08.04.1957
Efri deild: 84. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3090)

117. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. til umferðarlaga, sem hér er á dagskrá, er samið af fimm manna n., sem dómsmrh. skipaði fyrir röskum tveim árum. Frv. er allumfangsmikill bálkur. Það er í 90 greinum. Höfundar virðast hafa lagt mikla vinnu í samningu þess og vandað það hið bezta, enda var til þess rík ástæða. Fjórir nm. eru löglærðir, þeir Theódór Líndal prófessor, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður, Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti. Fimmti nm. var þáverandi vegamálastjóri Geir Zoëga.

Hinu nýja frv. er ætlað að koma í stað bifreiðalaga og umferðarlaga, sem nú eru í gildi. Er það í samræmi við lög á Norðurlöndum að hafa einn lagabálk um efni þau, er núgildandi bifreiða- og umferðarlög fjalla um. Höfundar frv. geta þess í grg., að það sé sniðið eftir norrænni löggjöf um umferðarmál, eftir því sem staðhættir og íslenzk viðhorf leyfa, enda er slíkt í fullu samræmi við meginstefnu íslenzkrar löggjafar yfirleitt. Þá hefur þess einnig verið gætt, að frv. væri í samræmi við alþjóðasamþykkt um umferðarmál frá 1949. Ísland er að vísu ekki aðili að þeirri samþykkt, en ekki er ólíklegt, að svo kunni að verða. Í grg. er og bent á það, sem rétt er að hafa í huga, að vandamál umferðarinnar, sem vissulega eru mörg og mikil og hafa farið vaxandi, eins og kunnugt er, verða ekki leyst með löggjöf einni saman. Aðstæður þær, sem við búum við, þ.e. hinar ytri aðstæður, skipta hér miklu máli. Er þar átt við gerð og ástand vega, breidd þeirra og legu, merkingu þeirra, skipulag bæja, umferðarleiðbeiningar, umferðarfræðslu o.s.frv. Hins vegar veltur mest á framkvæmd laganna af hálfu almennings, aðstöðu þeirri, sem þeim, er um framkvæmdina eiga að sjá, er sköpuð, og góðri samvinnu stjórnvalda og almennings um þessi mál.

Allshn. hv. deildar hefur unnið að athugun frv. um skeið. Hún hefur leitað umsagnar 14 aðila um frv. og fengið umsagnir 10 aðila. Hún hefur og rætt frv. eða ýmsa þætti þess við sakadómara, lögreglustjóra, forstöðumenn bifreiðaeftirlitsins í Reykjavík. N. hefur haft nokkurn stuðning af umsögnum þessum og viðtölum. Að rækilega athuguðu máli varð samkomulag um það innan n. að bera fram brtt. við 24 greinar frv., sumar lítilvægar, aðrar meiri háttar. Nm. hafa þó allir áskilið sér rétt til að fylgja brtt., er fram kynnu að koma, og einn nefndarmanna, hv. 1. landsk., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara.

Hæstv. forsrh. hefur látið mér í té til afnota ræðu, er hann hugðist flytja við 1. umr. málsins hér í hv. d., en því miður gat hann ekki komið því við að vera á deildarfundi, er 1. umr. um málið fór fram, og var ræðan því aldrei flutt. Áður en ég geri grein fyrir brtt. allshn., þykir mér rétt að lesa stuttan kafla úr þessari ófluttu ræðu hæstv. forsrh., sem er lauslegt yfirlit um þau nýmæli, sem frv. hefur að geyma, og kaflinn er á þessa leið:

„Þess má geta varðandi inngangskafla frv., að gildissviði laganna er ætlað að víkka nokkuð, þ.e. að þau gildi, eftir því sem við á, um umferð ökutækja á lóðum, lendum, afréttum og almenningum. Þá eru þar ýtarlegar orðaskýringar.

Annar höfuðkafli frv. fjallar um ökutæki. Helztu nýmæli eru þar ráðgerð lögfesting ákvæða um tæki til stefnumerkja og notkun þeirra á bifreiðum. Enn fremur er ráðgert, að lögboðnir verði svokallaðir ökuritar í allra stærstu og þyngstu bifreiðum. Eru það tæki, er skrá að staðaldri hraða bifreiðanna. Gert er ráð fyrir, að heimilt sé að fækka eða fjölga skoðunum ökutækja eftir gerð þeirra eða aldri. Þá eru í þessum kafla ákvæði um skyldu bifreiðarviðgerðarmanna til þess að vekja athygli á vanbúnaði bifreiða.

Í III. kafla frv. er fjallað um ökumenn. Er þar mjög mikils varðandi nýmæli, sem snertir sönnun áfengisáhrifa. Er í frv. tekin upp sú regla að ákveðinn hundraðshluti áfengis í blóðsýnishorni teljist sönnun fyrir áfengisáhrifum. Þessar reglur hafa um nokkurt árabil verið í gildi í Noregi og Svíþjóð, og er hundraðshlutalágmark það, sem í frv. er gert ráð fyrir,0.60%, aðeins hærra en í Noregi, sem miðar við 0.50%, en lægra en í Svíþjóð þar sem lágmarkið er 0.80%. Í Danmörku hefur enn ekki verið horfið frá hinu frjálsa mati sönnunar um þetta efni. Þá gilda þessar reglur frv. um akstur allra vélknúinna ökutækja, sem er víðara gildissvið en skv. núgildandi bifreiðalögum. Við hærra mark vínandamagns í blóði, þ.e. 1.30%, eru svo bundnar strangari refsingar. Frjálst mat áfengisáhrifa er látið haldast um akstur reiðhjóla og hestvagna. Það nýmæli er í frv. varðandi akstursréttindi, að heimilað er að gera auknar kröfur til þeirra, sem aka mjög stórum bifreiðum. Þá eru í kaflanum um ökumenn teknar upp ýtarlegar reglur um réttindi til aksturs dráttarvéla og annarra vinnuvéla, og er þar fjallað um efni, sem mjög eru vandsettar reglur um.

Í IV. kafla frv., sem fjallar um umferðarreglur, eru margvísleg nýmæli, einkum í sambandi við nýja umferðartækni síðustu ára, svo sem í sambandi við einstefnuakstur, aðalbrautarakstur, notkun stefnumerkja og akstur sérstaklega stórra bifreiða, enn fremur reglur um akstur, þar sem ákveðnir væru fleiri sérstaklega merktir akreitir á vegum til aksturs í sömu átt. Eru allar þessar reglur miðaðar við að gera akstur greiðari, sem mikil nauðsyn er á í fjölbýli, þar sem nærri liggur að gatnakerfið geti ekki skilað fram þeirri umferð, sem á það er lagt. Umfram allt eiga þó sem skýrastar reglur að auka á öryggi í umferðinni.

Af öðrum nýmælum má nefna reglur um merktar leikgötur, þar sem umferð ökutækja er að mestu bönnuð. Þá er lögð sérstök varúðarskylda á akstur, þar sem barna er sérstaklega að vænta í umferðinni, svo sem við skóla og leikvelli. Sérstakar reglur eru settar um merkingu muna, sem skildir eru eftir á alfarabraut. Um nýmæli varðandi almennar umferðarreglur má nefna, að gert er ráð fyrir að hverfa frá hinum kröppu beygjum til hægri. Heimilað er að aka vinstra megin fram hjá, ef ökumaður, sem á undan fer, hefur gefið greinileg merki um, að hann muni beygja til hægri. Þá eru þau nýmæli um aksturshraða, að hámarkshraði á þjóðvegum hækkar í 70 km á klukkustund, þó ekki á stærstu bifreiðum, sem áfram er ætlaður 60 km hámarkshraði. Hámarkshraði í þéttbýli er hækkaður í 45 km á klukkustund, en haldið heimild til ákvörðunar í lögreglusamþykktum um lægri hámarkshraða. Bifreiðum, sem draga vagna, er settur 45 km hámarkshraði. Aldursmörk eru sett um akstur reiðhjóla á alfaravegum og ýmsar fleiri reglur um meðferð reiðhjóla. Varðandi umferð gangandi manna, þar sem ekki eru gangbrautir, er sett sú regla, að gengið skuli hægra megin á vegi.

V. kafli frv. fjallar um umferðarstjórn og umferðarmerki.

Í VI. kafla eru reglur um fébótaábyrgð og vátryggingu. Ráðgert er að breyta fébótaábyrgðarreglum í algerða eða „objektíva“ ábyrgð, sem er að vísu fremur breyting á orðum en framkvæmd eldri reglna, sem í reyndinni hafa orðíð að „objektívri“ ábyrgð. Fébótaábyrgð og skyldutrygging er ætlað að ná til fleiri ökutækja en skv. gildandi ]ögum. Það nýmæli er um svokallaða kaskótryggingu, sem í frv. er kölluð húftrygging, að vátryggingartaka er ætlað að bera á eigin áhættu fyrstu 1000 kr. af hverju eigin tjóni. Nýmæli eru um meðferð á endurkröfurétti tryggingarfélaga.

Þá er í VII. kafla fjallað um refsingar fyrir brot gegn lögunum. Þess má geta fyrst, að gert er ráð fyrir eins árs fangelsi sem hámarksrefsingu í stað ótakmarkaðs refsiramma áður. Þessi breyting er þó eingöngu fræðilegs eðlis og ekki til þess ætluð að lækka refsingar, enda mun hærri refsingu aldrei hafa verið beitt vegna brota á bifreiða- og umferðarlögum út af fyrir sig. Er þetta ákvæði samkvæmt norrænum umferðarlögum. Að ýmsu leyti eru refsingar annars þyngdar skv. ákvæðum frv. Heimild til ökuleyfissviptingar er rýmkuð að mun í frv., en jafnframt gerð þjálli, þannig að meiri mun sé hægt að gera á meiri háttar og minni háttar brotum. Sviptingin varðar rétt til að stjórna vélknúnu ökutæki í stað bifreiðar áður. Ölvun með 1.30% áfengismagns í blóði er látin varða eigi minna en eins árs sviptingu ökuleyfis. Reglur um endurveitingu ökuleyfis eru svipaðar og í gildandi lögum, en heimild þó rýmkuð. ef mjög langt árabil er liðið frá sviptingu.

Í VIII. kafla frv. er ráðgerð umferðarfræðsla, bæði fyrir almenning og þó einkum í barna og unglingaskólum.

Loks er í IX. kafla frv. meðal annars að lokum gildistökuákvæði, sem gerir ráð fyrir, að lögin fái gildi sex mánuðum eftir staðfestingu.“

Þetta var mjög lauslegt yfirlit yfir nýmæli frv., sem hæstv. forsrh. hefur tekið saman. Nýmæli þau, sem hæst ber á í þessari upptalningu eða mér sýnast mestu varða, eru þrjú: Í fyrsta lagi ákvæðin um ökuhraða, sem er aukinn frá því, sem nú gildir, í öðru lagi ákvæðin um sönnunarreglur um ölvun við akstur og refsingar og ökuleyfissviptingar í því sambandi og í þriðja lagi lögfesting hinnar svokölluðu „objektívu“ ábyrgðarreglu.

Áður en lengra er haldið, er rétt að geta þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að vinstri handar akstur haldist hér eftir sem hingað til. Ýmis rök mæla með því, að þessu verði breytt, en allshn. hefur þó ekki treyst sér til þess að leggja til, að því verði breytt, enda þótt slíkt væri auðvelt án þess að raska frv. mjög mikið. Taldi n. gagnrökin það veigamikil, að ekki væri gerlegt að breyta þessu. Þetta er að sjálfsögðu álitamál og verður vafalaust rannsakað og rætt hér á hinu háa Alþingi, áður en frv. verður fullafgreitt.

Þegar núgildandi bifreiðalög og umferðarlög voru sett fyrir 17 árum, var það ágreiningsefni hér á hinu háa Alþ„ hvort tekinn skyldi upp hægri handar akstur eða ekki. Málinu lauk þannig, að ákveðið var, að svo skyldi gert, og var það lögfest. En þetta kom þó ekki til framkvæmda. Breytingunni var frestað, og síðar var hún felld niður vegna utan að komandi ástæðna, sem öllum eru kunnar, hersetu fjölmenns herliðs frá landi með vinstri handar umferð.

Fyrir 20 árum var gert ráð fyrir, að breyting í hægri handar umferð mundi kosta 30 þús. kr., en nú er áætlað, að kostnaðurinn nemi 5 millj. og 600 þús. kr., og gera má ráð fyrir því, að þessi kostnaður aukist með hverju ári sem líður.

Ég fjölyrði ekki meira um þetta, en vík nú að því að gera grein fyrir brtt. allshn. á þskj. 410.

Brtt. 1 er við 2. gr. frv. Fyrri liður brtt. er einungis orðabreyting. N. gat ekki fellt sig við orðið akreitur. Reitur er flötur, sem afmarkaður er á fjóra vegu. Hér er hins vegar átt við braut, sem fyrst og fremst er afmörkuð á tvo vegu, til hliðanna. Á dönsku er þetta vognbane og á ensku lane. Málhagur maður, sem ég kann því miður ekki að nefna, en mun vera verkfræðingur hjá Reykjavíkurbæ, hefur bent á, að heppilegra orð sé akrein. Til er orðið akurrein, sem er löng og mjó akurspilda, og er orðið akrein hugsað á líkan hátt. Ég bar þessi orð undir Halldór Halldórsson dósent, og felldi hann sig allvel við orðið akrein í þessu sambandi.

B-liður 1. brtt. um niðurfellingu á orðunum „einnig vélknúið ökutæki, sem gangandi maður stjórnar“ byggist á því, að n. þótti ekki efni til, að lögin tækju til þessara tækja, sem fyrst og fremst eru garðsláttuvélar, garðplógar og önnur slík minni háttar tæki.

2. brtt. er við 5. gr. og fjallar um, að rauð glampagler skuli vera á pallhornum vörubifreiða að aftan. Það er alkunnugt, að mjög alvarleg slys hafa átt sér stað þannig, að bifreiðum hefur verið ekið aftan undir vörubifreiðir, sem staðið hafa í myrkri á alfaravegi. Hins vegar má segja, að ákvæði sem þetta um glampaglerið mætti setja í reglugerð, en allshn. þótti sem þetta væri það mikils varðandi, að full rök lægju til þess, að þetta væri tekið upp í frv. sjálft.

2. brtt. við sömu grein, sem merkt er b á þskj., fjallar um svonefnda ökurita. Ökuriti er tæki, sem reynt hefur verið í allmörgum löndum og skráir á þar til gerð eyðublöð hraða bifreiðarinnar á hverjum tíma. Tækin veita bifreiðaeigendum mikilvægar upplýsingar og sömuleiðis löggæzlumönnum. Í frv. er gert ráð fyrir, að tæki þessi skuli vera í fólksbifreiðum, sem rúma 30 farþega eða fleiri, og enn fremur í vörubifreiðum, sem flytja mega 5 smálesta þunga eða meir. Hér er um merkilega nýjung að ræða, en með tilliti til þess, að engin reynsla er af þessu hér á landi og tækin kosta nokkurt fé, talið, að það muni vera um 2000 kr. í hverri bifreið, þykir allshn. eftir atvikum hæfilegt eða nægilegt, að ökuriti skuli að svo komnu aðeins vera í 30 farþega fólksbifreiðum og stærri, og leggur til, að niður verði fellt úr frv., að hann skuli einnig vera í vörubifreiðum.

3. brtt. er við 6. gr. og fjallar um búnað dráttarvéla. Í frv. er gert ráð fyrir, að dráttarvélar skuli hafa auk ýmissa annarra öryggistækja bæði stefnumerki og hraðamerki. Hvorugt þessara tækja er í dráttarvélum, og mundi því verða að setja þau í allar slíkar vélar, ef ákvæðið yrði lögfest óbreytt.

Allshn. leggur til, að ákveðið verði í reglugerð, hver skuli vera öryggisbúnaður dráttarvéla, en telur enga þörf fyrir stefnumerkjatæki eða hraðamæla í þær. Vélarnar eru hæggengar og auðvelt að gefa glögg stefnumerki með hendinni fyrir ökumenn þeirra.

4. brtt. er við 11. gr., og í till. felst, að niður verði fellt úr frv. nýmæli um skyldu til að umskrá ökutæki, sem notað er í atvinnuskyni í 6 mánuði eða lengur utan heimilissveitar. Slíkt hefur í för með sér kostnað og fyrirhöfn, sem nefndin telur ekki nauðsyn á.

5. brtt. er við 12. gr., 1. mgr., að niður verði felld orðin „þegar ökutæki er í notkun“. Þetta skýrir sig sjálft, þegar menn athuga greinina, og þarf ekki um að ræða.

6. brtt. er við 15. gr. Lagt er til, að bifreiðaeftirlitsmenn fái lögregluvald í starfi sínu. Slíkt gefur þeim meiri myndugleika og getur orðið til þess, að þeir þurfi síður að leita lögreglustjóra eða lögreglumanna um aðstoð í starfinu.

7. brtt. er við 17. gr. og gengur út á það, að niður verði fellt það nýmæli frv., að farmsþyngd og heildarþyngd vörubifreiðar skuli skráð á hliðar hennar. Þessar upplýsingar eru skráðar á skráningarskírteini bifreiðarinnar og geta löggæzlumenn séð þær þar, og ætti það að nægja, en skírteini þetta ber að geyma í bifreiðinni.

Þá er 8. brtt. Hún er við 19. gr., 4. mgr., og á þann veg, að bætt sé inn í greinina ákvæði um, að verkstæðisformaður skuli tilkynna bifreiðareiganda, ef öryggisbúnaði bifreiðar er áfátt, en ákvæði um þetta þótti n. eiga heima þarna. Enn fremur er þarna breyting í þá átt, að tilkynna beri bifreiðaeftirlitsmanni eða lögreglustjóra, ef ekki verður úr bætt því, sem áfátt er um stjórntæki og meiri háttar galla á bifreiðinni. Þarna leggur nefndin til að bætt verði inn í: eða lögreglustjóra — því að víða verður ekki náð til bifreiðaeftirlitsmanna. Eins og greinin er í frv., virðist hún sniðin fyrir Reykjavík og þá kaupstaði, þar sem bifreiðaeftirlitsmenn hafa aðsetur.

9. brtt. er við 22. gr. Frvgr. gerir ráð fyrir, að skoðunargjald verði árlega greitt af öllum skráningarskyldum ökutækjum, en auk bifreiða og bifhjóla er hér um að ræða reiðhjól með hjálparvél, sem í daglegu máli kallast skellinöðrur, dráttarvélar og vinnuvélar, svo sem veghefla, snjóhefla skurðgröfur og mörg önnur tæki. Samkvæmt gildandi lögum ber ekki að greiða skoðunargjald af öðrum vélknúnum ökutækjum en bifreiðum og bifhjólum. Yrði frvgr. lögfest óbreytt, er þar með búið að leggja nýtt gjald á dráttarvélar, vinnuvélar og skellinöðrur. Til þessa þótti n. ekki næg ástæða og leggur hún því til, að gr. verði orðuð um á þann hátt, sem greinir á þskj. 410, en þar er gert ráð fyrir, að lagt verði á vald dómsmrh. að setja reglur um skoðunargjald.

10. brtt. er við 24. gr. og fjallar um það, að inn í hana verði bætt nýrri málsgrein: Enginn má neyta æsandi eða deyfandi lyfja við akstur vélknúins ökutækis. — Ég vil geta þess, að ég er ekki fyllilega ánægður með þessa brtt., enda þótt ég teldi ekki næga ástæðu til að gera ágreining þar um. Ég held nefnilega, að engin viðurkennd skilgreining sé til um, hvað teljast skuli æsandi eða deyfandi lyf. Læknir okkar í nefndinni, hv. 1. landsk., lagði áherzlu á, að ákvæði þessu yrði bætt í greinina.

Brtt. við 24. gr., sem merkt er b, er sennilega leiðrétting á prentvillu í frv. eða ritvillu í handriti og þarf ekki skýringar við.

11. brtt. er við 25. gr. Till. er aðallega í því fólgin, að ákvæði er sett inn um það, að ef maður, sem grunaður er um að hafa verið undir áfengisáhrifum við bifreiðaakstur, synjar að láta taka úr sér blóðsýnishorn, til þess að vínandamagn blóðsins verði rannsakað, skuli svo litið á, að hann hafi við aksturinn verið undir áhrifum áfengis, nema hann geti fært gild rök fyrir synjun sinni.

Alltaf er hætta á, að menn synji um að láta taka úr sér blóð í þessu sambandi í von um, að þá verði ekki unnt að sanna, að þeir væru með áhrifum áfengis. Tvær leiðir eru til þess að fyrirbyggja þetta. Önnur er sú að skylda lækna með lögum til að taka blóðsýnishorn þrátt fyrir neitun þess, sem í hlut á, en læknar hafa jafnan neitað að taka slík blóðsýnishorn án samþykkis hlutaðeiganda. Hin leiðin er sú, sem felst í brtt., og þótti hún eftir atvikum réttari, einkum vegna þess, að læknar eru mjög á móti því, að skylda sú, sem hér um ræðir, verði þeim á herðar lögð. En ég vil samt geta þess, að það kynni að vera ástæða fyrir nefndina til að taka þessa brtt. til athugunar, vegna orðalags hennar, sem ég við nánari athugun er ekki alls kostar ánægður með.

Breyting sú, sem merkt er b, við 25. gr., er nýmæli og lagt til, að nýrri mgr. verði skotið inn í gr., á þessa leið: Hverfi ökumaður af vettvangi, eftir að hann hefur átt hlut að umferðarslysi og náist skömmu síðar undir áfengisáhrifum, skal talið, að hann hafi við aksturinn haft það áfengismagn í blóði, er hann þá hefur. — Hér er lagt til, að lögfest verði sönnunarregla um þessi efni. og er það að gefnu tilefni. Það hefur stundum komið fyrir, að ökumaður, sem slys hefur hent við akstur, hraði sér af vettvangi, áður en löggæzlumenn koma á slysstað, og þegar til hans næst, situr hann sakleysislega við drykkju og staðhæfir, að hann hafi ekki hafið drykkjuna, fyrr en eftir að slysið átti sér stað. Með þessu háttalagi er oft loku skotið fyrir það, að unnt sé að staðreyna það rétta í þessu efni, og er brtt. fram borin til þess að koma í veg fyrir það.

Ég man eftir nokkrum tilfellum slíkum. Í einu þeirra sat ökumaður úti í móa skammt frá slysstað og þambaði áfengi, þegar lögreglumenn komu að honum, og staðhæfði auðvitað, að sér hefði orðið svo mikið um slysið, að hann hefði orðið að fá sér hressingu.

12. brtt., sem merkt er a, er við 27. gr., sýnist sjálfsögð og þarf ekki skýringar við að öðru leyti en því, að hingað til hefur ekki þurft vottorð læknis nema um sjón, heyrn og líkamsbyggingu til þess að fá ökuskírteini. Hér mundi bætast við: flogaveiki og svipaðir sjúkdómar.

Brtt. d við 27 gr. er um breytingu á einu orði, sem nauðsynleg er, ef brtt., sem snertir a, verður samþykkt.

13. brtt. a, við 28. gr., er einungis um lagfæringu á orðalagi, en 13. brtt. b er um það að fella niður úr 28. gr. 15 ára aldursmark fyrir þá, sem stjórna dráttarvélum utan alfaravega. Hingað til hefur þetta aldursmark verið 18 ár, en öllum er kunnugt, að aldursmarki þessu hefur aldrei verið fylgt. Nm. eru sammála um, að sama máli muni gegna, þótt aldursmarkið yrði lækkað í 15 ár, og telja betra að hafa ekkert lagaákvæði um þetta heldur en að hafa ákvæði, sem að vettugi er virt. Búnaðarþing, sem haldið var í vetur, lagði áherzlu á, að aldursmarkið verði numið brott. Verði það gert, eins og lagt er til í brtt., ber hver eigandi eða umráðamaður dráttarvélar ábyrgð á, að ekki verði öðrum fengin stjórn slíkrar vélar en þeim, sem til þess eru fullfærir. Hins vegar er 16 ára aldursmark til þess að aka dráttarvél á vegum, og þarf sérstakt skírteini til samkvæmt frv., ef menn hafa ekki ökuskírteini fyrir bifreiðar.

14. brtt., við 31. gr., fjallar um það, að ekki sé við hæfi, að maður, sem orðið hefur sekur um alvarleg brot á áfengislögum, öðlist réttindi til þess að vera ökukennari, og þarf ekki um að ræða.

15., 16., 17., 18., 19. og 20. brtt. eru aðeins orðabreytingar. Lagt er til, að í stað orðsins „vegarbrún“ komi: brún akbrautar. — Á þessu er nokkur efnismunur, þar sem „vegur“ er rýmra hugtak en „akbraut“, nær yfir gangstétt og reiðvegi auk akbrautar. Þótti n. því rétt að breyta þessu, þar sem alls staðar er átt við akbrautarbrún, þar sem rætt er um vegarbrún í frv. Í þessum greinum er og orðinu „akreit“ breytt í akrein í samræmi við brtt. n. við 2. gr.

21. brtt. er við 16. gr., um aldursmark þeirra, sem reiða mega börn á reiðhjóli. Lagt er til, að aldursmarkið verði 17 ár í stað 18. Væri það nánast til samræmis við ökuleyfisaldur bifreiðarstjóra.

22. brtt. fjallar um ríðandi menn, og hún er við 63. gr. frv. Lagt er til, að þeir haldi sig á hægri hluta vegar, en ekki vinstri, svo sem verið hefur og frv. gerir ráð fyrir að verði óbreytt. Talið er, að betra sé að hafa bifreiðaumferð á móti ríðandi mönnum heldur en á eftir. Er þá síður hætta á, að hestar fælist. Þetta er algert nýmæli, og má vera, að menn greini á um það.

23. brtt. er við 76. gr. og miðar í þá átt, að bifreiðaeigendur fái málsvara á sama hátt og vátryggingafélög í nefnd þeirri, er greinin ráðgerir að skipuð verði til þess að kveða á um endurkröfurétt vátryggingarfélaga samkv. 73. gr. frv. á hendur þeim, sem valdið hefur tjóni eða slysi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

24. og síðasta brtt. er við 89. gr. og um það, að hækkun vátryggingarfjárhæðar samkv. 70. gr. skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. maí 1958. Eru þau rök til þess, að vátryggingar bifreiða hér á landi miðast við 1. maí, og telja vátryggingarfélög mjög miklum erfiðleikum bundið að breyta þessu á miðju vátryggingarári.

Hef ég þá leitazt við að gera grein fyrir öllum brtt. n. í örstuttu máli. Það er skoðun mín, að frv. sé vel unnið og vandað, og segja má. að ekki hafi verið vanþörf á að endurskoða bifreiða- og umferðarlög, sem eru 17 ára gömul. Þegar tillit er tekið til hinnar öru þróunar, sem átt hefur sér stað í þessum efnum síðan, einkum vegna aukningar þéttbýlis og stórlega aukins fjölda ökutækja af ýmsum gerðum, væri æskilegt margra hluta vegna, ef hið háa Alþingi gæti lokið fullnaðarafgreiðslu þessa máls á þessu þingi.