsins sé breytt, og víst er um það, að í skuldabréfaformi söfnunarsjóðsins er til heimild fyrir hvorn aðilann sem er, lánveitandann eða lántakandann, að segja upp lánum með hæfilegum fyrirvara, sem þar er til tekinn.

Ég vil svo minnast á það, að það er líka rétt, sem hv. frsm. sagði um fundarhald n. hér á dögunum, að ég var þar mættur á fundi, en var skyndilega kallaður í burtu, enda var mikið um fundarhöld hjá þingflokkunum þennan dag og ég vil segja lítið næði til þess að sinna nefndarstörfum. Ég átti þess vegna ekki kost á því að heyra skýringar forstjóra söfnunarsjóðsins, frú Gunnlaugar Briem, sem mun hafa mætt á fundinum, eftir að ég vék af honum.

Hv. frsm. minntist á það að lokum, að hann væri fús til, með tilliti til þess, sem á undan er gengið í þessu máli, að láta málið fá enn athugun í n. á milli þessarar umr. og næstu umr. Ég vil fyrir mitt leyti lýsa yfir því, að ég þigg það gjarnan og vildi óska eftir, að það færi svo sem hv. frsm. minntist á, að n. tæki þetta mál til nýrrar athugunar á milli umræðnanna, og vænti þá, að svo yrði til stillt, að við gætum haft um það ýtarlegan og truflunarlausan nefndarfund, þar sem skýringar gætu komið fram af hálfu beggja aðila.